Áhugaverðasta endurlitið 2023: Erró: Sprengikraftur mynda

Viðurkenningu fyrir áhugaverðasta endurlitið hlaut Listasafn Reykjavíkur fyrir sýninguna Erró: Sprengikraftur mynda í sýningarstjórn Danielle Kvaran og Gunnars B. Kvaran. Um sýningarhönnun sá Axel Hallkell Jóhannesson.

islensku myndlistarverdlaunin 2023-Erró. Odelvíðátta, 1982-83. Úr safni Listasafns Reykjavíkur – Errósafn.

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

Sýningin spannaði feril Errós frá upphafi til líðandi stundar. Heiti sýningarinnar endurspeglaði ekki aðeins ögrandi myndmálið og ólguna sem einkennir listsköpun þessa mikilvirka listamanns og hið taumlausa ímyndaflæði samtímans er hún tjáir, heldur gaf hún einnig tóninn fyrir umfang sýningarinnar sem fyllti út í hvern krók og kima Hafnarhússins, ef svo má segja. Þar gat að líta glæsilegan vitnisburð um víðfeðmt sköpunarsvið Errós í formi málverka, grafíkmynda, samklipps, tilraunakvikmynda, gjörninga, skúlptúra og lágmynda, auk ljósmynda frá ferli listamannsins og annars fróðleiks.

Sýningin veitti heildstætt og greinargott yfirlit um feril Errós allt frá því er hann hóf að marka sér sérstöðu í evrópskum listheimi á sjötta áratugnum, þar sem hann lét fljótlega að sér kveða á vettvangi framúrstefnu með tilraunum sínum með ný tjáningarform, fram til þess tíma er hann mótaði og þróaði þann frásagnakennda og margbrotna myndheim sem hann hefur löngum verið þekktastur fyrir.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur