Morsekóði og frumefni í bland við stjörnufræði og goðafræði

25.01.2023
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Nýlega fluttist myndlistarkonan Anna Júlía Friðbjörnsdóttir tímabundið frá Reykjavík til Berlínar. Tilefnið var styrkur til ársdvalar í virtu þýsku gestavinnustofunni Künstlerhaus Bethanien, stofnuð 1975. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar stofnaði til samstarfs við Künstlerhaus Bethanien árið 2020 til að veita íslenskum myndlistarmönnum tækifæri til að dvelja hjá stofnuninni. Dvölin er styrkt af Menningarmálaráðuneytinu og Viljandi, minningarsjóði. Áður hafa Styrmir Örn Guðmundsson og Elín Hansdóttir hlotið styrkinn.

Anna Júlía vinnur þvert á miðla og verkin taka mið af bæði sögulegum og samtímatengdum málefnum en samhliða segist hún vinna mikið með andstæður, bæði í hugmyndum og efni og með því að blanda saman handgerðu og frumstæðu, við vélgert og tæknilegt og stilla saman með vísunum í ólíkan tíma.

Ég sæki innblástur í staðbundna sögu og pólitík sem ég svo sameina í víðara sögulegt samhengi og lagskiptar tilvísanir í ýmsar heimildir. Ég hef jafnmikin áhuga á listasögu, náttúrufræði, mannfræði og þjóðfræði.

Ég vinn frekar staðbundið inn í samhengi og rými og reyni að leggja hlutina þannig upp að verkin séu lagskipt þannig og að skilningur geti verið á mismunandi vegu. Ég hef oft unnið innsetningar og verk úr forgengilegum efnum, þau eru til á meðan á sýningunni stendur en lifa ekki áfram. Þá passa þau akkúrat inn í eitthvað umhverfi og svo ekki meir. Ég hef t.d. gert kerti út tólg sem voru bara í einni afsteypu hver hlutur og brunnu upp á sýningartímanum.

Ég vinn oft þannig að ég er með ákveðið efni sem mig langar að nota og ákveðna hugmyndafræði, hlutirnir mætast svo og taka á sig form. Efnin verða oftar en ekki fyrir valinu vegna innbyggðra einleika þeirra, eru er gjarnan frumefni, eða tilvísun í ákveðið frumefni. Eiginleikar efnisins spilar þannig þátt í hugmyndafræði verka á sama tíma og vera ´byggingarefni´ þeirra. Svo getur kveikjan alveg eins verið á hinn veginn, einhver hugmynd eða bundið við tungumálið.

Ætli megi ekki segja að myndlistin mín sé rannsóknartengd en ég kýs að kalla þetta grúsk, ég safna að mér upplýsingum úr ólíkum áttum og nýti í allskyns samsetningum og samhengi. Mér finnst það mjög gaman og er mjög fróðleiksfús en ég þarf oft að stoppa mig af í grúskinu og byrja að framkvæma. Það er svo mikilvægur hluti af ferlinu en ég á það til að plana allt mikið og sjá hluti fyrir mér, svo breytist allt þegar maður byrjar að prófa efni og framsetningu. Þá sér aðrar leiðir eða það kveiknar eitthvað nýtt og spennandi. Tilraunir með efni og miðla er auðvitað rannsókn líka og eitthvað sem allir myndlistarmenn fást við.

Anna Júlía hefur dvalið í Berlín síðustu mánuði og verið með vinnuaðstöðu í Künstlerhaus Bethanien. Í stofnuninni er að finna 730 fm sýningaraðstöðu, 25 vinnustofur auk smíða-, járn- og plastsverkstæði og hljóð- og myndsmiðju til að vinna stafrænt efni. Anna hefur nú þegar framleitt nokkur verk og ætlar sér að nota verkstæðin til að þróa fleiri verk.

Ég vildi nota tækifærið og gera ný verk með tækni og þekkingu sem ég gæti ekki fundið hérna heima. Ég lagði upp með útlínur af verkefnum sem urðu tvö aðskild verkefni fyrir tvær sýningar. Einnig er mikilvægt að nota þetta tækifæri til að kynnast fólki, víkka tengslanetið og svo framvegis.

Ég er að líka að nýta mér tækifærið hér í Berlín til að skoða ýmis sögu- og tækniminjasöfn. Það eru ótrúleg söfn hérna, auðvitað listasöfn en líka söfn sem endurspegla mikla verkfræðiþekkingu og nýlendustefnuna.

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Yfirlitsmynd, Phosphoros. Ljósmynd: Axel Sigurðsson.

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Nærmynd, Phosphoros. Ljósmynd: Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Innsetningin Phosphoros var til sýnis í samsýningunni Iðavelli í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, árið 2021. Sýningin leiddi saman fjórtán listamenn sem þykja vera í mestum vexti og blóma á sínum ferli og leiðandi afl sinnar kynslóðar. Phosphoros var unnin sérstaklega fyrir sýninguna og samanstendur af veggteikningum, perlulengjum, hljóði og útfjólubláu ljósi. Innblásturinn kemur úr goðafræði, efnafræði, náttúrufyrirbærum og hellamálverkum. Stuttu seinna var verkið valið sem forsíðumynd fyrir tímaritið „Myndlist á Íslandi“, 2. tölublað, sem kom út 2022.

Verkið byggir á beinaösku sem ég fékk frá Ísal, álverinu í Straumsvík. Askan er úr dýrabeinum og er nýtt við aðferð sem hefur verið notuð frá miðöldum í málmvinnslu. Askan er notuð í rásirnar til að koma í veg fyrir að álið festist við. Hún er líka notað í leir, eða postulín sem kallast þá bone china.

Ég var búin að vera að hugsa mikið um mýtuna Phosphoros, gríska goðsögn sem er í raun sama sagan og af Lúsifer sem er latneska heitið. Hún tengist hugmyndinni um ljósberann og hefur verið til í ýmsum útgáfum hjá mörgum menningarsamfélögum. Eins og margar goðsagnir þá kviknar þessi út frá stjörnuhimnunum, í þessu tilfelli gangi Venusar.

Í verkinu er beinaaskan táknræn fyrir frumefnið fosfór (e. phosphorus). Þegar frumefnið fannst var því gefið þetta nafn “phosphorus” af því að það sjálflýsandi – í raun ´bearer of light´. Fosfór er ríkt í beinum þú sérð það t.d. á því að tennur verða sjálflýsandi í útfjólubláu ljósi. Fosfór er lífsnauðsynlegt öllu lífi en mesta notkunin í iðnaði er sem áburður í landbúnaði. Vinnsla efnisins í dag skapar ójafnvægi því það hefur verið tekið út úr náttúrulegri hringrás og verður þá mjög mengandi. Í stærra samhengi er frumefnið dæmi um tæmandi auðlind sem við erum að ganga hratt á.

Innsetningin var í rými sem var almyrkvað og eini ljósgjafinn er útfjólublátt ljós. Áhorfendur ganga inn í rýmið og upplifa myrkur. Hægt og rólega aðlagast sjónin aðstæðum og augað nemur teikningarnar en lýsingin veldur því að þrívíddaráhrif myndast. Drungalegt hljóð er einnig partur af innsetningunni og litlar kúlur festar saman í lengjur hanga úr loftinu á nokkrum stöðum.

Rýmið sem ég mér var úthlutað í Hafnarhúsinu hafði áhrif á verkið. Það var frekar ílangt og lágt til lofts og ég fékk einhverja hellatilfinningu þarna inni svo ég ákvað að vinna með það. Ég var búin að vera að hugsa um að gera krít og teikna á veggina og fór þá að skoða hellamálverk líka. Mig langaði að skapa tilfinningu fyrir óræðum aðstæðum, eins og það hefði eitthvað verið á seyði þarna inni jafnvel einhver athöfn eða ritual átt sér stað, jafnvel tilbeiðsla.

Til að leggja áherslu á efnið notaði ég útfjólublátt ljós til að undirstrika eiginleika fosfórs og ljóssins almennt en það er endurtekið stef í gegnum verkið. Myndefnið er tré og sólarpanelar af könnunarförum og gervitunglum, e. space probes and satellites. Ég teiknaði bara sólarpanelana af þessum förum og þau blandast saman við allskonar tegundir af trjám. Þessi ólíku fyrirbæri, lífverur og tæki eru hvoru tveggja vinna orku úr sólarljósinu, þetta eru lífrænir og vélrænir ferlar. Það er aðallega uppbygging myndanna sem er inspíreruð af hellamálverkum. Sumt eru útlínuteikningar en sumt er eins og stenslar, og þær eru í klösum dreifðum um allt rýmið.

Ég bjó líka til perlulengjur úr efninu, blandaði beinaösku við steinleir og hnoðaði kúlur. Þær eru áberandi handgerðar, ójafnar kúlur. Það eru þrjár lengjur sem hanga þarna víðsvegar í rýminu og þær stafa tölur í morsekóða. Þetta eru töluleg gildi, eða tölulegar upplýsingar: þyngdaraflsins, ljóshraðans og vegalengdarinnar upp í geim (Kármánlínan) sem er 100 km.

Hljóðið er upptaka af rafsegulsviði Venusar sem hefur verið breytt í hljóð, enda ekkert hljóð í geimnum.

Upplifun verksins reynir töluvert á skynfæri áhorfandans, bæði takmarkar lýsingin sjónræna skynjun og við bætist hljóð sem skapar ákveðna óræða stemningu. Saman skapast óvissa í lestri verksins.

Hugmyndin er að það sé ekki alveg ljóst hvað hefur átt sér stað. Hljóðið gerir innsetninguna dálítið drungalega og gerir verkið frekar skrítið.

Útfjólubláu ljósin þjónusta verkið svo þú sjáir teikningarnar, af því að það er myrkur og þær eru sjálflýsandi. Auk þess breyta þau aðeins ásýnd myndanna því að mismunandi þykkt lag af krítinni framkallast á missterkan hátt í ljósinu sem gerir það að verkum að það myndast þrívíddaráhrif sem skapa óþægindatilfinnu í fyrstu á meðan sjónin aðlagast ástandinu. En ljósin skapa líka einhvers konar stemningu rannsóknar og gæti bent til að verið væri að skoða hellateikningar, örverur eða annað ástand.

Ég er að hugsa um stöðuna í dag, hvernig manneskjan er búin að breyta ferlum og hringsrás í vistkerfum og í náttúrunni. Verkið er að vísa í allt þetta. Ofuráhersla okkar á framþróun, á að ná lengra, á orkuna, auðlindanýtingu osv.frv. En það er alveg óljóst hvaða sena þetta er – erum við í framtíðinni að horfa á leifar frá okkar tíma í dag, er þetta núna, eða er þetta kannski bara hluti af setti í kvikmynd? Mér finnst spennandi að rugla með tíma – eða tilfinningu fyrir tíma, gömlu og nýju, eða frumstæðum og nútímalegum, og á svipaðan hátt stilla saman vísindalegum upplýsingum og skrauti.

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Yfirlitsmynd, Last Season. Ljósmynd: Ivonne Thein

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Nærmynd, Last Season. Ljósmynd: Ivonne Thein

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Nærmynd, Last Season. Ljósmynd: Ivonne Thein.

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Nærmynd, Last Season. Ljósmynd: Ivonne Thein

Nýlega opnaði Anna Júlía sína fyrstu einkasýningu erlendis, í Gallery Guðmundsdóttur sem er staðsett í Berlín. Að sögn Önnu var hún meðvituð um að vinna varanleg verk sem pössuðu inn í ramma gallerísins. Sýningin bar titilinn „Last Season“ og samanstóð af fjórum skúlptúrum og tveimur myndaseríum. Efnistökin náðu yfir vítt svið allt frá stjörnufræði yfir í tískuheiminn.

Titillinn er vísun í tískuheiminn en líka orðaleikur í samhengi við hugmyndirnar sem liggja að baki sýningunni og er kannski dálítið apokalíptískur. Öll verkin bera heiti úr tískuheiminum: Pre-fall, Runway, Silhouette o.s.frv. Mér finnst áhugavert hvernig þessi iðnaður býr til ný árstíðagheit af því að þjónar markaðsöflunum og mér fannst þetta bara prýðilegur rammi utanum verkin. Ég reyni yfirleitt að setja mér einhvern ramma að vinna innan því annars er ég útum allt, það er alveg nóg samt.

Ég er mikið að hugsa um tímann og lestur á tímanum og sá sýninguna fyrir mér með tvo ása, fram og aftur í tíma, en líka lóðrétt, upp og niður í rúmi. Það er verið að horfa upp í stjörnuhimininn en og alveg niður í það lengsta sem við komumst í sjávarbotninum, sem er einhver órannsökuð stærð líka.

Hugmyndin um áttun er eitthvað sem ég hef verið mjög upptekin af, e. orientation. Að átta sig og siglingafræði, e. navigation, hef ég áhuga á, bæði í bókstaflegum skilningi og symbolískt í sambandi við hvert við erum að fara sem heild. Ég hef oft vísað í siglingarfræðina í þessu samhengi, og tengt við lestur okkar á aðstæðum og skynjun á tíma í náttúrunni. Ég held við þekkjum þetta vel á Íslandi og erum ennþá frekar tengd umhverfinu en þessi tengsl eru að breytast og hverfa. Árstíðarnar virðast einnig vera að breytast og verða kannski ekki eins og þær voru. Ég er líka að pæla í hvernig við staðsetjum okkur í tíma og rúmi. Verkin sem ég var að gera í þessari sýningu tengjast þessum þráðum.

Þrír skúlptúrar eru afsteypur af beinum tegunda sem eru útdauð eða í útrýmingarhættu, annarsvegar rifbein og axlarblað úr íslandssléttbaki og hins vegar tönn úr útdauðri rostungstegund. Beinin úr sléttbaknum eru í raunstærð í mjög nákvæmum eftirmyndum fræstum út í polyurethane efni algengt í mótagerð. Rostungstönnin er einnig í raunstærð en er afsteypa úr gifsi.

Ég vissi af rannsókn Náttúruminjasafns Íslands á Íslandssléttbak, sem er tegund í mikilli útrýmingarhættu. Safnið hefur aðgang að heilli beinagrind af hval sem talið er að hafi verið drepinn seint á 19. öld við Íslandsstrendur og er núna í Danmörku. Það er búið að skanna þessa beingrind og gera fullkomið þrívíddarskann og mig langaði að nota það. Ég valdi mér tvö bein úr hvalnum og lét framleiða fyrir mig í Berlín, axlarblaðið sem er beinið með mesta flötinn og svo minnsta rifbeinið í hvalnum. Ég var með óljósar hugmyndir um hvað ég ætlaði að gera en ég vildi nota beinin eins og striga til að vinna á. Ég ákvað svo að nota frumgerðina úr þrívíddarframleiðslunni sem er úr n.k. þéttu frauði í einkennilega bleikum lit. Vegna eiginleika efnisins fannst mér augljóst að nota það til að skera út í og skreyta með aðskotahlultum frekar en að t.d. mála á það. Mér fannst það líka skemmtileg tenging við íslenskan menningararf og okkar gamla útskurð í hvalbein.

Sléttbakur er dæmi um tegund sem á leiðinni út úr vistkerfinu og mun örugglega deyja út á okkar líftíma. Þessi hvalur var veiddur mest í kringum Ísland á öldum áður af öðrum þjóðum en er nú hættur að sjást hér norður frá og er nú einungist við strendur N. Ameríku. Það eru 350 hvalir eftir síðast þegar ég gáði. Vandamálið er að skipaumferð veldur honum miklu tjóni, hljóðmengun, árekstrar við skip og hann flækist í netum en þetta eru fjölfarnar skipaleiðir. Á sýningunni höfum við sagt gestum frá þessum hval og að lýsið úr honum hafi verið notað til að lýsa upp Evrópu hér áður fyrr.

Svo gerði ég afsteypu af rostungstönn, 1300 ára gamalli af stofni sem er alveg útdauður. Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun leyfðu mér að taka mót af tönn sem var hálf steingervð. Ég fékk aðstoð frá beinasérfræðingi á Þjóðminjasafni Íslands og fékk m.a. ráð frá náttúruminjasafninu í London.

Anna Júlía bætir svo við öðru lagi á skúlptúrana með því að rista í þá línur teknar af ævafornum tækjum sem voru notuð til að fylgjast með tímanum og aðstæðum.

Ég risti upplýsingar af siglingartækjum á beinin og gef um leið í skyn að hægt sé að nota þau sem einhversskonar áttavita eða klukkur. Astrolabe, stjörnuhæðarmælir, er tæki sem á rætur að rekja langt aftur í aldir og oft talað um sem fyrstu tölvurnar. Tækið var fullkomnað í Austurlöndum á 9. öld og varð svo algengt í Evrópu á miðöldum.

Skúlptúrarnir eru symbolískar klukkur og staðsetningartæki. Til að undirstrika að þetta séu tæki lét ég gera þrífætur úr stáli sem beinin standa á.

Nátengt Astrolabe tækinu eru fjórðungsbogar, tæki sem voru notuð á svipaðan hátt en voru einfaldari í notkun. Sólarklukkan á rostungsbeininu styðst svo við ákveðið form sólarklukku sem var gert utan um sílvalning eða sheperds dial, sem handhæg ´klukka´ sem fjárhirðar höfðu með sér til að vita hvenær ætti að snúa heim.

Ég notaði forrit til að búa til sólarklukkuna fyrir ákveðna breiddargráðu, Berlín, og færði svo teikninguna yfir á afsteypuna. Þegar þessar tæknilegu upplýsingar, af manngerðum tækjum eru notaðar á lífrænu formin þá passa þau ekki saman þannig að hlutirnir eru auðvitað ekki fúnksjónal. Svo eru líka andstæður í efni og aðferðum, náttúrulegi hluturinn er unninn með vél en tæknilegu upplýsingarnar eru handskornar.

Titilinn sýningarinnar „Last Season“ mætti yfirfærast á „úr tísku“ eða úrhelt og beintengist hraða tískuiðnarins. Titlarnir á skúlptúrunum bera einnig vísanir í þann iðnað. Anna Júlía blandar saman við þessar vísanir íslenskum hafbotni og kóralrifum.

Verkið úr stóra axlarblaðinu heitir „Pre Fall“ sem opnar á túlkun í verkinu. Í yfirborðið eru ristar línur stjörnuskífu af einum diski úr Astrolabe fyrir ákveðna breiddargráðu. Ég er búin að finna eina stöðu ákveðins tímapunkts með aðferð tækisins og bora göt í stykkið fyrir mest áberandi himinfyrirbærin úr þeirri stöðu. Staðsetning Pólstjörnunnar sem er alltaf í miðjunni á disknum er ísett perlu. Á hinni hlið skúlptúrsins kemur ljósið í gegnum götin en verða þá frekar abstrakt. Sú hlið er sett álþynnu og verður eins og spegill, eða a.m.k. er vísun í spegil. Stykkið er líka skreytt með íslenskum kóröllum sem verður dálítið eins og kóróna en þannig voru gömlu tækin oftast skreytt. Í verkinu togast á tækni og skreyti, – vísindaheimurinn og persónulega rýmið sem er meira í þágu einstaklingsins.

Annað verk er skilrúm með teikningum sem fékk titilinn „Silhouette“. Innblásturinn að því kemur frá gömlum japönskum málverkum sem oft eru árstíðartengdar náttúrusenur. Ég var að skoða þannig monochrome blekmálverk þar sem hlutar af landslagi birtast á víð og dreif um flötinn en deyr svo út og á milli er bara tómur bakgrunnur. „Silhouette“ samanstendur af rúðustrikuðum blaðsíðum úr blokk sem ég lími saman til að búa til stórar arkir til að passa á rammana. Ég valdi þennan pappír vegna tengsla hans við útreikninga og skipulag.

Ég er alltaf að hugsa um hvernig við flokkum og skipuleggjum náttúruna. Ég hef áður notað kalkipappír en á meðan hann er frekar vísun í búrókrasíu, og í frumefnið carbon, þá er þessi pappír frekar tengdur vísindum.

Ég var að vinna út frá ljósmyndum frá Hafrannsóknarstofnun, en ég hef fengið aðstoð frá þeim við önnur eldri verk. Ég hef aðallega verið í samskiptum við sjávarlíffræðing sem hefur verið að kortleggja hafsbotninn á Íslandi. Það er búið að kortleggja lítinn hluta en þau hafa verið að finna íslensk kóralrif og hinar ýmsu botnsjávarlífverur og eru að reyna að verja eða vinna að friðun þessara svæða. Það eru ótrúlegar tegundir þarna og ég hef notað ljósmyndir af þeim. Teikningar eru m.a. unnar útfrá þessum ljósmyndum, eru ýmist nákvæmar eða grófar útlínuteikningar. Svo er annað lag í teikningunum sem eru tölustafir teknar úr sjókortum af Íslandsmiðum og eru dýptarpunktar. Á skilrúminu hangir svo keðja úr afsteypum af íslenskum kóröllum, eins og hálsmen, svart á litinn til halda áfram leiknum með skuggann eða skuggaspil. Mig langaði að gefa í skyn að einhver hafi afklætt sig á bakvið skilrúmið og lagt ´menið´ þarna. Ég er aftur að reyna að blanda þarna saman vísindum og persónulega rýminu.

Að lokum er þriðja lagið í pappírnum göt, eða opnir flipar sem eru gerðir með því að skera út staka rúðu til hálfs. Þetta er stjörnukort en það fer lítið fyrir því – er dáldið eins og leyniupplýsingar.

Á vormánuðum lýkur dvölinni hjá Önnu Júlíu með sýningu í sýningarsal Künstlerhaus Bethanien. Í millitíðinni vinnur Anna að því að þróa ný verk á vinnustofunni, ásamt því að kynnast listasenunni í Berlín.

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir lauk MA gráðu frá Manchester School of Arts, Manchester Metropolitan University, 2004 og BA Fine Art gráðu frá London Guildhall University 1998. Áður stundaði hún nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1993-95. Anna Júlía starfaði sem verkefna- og sýningarstjóri í i8 gallerí 2008-2015 og var meðstofnandi og ritstjóri myndlistartímaritsins Sjónauka sem var gefið út á árunum 2007-2009. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið fjórar einkasýningar á Íslandi en hún var tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2018 fyrir sýninguna Erindi í Hafnarborg.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur