Hvatningarverðlaun 2019: Leifur Ýmir Eyjólfsson

Islensku myndlistarverdaunin 2019: Leifur Ýmir Eyjólfsson

Leifur Ýmir Eyjólfsson hlaut Hvatningarverðlaun ársins fyrir sýninguna Handrit í D-sal, Listasafni Reykjavíkur.

Leifur Ýmir útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2013 og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Hann er einn af listamannateyminu Prent & vinir sem hefur verið sýnilegt í íslensku listalífi undanfarin misseri.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Leifur Ýmir Eyjólfsson (f. 1987) hefur lagt sérstaka alúð við að tileinka sér tækni og aðferðir á borð við þrykk, ristur, stimpla og keramík. Hann hlýtur Hvatningarverðlaun ársins 2019 fyrir sýningu sína Handrit í D-sal þar sem hann leitar til baka til hugmyndar sem kviknaði á námsárum hans. Þá þegar var brennandi áhugi hans á bókverkagerð vakinn og hugmyndin var að gera blaðsíður úr brenndum leir sem hver og ein stæði sem sjálfstætt bókverk.

Það er ekki áreynslulaust að brenna svo þunna leirtöflu að hún geti villt á sér heimild sem blaðsíða í bók, og áhrifamikið að hlusta á lýsingar listamannsins á löngu og brothættu tilraunaferli þar sem hann lærði smám saman, á afföllunum, hvað gekk og hvað ekki.

Þegar leirtöflurnar voru orðnar til í hundraðatali, voru málaðar á þær tilfallandi orð og setningar sem listamaðurinn hafði skráð eftir sjálfum sér og öðrum um langt skeið. Hann hafnaði ljóðrænu, en sóttist eftir tuggum og þvaðri, fylliorðum sem við „kjömsum á“, svo að vitnað sé í listamanninn sjálfan, á meðan við skerpum hugsunina í leit að því sem við viljum í raun segja. Saman mynda leirtöflurnar handrit, bók, sem gengið er inn í. Leirinn minnir á forgengileika tungumálsins, sem við mótum og brjótum að vild, rétt eins og efniviðinn.

Það er mat dómnefndar að Leifi Ými takist með eftirminnilegum hætti að samþætta inntak og efnivið í sýningu sem fylgir áhorfandanum út úr safninu og inn í hvunndaginn þar sem hún heldur áfram að gerjast.

Islensku myndlistarverðlaunin  2019 - Leifur Ýmir Eyjólfsson  - Handrit. LR. Ljósmynd: Owen Fiene.

Handrit. Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús. Ljósmynd: Owen Fiene.

Islensku myndlistarverdaunin 2019: Leifur Ýmir Eyjólfsson fyrir Handrit í D-sal, Listasafni Reykjavíkur

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur