Íslenski skálinn 2009

Ragnar Kjartansson: The End

Sýningarstjórar: Markús Þór Andrésson & Dorothée Kirch

Ragnar Kjartansson The End

Fulltrúi Íslendinga á Feneyjatvíæringnum, 2009, var listamaðurinn Ragnar Kjartansson. Hann er kunnur fyrir fjölbreytt verk sín sem eiga rætur að rekja í ólíka miðla, m.a. leikhús, tónlist, málverk og gjörning. Auk þess að miðla í myndlist sinni rómantísku lífsviðhorfi á einlægan máta, nýtir Ragnar sér gjarnan markviss form og þaulhugsaða tækni til að tendra samband listamanns, verks og áhorfenda. Þannig má segja að hann vegi salt á milli hins háfleyga málara Caspar David Friedrichs og tvíeykisins Gilberts og Georges sem sækja öllum stundum í hversdagsleikann. Á sýningunni í Feneyjum verður verkið The End kynnt til sögunnar. Það er í tveimur hlutum og spannar epískar víddir í tíma og rúmi. Annars vegar er gjörningur þar sem listamaðurinn dvelur sýninguna á enda við málaraiðju og hins vegar myndbands- og tónlistarinnsetning á fimm sýningartjöldum.

Ragnar innréttar listmálarastúdíó í hinni fögru byggingu sem hýsir íslenska skálann. Hún er frá fjórtándu öld og má muna sinn fífil fegurri, rýmið er glæsilegt en hrátt. Þar sem það vísar beint út að Canale Grande sýkinu endurkastast merlandi hafflöturinn innandyra og öldugjálfrið ómar. Þarna mun listamaðurinn starfa í hálft ár og mála hverja myndina á fætur annarri af ungum manni sem dvelur með honum allan tímann. Fyrirsætan er á sundskýlu, reykir og sötrar bjór. Málverkin safnast saman upp um alla veggi og í stöflum á gólfinu þar sem háflóðið (sem flæðir reglulega inn á gólf) reynir að sökkva þeim. Í nærliggjandi rými ríkir álíka einkennilegt tímaleysi og á vinnustofu listamannsins. Fimm kvikmyndir, hver á sínu tjaldi eins og málverk á sýningu, sýna samspil hljóðfæraleiks og söngs. Ragnar er staddur úti undir beru lofti um hávetur í ægifögru landslagi Klettafjallanna í Kanada. Þar leikur hann í félagi við annan mann langa og óræða sveitatónlist og hver mynd sýnir ólík hljóðfæri í ævintýralegu umhverfi sem saman móta eina heild.

Hin tvö ólíku rými skapa hrópandi andstæður, þótt bæði séu bundin í tímalausri hringrás. Hvort tveggja sýnir ólíkar leikmyndir þar sem Ragnar fremur verk sín. Feneyjar eru táknmynd menningarinnar, áfangastaður fjölda ferðamanna sem þangað koma til að njóta borgarinnar eins og risastórs safns. Klettafjöllin eru táknmynd hinnar villtu náttúru, en um leið varðveitt sem þjóðgarður og aðkomufólki gert að njóta þeirra sem slíks. Ragnar og mótleikarar hans kallast á í gjörning innan þessara leiksviða, myndlistarmaðurinn Páll Haukur Björnsson sem situr fyrir hjá Ragnari og tónlistarmaðurinn Davíð Þór Jónsson sem flytur með honum hina angurværu tónlist. Áhorfendur sem munu heimsækja íslenska skálann í sumar og haust munu upplifa togstreitu augnabliksins sem þrátt fyrir að vera svo óraunverulegt talar til þeirra skýru máli þá og þegar.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur