Um verðlaunin

Á Íslensku myndlistarverðlaununum eru veitt tvenn verðlaun, Myndlistarmaður ársins og Hvatningarverðlaun. Auk þess eru veittar viðurkenningar fyrir samsýningu ársins, endurlit ársins og útgáfu ársins. Að lokum veitir Myndlistarráð veitir einum listamanni heiðursviðurkenningu fyrir ævistarf sitt.

islensku myndlistarverdlaunin 2021

Frá upphafi hafa verið veitt tvenn aðalverðlaun: Myndlistarmaður ársins, ein milljón króna í verðlaunafé, og Hvatningarverðlaun ársins, 500 þúsund krónur í verðlaunafé. Síðan þá hafa verðlaunin vaxið og fjórar viðurkenningar bæst við. Árið 2021 bættust við Heiðursviðurkenning og Viðurkenning fyrir útgefið efni og ári seinna, 2022, bættust við Áhugaverðasta endurlitið og Áhugaverðasta samsýningin.

Verðlaunin eru veitt í mars ár hvert. Í aðdraganda gefst almenningi kostur á að senda inn tillögur. Stuttu fyrir afhendingu birtir dómnefnd forvalslista.

Aðalverðlaunin, Myndlistarmaður ársins, eru veitt íslenskum myndlistarmanni eða myndlistarmanni með búsetu á Íslandi sem þykir hafa skarað framúr með nýlegum verkum og sýningu á Íslandi á síðast liðnu myndlistarári. Verðlaunafé er 1 milljón króna.

Hvatningarverðlaunin eru veitt starfandi myndlistarmanni sem nýlega hefur komið fram á sjónarsviðið og vakið athygli með verkum sínum. Verðlaunafé er 500 þúsund krónur.

Heiðursviðurkenning fellur í skaut starfandi myndlistarmanns fyrir heildarframlag hans til íslenskrar myndlistar.

Viðurkenning fyrir útgefið efni, hvort heldur sem er í prentuðu eða stafrænu formi, er veitt stofnun, einstaklingi eða fyrirtæki sem staðið hefur að framlagi sem talið er hafa mikilvægt gildi fyrir kynningu og rannsóknir á íslenskri myndlist.

Áhugaverðasta endurlitið. Viðurkenning er veitt safni, sýningarými, hópi og/eða sýningarstjóra sem staðið hefur að einstaklega vel heppnaðri sýningu hér á landi á erlendri eða innlendri myndlist þar sem ljósi er varpað á listgrein, stefnu, hóp eða einstakling.

Áhugaverðasta samsýningin. Viðurkenning er veit safni, sýningarými, myndlistarhátíð, hópi og/eða sýningarstjóra sem staðið hefur að samsýningu á myndlist sem talin er hafa skarað fram úr á sýningarvettvangi hér á landi.

Matsferli

Dómnefnd er skipuð til eins árs í senn og starfar eftir reglum um dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna. Hlutverk dómnefndar er að velja myndlistarmann ársins og veita hvatningarverðlaun. Við val á verðlaunahöfum hefur dómnefnd í huga að verk tilnefndra myndlistarmanna skari framúr og að viðkomandi myndlistarmenn séu fulltrúar þess sem best er gert á sviði íslenskrar samtímamyndlistar. Frá og með árinu 2024 velur dómnefnd einnig Viðurkenningu fyrir útgefið efni, Áhugaverðasta endurlitið og Áhugaverðustu samsýninguna. Myndlistarráð tekur ákvörðun um hver hlýtur heiðurviðurkenningu.

Í aðdraganda verðlaunana er kallað eftir tillögum frá almenningi sem dómnefnd hefur til hliðsjónar.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur