Icelandic Art Center
Icelandic Art Center
12. 07 2014
Arts and Audiences 2014 Reykjavik

Áhorfendur eru í sívaxandi mæli beinir þátttakendur að sköpun listaverka – hvaða þýðingu hefur slík þróun? Virkni og þátttaka áhorfenda og listræn samvinna með stafrænum sköpunarleiðum á Arts & Audiences í Reykjavík 2014

 

  • Norræna ráðstefnan Arts & Audiences verður haldin í Hörpu 20. og 21. október næstkomandi. Í fyrsta sinn á Íslandi.
  • Sjónum verður sérstaklega beint að stafrænum miðlunar- og sköpunarleiðum.
  • Þekkt nöfn úr skapandi greinum á meðal fyrirlesara.
  • Síðustu forvöð að fá miða á sérstöku forsöluverði.

 

Í fyrsta sinn á Íslandi
Norræna ráðstefnan Arts & Audiences verður haldin í Hörpu 20. og 21. október næstkomandi. Ráðstefnur með þessu heiti hafa verið haldnar áður í Bergen, Stokkhólmi og Helsinki af Norsk publikumsutvikling í Noregi (http://norskpublikumsutvikling.no) og CKI (Center for Kunst og Interkultur http://kunstoginterkultur.dk) í Danmörku, en er nú haldin hér á landi í fyrsta skipti.

 

Niels Righolt, einn skipuleggjenda  ráðstefnunnar og framkvæmdarstjóri CKI segist einstaklega spenntur fyrir því að halda ráðstefnuna á Íslandi í ár. “Við erum komin með öfluga fyrirlesara á dagskrána, en samsetning hennar hefur verið skapandi samvinnuferli þeirra alþjóðlegu fyrirlesara sem taka þátt og norrænu dagskrárnefndarinnar. Okkar helsta áhersla verður að kynna þau listrænu tækifæri sem skapast með þátttöku áhorfenda  með mismunandi stafrænum leiðum.”

 

Tungumál Arts & Audiences ráðstefnanna er enska og er yfirskriftin ávallt sú sama; „virkni og þátttaka áhorfenda og listræn samvinna“(audience engagement and artistic collaboration) en í ár verður sjónum sérstaklega beint að stafrænum miðlunar- og sköpunarleiðum. Með tilkomu stafrænna miðla í heiminum gegna  áhorfendur nú æ oftar hlutverki meðhöfunda í listsköpuninni. Það er áhugavert að skoða það hvernig listamenn og menningarstofnanir á Norðurlöndunum geta brugðist við þeirri þróun. Hvernig getum við nýtt gagnvirka tækni í listsköpuninni sjálfri, en ekki einungis í kynningarmálum? Á hvaða hátt hefur þetta áhrif á listræna framleiðslu? Virkjum við sköpunarkraftinn og þátttöku áhorfenda til fulls?

 

Alþjóðlegir og norrænir fyrirlesarar á Arts & Audiences
Nú þegar hafa áhugaverðir fyrirlesarar verið bókaðir á Arts & Audiences og það á enn eftir að bætast við. Af erlendu fyrirlesurunum er vert að nefna Peter Gorgels sem hefur yfirumsjón með öllum vefsíðum, veflausnum og stafrænum samskiptum Rijksmuseum í Hollandi. Vefir Rijksmuseum hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir gagnvirkar lausnir.  Annette Mees frá Coney leikhúsinu í  Bretlandi er einn af aðalfyrirlesurum ráðstefnunnar. Coney leikhúsið sérhæfir sig í að skapa listrænar upplifanir þar sem áhorfendur spila stórt hlutverk sem meðhöfundar um leið og sýningin er í gangi.

 

 


Á meðal íslensku fyrirlesaranna er Torfi Frans Ólafsson, hönnunarstjóri EVE Online hjá CCP.  „Ég er spenntur að fá að taka þátt í þessari áhugaverðu ráðstefnu. Hún varpar ljósi á breytingar sem hafa átt sér stað í því hvernig sköpunarferlið fyrir nýja miðla hefur breyst og eins og í tilfelli EVE er sambandið milli framleiðandans og áhorfandans orðið miklu gagnvirkara þannig að áhorfendur eru þáttakendur og eiga jafn ríkan þátt í að móta heiminn og framleiðendurnir. Á sama tíma er sterk þörf fyrir skýra sýn og þemu, og þess vegna vakna margar áleitnar spurningar um hvar mörkin liggja, milli framleiðanda og þátttakenda.“

 

Rúmlega 100 erlendir gestir
Gert er ráð fyrir um 200-300 gestum, þar af um 100 frá Norðurlöndunum. Markhópar ráðstefnunnar eru aðilar sem starfa að markaðs- og kynningarmálum lista- og menningarstofnana, listrænir stjórnendur, listamenn og embættismenn á sviði menningarmála. Mennta- og menningarmálaráðuneytið sér um skipulagningu ráðstefnunnar hér á landi, í samstarfi við Norsk publikumsutvikling og CKI. Skráning á ráðstefnuna hófst 6.júní og til og með 15.júlí nk. verður hægt að kaupa miðann á lægra verði eða 100 evrur. Hægt er  að halda verðinu lágu sökum stuðnings Norrænu ráðherranefndarinnar en ráðstefnan er liður í formennskuáætlun Íslands 2014.

 

Hér er hægt að skrá sig á Arts & Audiences 2014: http://www.eventbrite.com/e/arts-audiences-reykjavik-2014-registration-11853523207
Hér er heimasíða ráðstefnunnar: http://artsandaudiences.com/