Icelandic Art Center
Icelandic Art Center
17. 01 2014
Christoph Büchel á Feneyjatvíæringinn

Tillaga myndlistarmannsins Christoph Büchel hefur verið valin sem framlag Íslands á Feneyjatvíæringinn, La Biennale di Venezia, 2015. Sýningarstjóri er Nína Magnúsdóttir.

 

Fagráð valdi úr innsendum tillögum um framlag og samdóma álit þess er að tillagan uppfylli allar þær forsendur sem leitað var eftir. Valin tillaga þykir hugmyndafræðilega sterk og eiga erindi við samtímann í íslensku og alþjóðlegu samhengi.

 

Í rökstuðningi fagráðs segir: “Christoph Büchel er afar áhugaverður myndlistarmaður, sem hefur skýra afstöðu gagnvart samfélaginu og spyr áleitinna spurninga er varða samsetningu þjóðfélagsins og hlutverk stjórnvalda. Verk hans eru afdráttarlaus og eiga erindi jafnt í íslensku sem alþjóðlegu samhengi. Í verkum sínum sýnir hann fram á mátt listarinnar til að hreyfa við og vekja fólk til umhugsunar um stöðu og þróun samfélaga, skilgreiningar og sjálfsmynd. Með vali á framlagi Christoph Büchel og Nínu Magnúsdóttur lætur Ísland sig alþjóðleg málefni varða með framlagi sínu.”

 

Christoph Büchel er vel þekktur á alþjóðavettvangi fyrir consept verk sín. Hann vinnur í ýmsa miðla en er hvað þekktastur fyrir hugmyndafræðileg verk og stórar og aðstæðubundnar innsetningar. Frá 1998 hefur Christoph sett upp fjölda umfangsmikilla innsetninga fyrir listasöfn víða um heim. Meðal einkasýninga hans má nefna: “Hole” í Kunsthalle í Basel 2005, “Simply Botiful” hjá Hauser&Wirth Coppermill í London, 2006. Kunsthalle Fridericianum, “Deutsche Grammatik”, Kassel Þýskalandi 2008, í  Secession safninu í Vín 2010 og “Piccadilly Community Centre” í London 2011. Á Íslandi tók hann þátt í Listahátíð í Reykjavík og Skaftfelli á Seyðisfirði árið 2008, sama ár var hann með gjörning í Sirkus Kling og Bang á Frieze í London. Christoph vinnur með gallerí Hauser & Wirth sem reka gallerí í London, New York og Zurich. Christoph er fæddur í Basel í Sviss 1966 en hann hefur búið á Íslandi frá árinu 2007.

 

Sýningarstjórinn, Nína Magnúsdóttir er myndlistarmaður og á hún fjölbreyttan feril að baki í íslensku myndlistarlífi. Hún var stjórnarformaður Nýlistasafnsins 2006-2009, framkvæmdastjóri Klink og Bank 2004-2005 og einn af stofnendum Kling og Bang gallerís 2003.  Nína var einn af stofnendum Sequences real time art festival og sýningarstjóri hátíðarinnar 2007 og situr nú í stjórn nýstofnaðs LungA skóla. Nína er fædd 1969 á Íslandi og býr og starfar á Íslandi.

 

“Það er áhugavert að líta til þess að bæði listamaðurinn og sýningarstjórinn að þessu sinni búa og starfa á Íslandi þar sem gríðarlega mikil reynsla og þekking byggist upp í framkvæmd á stóru verkefni sem þessu og því dýrmætt fyrir íslensku myndlistarsenuna að sú þekking nýtist hér á landi.

Björg Stefánsdóttir, commissioner íslenska skálans 2015

 

Þetta er í fyrsta sinn sem þessi leið til vals á framlagi er farin og horft var til annarra landa við mótun hennar. Með því að óska eftir tillögum og þar með hverfa frá fyrra skipulagi, þar sem fagráð valdi listamann sem boðið var að sýna í íslenska skálanum, var opnað fyrir hið óvænta.

 

Meðal fyrri fulltrúa Íslands á tvíæringnum eru Libia Castro og Ólafur og Ólafsson 2011, Ragnar Kjartansson 2009, Steingrímur Eyfjörð 2007, Gabríela Friðriksdóttir 2005, Rúrí 2003, Finnbogi Pétursson 2001 og nú síðast Katrín Sigurðardóttir, en verk hennar er nú í uppsetningu í Listasafni Reykajvíkur og verður sýning á því opnuð í lok janúar.

 

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur umsjón með verkefninu og kallaði eftir tillögum að framlagi. Alls bárust 14 tillögur.  Val á framlagi í íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum 2015 var í höndum fagráðs Kynningarmiðstöðvarinnar, en það skipa: Þóroddur Bjarnason, framkvæmdarstjóri Kynningarmiðstöðvarinnar, Kristín Guðnadóttir, safnstjóri Listasafns ASÍ og fulltrúi safnanna að baki KÍM og Katrín Elvarsdóttir, myndlistarmaður og fulltrúi SÍM. Gestir nefndarinnar við valið voru: Hulda Stefánsdóttir, myndlistarmaður og prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands og Unnar Örn Auðarson, myndlistarmaður.

 

Frekari upplýsingar veitir

Björg Stefánsdóttir, Commissioner íslenska skálans

s. 562 7262 / 864 6822

bjorg@icelandicpavilion.is