Icelandic Art Center
Icelandic Art Center
30. 11 2015
Málþing um Moskuna eftir Christoph Büchel

DSC_7309

Málþing um framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins, 2015
Listasafni Íslands, laugardaginn 5. desember kl. 11:00 – 14:30

Framlag Íslands til Feneyjatvíærings þessa árs ber heitið MOSKAN- Fyrsta moskan í Feneyjum, eftir Christoph Büchel. Auglýst var eftir tillögum um verk og samstarfsteymi og var verkefni listamannsins valið í því ferli. Skálinn var opnaður almenningi þann 8. maí 2015 í Santa Maria della Misericordia-kirkjunni í Cannaregio-hverfinu í Feneyjum. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar heldur utanum verkefnið.

 

Framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins hefur áður vakið mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi en sjaldan eins og í ár. Fjallað hefur verið um verkið í fjölmiðlum austan hafs og vestan og hefur það kallað á sterk viðbrögð. Sem kunnugt er var skálanum lokað af borgaryfirvöldum í Feneyjum þann 22. maí, tveimur vikum eftir opnun.
Hefð hefur skapast fyrir því að sýna framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins hér á landi í kjölfar sýningarinnar á Ítalíu. Verkið að þessu sinni býður varla upp á slíka yfirfærslu og því er boðað til málþings þar sem leitast verður við að velta upp sem flestum flötum verksins, íhuga samfélagslega merkingu þess, og viðbrögð við verkinu á breiðum grundvelli.

 

Sem frummælendur hefur verið leitað til fjögurra einstaklinga, sem munu í erindum sínum varpa fram hugmyndum er spretta upp af vangaveltum um verkið, MOSKAN- Fyrsta moskan í Feneyjum.

Þátttakendur í málþinginu eru:

 

Hlynur Helgason, myndlistarmaður og listfræðingur
Ólafur Gíslason, listfræðingur
Ragna Sigurðardóttir, myndlistarmaður, rithöfundur og gagnrýnandi
Stefano Rabolli Pansera, arkitekt og borgarfræðingur (urbanist).
Fundarstjóri er Guðni Tómasson, listsagnfræðingur

 

Dagskrá málþingsins:

Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands, setur þingið

Guðni Tómasson kynnir verkið, Moskuna

Hlynur Helgason

Ólafur Gíslason

Ragna Sigurðardóttir

– Hlé

Stefano Rabolli Pansera

Pallborðsumræður
Almennar umræður

 

Til málþingsins efna Listasafn Íslands og Listfræðafélag Íslands í samstarfi við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og með stuðningi Sambands íslenskra myndlistarmanna, SÍM.

Málþingið fer fram á íslensku og ensku.

 

Um þátttakendur:

Hlynur Helgason (f. 1961) starfar sem myndlistarmaður og listfræðingur í Reykjavík. Hann lauk doktorsprófi í listheimspeki frá European Graduate School árið 2011. Hann er lektor í listfræði við Háskóla Íslands og formaður Sambands listfræðinga á Norðurlöndum. Á undanförnum árum hefur hann einbeitt sér að rannsóknum á samhengi íslenskrar samtímalistar, áhrifum hennar og stöðu í fjölþjóðlegu samhengi.

 

Ólafur Gíslason (f. 1943) er sjálfstætt starfandi fræðimaður, kennari og leiðsögumaður. Hann starfaði áður í Listasafni Íslands og hefur kennt listheimspeki við Listaháskóla Íslands til margra ára og skrifað mikinn fjölda greina og bóka um íslenska og erlenda myndlist í meira en aldarfjórðung.

 

Ragna Sigurðardóttir (f. 1962) starfaði jöfnum höndum sem textaskrifandi myndlistarmaður og sem rithöfundur í um áratug en sneri sér síðan alfarið að ritstörfum. Ragna skrifaði myndlistargagnrýni fyrir dagblöð í rúman áratug, til ársins 2012. Hún hefur skrifað texta í safnbækur og sýningarskrár og hefur komið að ýmsum störfum við Listaháskóla Íslands auk safnkennslu fyrir Listasafn Reykjavíkur.

 

Stefano Rabolli Pansera (f. 1980, Ítalíu) starfar sem arkitekt og sýningarstjóri. Hann starfaði fyrir Herzog de Meuron arkitekta í Basel, Sviss 2005 til 2007 og kenndi við Architectural Association School of Architecture frá 2007 til 2011. Stefano er stofnandi og forstöðumaður stofnunarinnar Beyond Entropy Ltd, sem þróar verkefni sem í skarast mörkin á milli myndlistar, arkitektúrs og landfræðistjórnmála (geopolitics). Stefano var sýningarstjóri fyrsta þjóðarskála Angóla á arkitektatvíæringnum í Feneyjum árið 2012 og á myndlistartvíæringnum í Feneyjum árið 2013 og hlaut skálinn þar hin virtu verðlaun Gullna ljónið. Á arkitektatvíæringi síðasta árs stýrði hann sýningu í þjóðarskála Albaníu.

 

Guðni Tómasson (f. 1976) er listsagnfræðingur að mennt, en hann starfar sem dagskrárgerðarmaður í Víðsjá á Rás 1 Ríkisútvarpsins. Guðni hefur haft umsjón með fjölda útvarpsþátta um myndlist og önnur málefni, m.a. um Feneyjatvíæringinn 2015. Hann hefur einnig starfað sem aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra og sem stjórnarformaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands.