Icelandic Art Center
Icelandic Art Center
30. 09 2014
Opnar vinnustofur og fyrirlestrar í vetur í setri skapandi greina Hlemmi

Annan hvern miðvikudag í haust og vetur verða haldnar opnar vinnustofur og fyrirlestrar á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Markmiðið er að vera með líflega og fræðandi viðburði með áherslu á skapandi umhverfi og skapandi viðskiptahætti.

Hver vinnustofa hefur sitt þema og munu þátttakendur öðlast þekkingu á hinum ýmsu tólum og tækjum til áætlunargerðar og fá ráð og innblástur frá reynsluboltum úr atvinnulífinu.  Að viðburði loknum stendur til boða áframhaldandi handleiðsla hjá verkefnastjórum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

 

Vinnustofurnar eru öllum þátttakendum opnar, en þó er takmarkaður sætafjöldi og því nauðsynlegt að skrá sig hér.

 

Vinnustofurnar og fyrirlestrarnir munu fara fram á Setri skapandi greina á Hlemmi. 

 

1. október 2014, kl. 16-18
Lærðu að smíða þitt eigið viðskiptamódel

Í fyrstu opnu vinnustofu vetrarins verður fjallað um hvernig má vinna með viðskiptahugmyndir með aðferðafræði Business Model Canvas. Kynntar verða einfaldar aðferðir til að aðstoða frumkvöðla við að móta hugmyndir sínar með notkun líkansins. Gestafyrirlesari er Björn Steinar Jónsson frá Saltverk Reykjaness, en Björn Steinar hefur notað líkanið frá upphafi við mótun fyrirtækisins . Skráning á vinnustofuna.

 

15. október 2014, kl. 16-18
Markhópagreining og markaðsmál

Önnur vinnustofa vetrarins mun fjalla um markaðsmál á einfaldan hátt og mikilvægi þess að þekkja viðskiptavininn, hlusta á hann og byggja upp vöru/þjónustu og kynningarefni með þarfir hans í huga. Fjallað verður um óhefðbundnar sem og hefðbundnar grunnaðferðir í markhópagreiningu og í mælingum á markmiðum og árangri. Gestafyrirlesari verður Einar Ben, einn af eigendum og hugmyndasmiðum Tjarnargötunnar og mun hann leiða okkur í sannleikann um mikilvægi þess að hugsa út fyrir kassann í markaðsmálunum. Skráning á vinnustofuna.

 

 

Vinnustofur framundan:

29. október 2014, kl. 16-18  – Upplifun og virði sérstöðunnar 

12. nóvember, kl. 16-18  – Frumkvöðlar sem stjórnendur

26. nóvember, kl. 16-18  – Fjármál og rekstur

10. desember, kl. 16-18  – Höfundaréttur og hönnunarvernd