íslensku myndlistarverðlaunin 2022

Myndlistarráð stendur nú í fimmta skipti að úthlutun Íslensku myndlistarverðlaunanna en markmiðið er að heiðra og vekja athygli á því sem vel er gert jafnframt því að hvetja til nýrrar listsköpunar.

Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn fimmtudagskvöldið 17. mars. Veitt voru tvenn verðlaun auk fjögurra viðurkenninga. Myndlistarmaður ársins eru verðlaun sem veitt eru myndlistarmanni sem þykir hafa skarað framúr með nýlegum verkum og sýningu á Íslandi á síðastliðnu myndlistarári. Hvatningarverðlaun eru veitt starfandi myndlistarmanni sem nýlega hefur komið fram á sjónarsviðið og vakið athygli með verkum sínum. Myndlistarráð veitir auk þess fjórar viðurkenningar, en þær eru; viðurkenning fyrir útgefið efni, heiðursviðurkenning fyrir ævistarf auk viðurkenninga fyrir áhugaverðasta endurlitið og samsýningu ársins. 

ÍSLENSKU MYNDLISTARVERÐLAUNIN 2022 

Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson. Photo: Margrét Seema Takyar.

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson hlutu Myndlistarverðlaun ársins 2022 fyrir sýninguna Vísitasíur í Listasafninu á Akureyri.  

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

„Sýningin er afrakstur margra ára rannsóknarverkefnisins Ísbirnir á villigötum sem þau hafa unnið í samvinnu við sérfræðinga á sviði þjóðfræði, náttúru- og umhverfisfræði. Verkefnið snýst um að auka þekkingu á tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum hamfarahlýnunar. Til þess er sjónum beint að hvítabjörnum á Íslandi í fortíð og nútíð. Verkin á sýningunni varpa ljósi á spurningar um náttúruvernd, skoða frásagnir af árekstrum fólks og hvítabjarna í gegnum tíðina og hvað það er sem gerist þegar þessi tvö rándýr mætast.“

Mynd frá sýningunni Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Vísitasíur, 2021. Ljósmynd: Daníel Starrason.

„Ferill þeirra er fjölbreyttur og þau hafa nýtt rannsóknaraðferðir samtímalistar til að eiga í samtali við rannsóknir á öðrum sviðum, svo sem náttúruvísindum, þjóðfræði og umhverfisfræðum. Þau líta svo á að aðferðir samtímalistar geti fært mikilvæga viðbót í samtal milli ólíkra fræðigreina og beint sjónum í nýjar og óvæntar áttir. 

Þau Bryndís og Mark nýta fjölbreyttar aðferðir við framsetningu verka sinna, þar sem samspil myndbandsverka, fundinna hluta, teikninga, ljósmynda og ýmissa gagna mótar innsetninguna í samhengi við hvern og einn sýningarstað. Innsetning þeirra í Listasafninu á Akureyri var í senn áhrifarík og fræðandi og myndaði áhugaverða heild í rými safnsins.

Bani boðberans ♂  og Bani boðberans ♀, 2021. Stafræn klippimynd, textasýnishorn af umræðum á Alþingi um umhverfismálefni, blýantur, prjónar, stærð 195 x 115 cm. Ljósmynd: Daníel Starrason

Bryndís H. Snæbjörnsdóttir (f. 1955 ) er prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Hún sótti menntun sína á sviði myndlistar til Skotlands og síðar til Svíþjóðar. Hún lauk bæði grunn- og framhaldsprófi í myndlist frá Glasgow School of Art. Bryndís lauk doktorsprófi frá háskólanum í Gautaborg árið 2009 

Mark Wilson (f. 1954) er prófessor í myndlist við Háskólann í Cumbria í Bretlandi. Hann lauk grunnnámi í myndlist frá Háskólanum í Sunderland og árið 2013 hlaut hann doktorsgráðu frá Háskólanum í Lancaster.  

HVATNINGARVERÐLAUNIN 2022

Lucky 3: Dýrfinna Benita Basalan, Darren Mark og Melanie Ubaldo. Ljósmynd: Margrét Seema Takyar.

Lucky 3 eru handhafar Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2022.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

“Verðlaunin hljóta þau fyrir gjörninginn PUTI sem var á dagskrá Sequences X listahátíðarinnar haustið 2021. Verkinu er lýst sem félagslegri kóreógrafíu sem endurspeglar veruleika kynþáttahlutverka og stigveldi valds í samfélaginu. Hópurinn samanstendur af þremur listamönnum sem rekja uppruna sinn til Filippseyja; þeim Dýrfinnu Benitu Basalan, Darren Mark og Melanie Ubaldo. Þegar þau vinna saman nýta þau arfleifð sína og þann stöðuga menningarlega árekstur sem einkennir líf þeirra. Þau stofnuðu hópinn árið 2019 í aðdraganda fyrstu sýningar þeirra í Kling og Bang, Lucky me?

 

Lucky 3, PUTI, 2021. Gjörningurinn fór fram í sýningarrýminu OPEN á Sequences X listahátíðinni. Ljósmynd: Omra Harding

„Puti þýðir hvítt. Í gjörningi sínum, sem fram fór í listamannarekna rýminu OPEN á Grandagarði, klæddist listafólkið hvítum fatnaði og setti sig í hlutverk ræstingafólks. Margir Filippseyingar á Íslandi vinna við þrif og hefur ræstingastarfið vissan innflytjendastimpil á sér. Lucky 3 gerðu í því að ögra óskrifuðum samskiptareglum sem gilda um ræstingafólk, fólk sem samfélagið getur ekki verið án en á helst ekki að taka pláss á vinnustað sínum. Fólk sem á hvorki að sjást né heyrast og tilheyrir oft í raun ekki starfsmannahópnum. Þau gengu í humátt á eftir fólki og skúruðu slóð þess. Þau höfðu séð fyrir sér að laga viðmót sitt gagnvart sýningargestum að húðlit gestanna og vera notaleg við þá sem hafa brúnan húðlit en fjandsamleg við hvíta. Þetta gekk illa upp því að flestir gestir voru hvítir og endurspeglar það kannski hversu einsleitur sá hópur er sem sækir myndlistarviðburði á Íslandi.  Gjörningur þeirra var ögrandi og ágengur og lét engan sem upplifði hann ósnortinn.

HEIÐURSVIÐURKENNING 2022

Kristján Guðmundsson. Ljómsynd: Lilja Birgisdóttir.

Kristján Guðmundsson hlaut Heiðursviðurkenningu fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar. Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

Þegar litið er yfir rúmlega fimm áratuga feril Kristjáns er ljóst að gildi verka hans felst fyrst og fremst í vitsmunalegu inntaki þeirra og viðleitni listamannsins til að skapa nýja merkingu. Verk hans eru fjölbreytt bæði hvað varðar efnistök og miðla en einkennast þó iðulega af kerfisbundnum vinnubrögðum og kímni. Hann hefur sýnt okkur formfegurð og einfaldleika í hversdagslegum hlutum og kannað á skipulagðan hátt möguleika miðilsins og efnisins sem hann vinnur með hverju sinni. Verk hans hafa átt þátt í að breyta afstöðu okkar til hlutanna og þar með breytt heiminum í kringum okkur. Kristján Guðmundsson á heiður skilið fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar. 

Svört og hvít málverk í hvítum og gráum römmum, 2008. Akríl á striga, lakkað stál.
Birt með leyfi listamannsins og i8 Gallerí.

Kristján er fæddur á Snæfellsnesi árið 1941 en uppalinn í Reykjavík. Hann er sjálfmenntaður í myndlist og hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968. Ári síðar hélt hann sýningu í Gallerí SÚM og sýndi tímamótaverkið Environmental Sculpture o.fl., fyrstu innsetningu íslensks listamanns. Hann var einn af hvatamönnum gallerísins og virkur þátttakandi í SÚM-hópnum. 

Í upphafi ferilsins nýtti Kristján hversdagslegan efnivið í forgengileg verk í anda alþjóðlegu flúxus-hreyfingarinnar sem lagði áherslu á að afmá mörk listar og daglegs lífs og tók listsköpunina ekki of hátíðlega. Með þessum verkum vakti Kristján nýjan skilning á myndlist hjá íslenskum áhorfendum og benti á nýja möguleika til að fjalla um samtímann.

ÁHUGAVERÐASTA ENDURLITIР

Mynd frá sýningunni Listþræðir í Listasafni Íslands.

Listasafn Íslands fékk viðurkenningu fyrir áhugaverðasta endurlitið 2021 fyrir sýninguna Listþræðir, sýningarstjórar voru Dagný Heiðdal og Harpa Þórsdóttir.

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

„ Viðurkenningu fyrir Áhugaverðasta endurlitið 2021 fellur í skaut Listasafns Íslands fyrir Listþræði, yfirgripsmikla sýningu sem spannaði 60 ára tímabil, þ.e. frá 1958 til 2018. Sýnd voru 60 verk 37 myndhöfunda. Áhugavert og fjölbreytt val sýningarstjóranna Dagnýjar Heiðdal og Hörpu Þórsdóttur á textílverkum frá tímabilinu var sérlega fræðandi. Sýningin gaf gestum safnsins góða mynd af þróun listgreinar sem fram á síðari ár var nær eingöngu stunduð af konum og hefur til þessa ekki hlotið þá athygli hér á landi sem hún verðskuldar. “

ÁHUGAVERÐASTA SAMSÝNINGIN 

Sæborg eftir Önnu Hallin frá sýningunni Endurómur í Verksmiðjunni á Hjalteyri.

Verksmiðjan á Hjalteyri fékk viðurkenningu fyrir áhugaverðustu samsýninguna 2021 fyrir sýninguna Endurómur í umsjón Olgu Bergmann og Önnu Hallin.

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

„Það hefur lengi verið styrkur og sérstaða íslenskrar myndlistarsenu að listamenn hafa sjálfir iðulega skipulagt metnaðarfull alþjóðleg sýningarverkefni þar sem list þeirra nýtur sín í víðtæku samhengi sem hún ætti ekki annars kost. Þetta er einmitt styrkur sýningarinnar Enduróms í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Kjarninn í sýningunni eru verk þeirra Olgu Bergmann og Önnu Hallin sem á aðdáunarverðan hátt buðu með sér áhugaverðum alþjóðlegum listamönnum til að auka við og efla merkingu þess kjarna. Með þeim í sýningunni tóku þátt þau Angela Dufresne frá Bandaríkjunum, Vesa-Pekka Rannikko frá Finnlandi og Simon Rouby frá Frakklandi.“

VIÐURKENNING FYRIR ÚTGEFIÐ EFNI UM MYNDLIST

Deiglumór: Keramik úr íslenskum leir 1930-1970.

Þá fengu Inga S. Ragnarsdóttir og Kristín G. Guðnadóttir viðurkenningu fyrir útgáfu bókarinnar Deiglumór: Keramik úr íslenskum leir 1930–1970

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

„ Í Deiglumó er fjallar ítarlega um starfsemi nokkurra leirmunaverkstæða á tímabilinu 1930 til 1970 þegar mikil gróska var í gerð muna úr íslenskum leir. Í bókinni er ágrip af sögu leirrannsókna og leirnýtingar á Íslandi fram á þennan dag sem jafnframt er áminning um mikilvægi þess að halda utan um þekkingu sem verður til með tilraunastarfsemi sem gerð er í listrænum tilgangi. Bókina prýðir fjöldi svarthvítra ljósmynda frá leirmunaverkstæðunum sem gefa fyllri mynd af starfseminni auk litljósmynda af völdum munum. Niðurstaðan er heildstætt rit um sögu leirmunagerðar á Íslandi á árunum 1930 til 1970 þegar unnið var mikið þróunarstarf með nýtingu á íslenskum leir og gerðar tilraunir með form og mynstur sem hafa listrænt gildi og eru hluti af íslenskri listasögu.“

Dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2022 skipa: 

Aðalheiður Valgeirsdóttir (Listfræðafélag Íslands) 

Ásgeir Skúlason (Samband íslenskra myndlistarmanna) 

Ágústa Kristófersdóttir (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna) 

Helgi Þorgils Friðjónsson, formaður dómnefndar (Myndlistarráð) 

Páll Haukur Björnsson (Listaháskóli Íslands)