Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Ásta Sigurðardóttir: Dúkristur

3 June24 June

Listakonan Ásta Sigurðardóttir varð „fræg á einni nóttu“ eins og títt hefur verið sagt, þegar smásaga hennar „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ kom út í tímaritinu Líf og list árið 1951. Ásta var þá 21 árs gömul. Um viðtökurnar við sögunni og skáldkonuna Ástu hefur mikið verið ritað og rætt í gegnum tíðina og óþarfi að tíunda það hér. Minna hefur farið fyrir myndlistakonunni Ástu, en Ásta var afar hæfileikarík og fjölhæf listakona. Hún vann um tíma í leirkeraverksmiðjunni Funa þar sem hún fékkst við listskreytingar á leirkerum. Hún fékkst einnig við málaralist, teikningu og grafík, auk þess sem hún myndskreytti og hannaði spil með mögnuðum teikningum af íslenskum þjóðsagnapersónum. Henni lánaðist þó ekki að klára spilin, en þau voru gefin út í fyrsta skipti fyrir jólin 2022 af Forlaginu, fyrir tilstuðlan afkomenda hennar. Og nú hafa afkomendur hennar einnig staðið fyrir því að endurvekja dúkristur móður sinnar.
Dúkristur Ástu prýddu smásagnasafn hennar Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns sem kom út árið 1961. Ekki er vitað til þess að fleiri eintök hafi verið þrykkt af dúkristum Ástu, nema þau sem notuð voru við prentun bókarinnar. Afkomendur Ástu fengu til liðs við sig grafíklistamanninn Guðmund Ármann sem þrykkti 50 eintök af hverri mynd og bjóðast þær nú til sölu í Gallerí Fold á þessari sérstöku sýningu. Það er mikill fengur í því að verk Ástu séu nú risin upp úr bókunum og fái að njóta sín sem sérstök listaverk eins og þau eiga skilið.
Dúkristurnar eru allar svartar í grunninn, sem kannski gerir þau drungaleg við fyrstu sýn, enda voru þau unnin til að styðja við tragískan og myrkan undirtón í sögum Ástu. Grófleiki, hvöss og kassalaga form einkenna dúkristur Ástu, sér í lagi þegar hún teiknar karlmenn, eins og sjá má á myndum hennar við sögurnar „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ og „Gatan í rigningu“, en formin mýkjast þegar hún teiknar konur og sérstaklega börn. Má þar nefna ungu stúlkuna sem dreymdi um betra líf í „Kóngaliljum“ og börnin í „Dýrasögu“ og „Skerplu“. Smásagnasafn Ástu er afar fallegt og heildstætt listaverk sem sýnir að Ásta var ekki síðri myndlistarkona en rithöfundur og gaman að rýna í texta hennar út frá því samhengi, því oft flæðir myndmálið inn í textann og í sögum hennar má finna margar einstaklega myndrænar og kyngimagnaðar lýsingar. T.d. vorlýsingar sveitapiltsins í sögunni „Skerpla“.
“Stórir flotar regnskýja sigldu blásandi byr yfir ljósbláan himinsæinn fyrir gullbryddum þokuseglum. Skínandi andlit sólarinnar faldi sig glettnislega bakvið silfurgráa maríutásu og tvöfaldur friðarbogi byggði brú frá bæjarásnum alla leið upp í himininn. Úðinn draup úr loftinu í sífellu og settist á nýgræðinginn í glitrandi smákúlum sem skulfu á nálaroddum stráanna eitt andartak áður en þær hröpuðu niður í grænkandi jörðina. Drengurinn sá þetta allt. Hann leit til lofts og síðan á jörðina aftur. Ef þetta var ekki vorið, – þá var líka ekkert að reiða sig á í þessum heimi.”
Eða það hvernig unga stúlkan í „Kóngaliljum“ fær séð fegurðina í fátæklegum bragganum.
“Arið glitraði í daufum sólargeisla sem skáskarst inn um ofurlítinn gaflglugga. Sá gluggi var óhreinn og hátt uppi eins og í öðrum bröggum, og rúðan var margbrostin. Litlir strákar léku sér að því að hæfa hana með smásteinum og skjóta í hana af teygjubyssu, ef þeir áttu. En glerið var tvöfalt og sterkt og stóð af sér þesskonar smásendingar, að því undanteknu að í það komu skrautlegir brestir sem voru líkastir dálitlum sólum með veðrahjálmi þegar bjart var úti, en þegar dimma tók urðu þeir áþekkastir smátunglum með rosabaug. Þeir ljómuðu glæsilega í mattri birtu dagsins, og á kvöldin þegar glugginn grét brotnaði ljósið að handan svo fallega í votri rúðunni; það varð allavega litt og brestirnir skinu eins og ofurlitlar stjörnur; stúlkan undi við að horfa á það þangað til nágranninn slökkti.”
Þó dúkristur Ástu standi fyllilega sem sjálfstæð listaverk þá öðlast þær vissulega dýpri merkingu í samhengi við sögurnar. Við vonum að þær verði listunnendum hvatning til að lesa sögurnar hennar. Ásta var sjálf afar vel lesin og hvatti börn sín til lesturs í bréfum sínum til þeirra. Í bréfi til sonar síns skrifar hún „…legðu áherslu á lestur, lestu sem mest – sá sem er vel læs er oftast duglegur í öllu öðru.“