Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Ástríður J. Ólafsdóttir: Fellingar

15 October, 202229 October, 2022

Það er nýr heimur að myndast, efni og klæði falla saman og mynda heimsmynd. Rétt eins og þegar jörðin býr til fjöll og dali með jarðskjálftum og eldgosum. Agnir dragast saman og verða plánetur, loftsteinar og sólir. Líkt og komið sé út í geim og verkin mynda nýja stjörnuþoku. Sjónarhornið færist nær, inn í pláneturnar og ímyndað landslag myndast, minnir á eldfjöll eða jökla úr draumalandi. Einfalt í byrjun en verður svo flóknara. Alveg eins og lífið sjálft.
Myndaröðin á sýningunni heitir „Panneggio“ eins og tæknin sem gömlu ítölsku meistararnir notuðu sem sérhæfðu sig í að mála klæði, fellingarnar í efninu, samspil ljóss og skugga og anatómíu klæðanna.
Panneggio serían varð til við samruna tveggja hugðarefna Ástríðar. Loftfimleika (aerial silks) og myndlistarinnar. Þar mættust andstæðurnar hreyfing og kyrrð. Í loftfimleikunum notar „aerialistinn“ hangandi klæði til þess að klifra upp eftir og dansa í loftinu. Hann skapar atburð sem er andartak, ólíkt málaranum sem situr kyrr og málar í marga klukkutíma í sömu stellingunni, festir augnablikið á strigann og gerir það eilíft. Annars vegar er augnablikið og hins vegar eilífðin.
“Mér fannst áhugavert að skoða hvernig ég gat leikið mér með efnið, búið til úr því skúlptúra og yfirfært með olíumálningu á strigann. Svo bætti ég ljósi í leikinn og þá urðu til verk þar sem ljósið er eins og bundin orka, föst inn í efninu og reynir að brjótast í gegn. Útkoman eru þessar abstrakt myndir unnar á raunsæjan hátt. Einhvers konar abstrakt raunsæi sem augað getur túlkað áfram.”
Ástríður Jósefína Ólafsdóttir lærði myndlist í Bologna á Ítalíu. Hún útskrifaðist árið 2016 frá Accademia di Belle Arti di Bologna, með meistaragráðu í Visual Arts. Á námsárunum sýndi hún víða í Bologna m.a. í Museo civico Medievale.
Fyrsta einkasýning hennar á Íslandi var sumarið 2021 í Húsi Máls og menningar í Reykjavík og sumarið 2022 sýndi hún í Núllið gallerí í Bankastræti.

Details

Start:
15 October, 2022
End:
29 October, 2022
Event Tags:
,
Website:
https://www.myndlist.is/

Venue

Gallery Fold
Rauðarárstígur 12 - 14
Reykjavík, 105 Iceland
+ Google Map