
- This event has passed.
Umbúðalaust Kraftaverk á Höfn
22 June–31 August

Sýning Áslaugar Thorlacius og Finns Arnars ber yfirskriftina Umbúðalaust kraftaverk en þótt þau hafi stundum unnið saman að sinni myndlist starfa þau yfirleitt hvort í sínu lagi og það á við að þessu sinni. Finnur sýnir ljósmyndaverkið Kraftaverk í skúlptúrlandi, heimspekilegar vangaveltur um lífið og tilveruna sem hann skapaði í skúlptúrgarði Árna Páls Jóhannssonar í Rangárþingi ytra árið 2017. Áslaug sýnir verk úr plastumbúðum, en hún vinnur með það efni í umhverfinu sem grípur auga hennar hverju sinni.
Sýningin er hluti af sýningaröð sem Lind Draumland og Tim Junge, aðstandendur MUUR standa fyrir og byggist á pörum sem eru búin að vinna saman eða sitt í hvoru lagi í myndlist í gegnum sinn feril.
Áslaug og Finnur hafa fylgst að frá árinu 1987 þegar þau hófu nám í Myndlista- og handíðaskólanum og hafa haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga á rúmlega 30 ára löngum ferli. Samhliða myndlistinni hefur Finnur starfað við hönnun, aðallega fyrir leikhús, söfn og sérsýningar af ýmsu tagi. Árið 2020 leikstýrði hann eigin leikverki, Englinum, í Þjóðleikhúsinu sem byggði á textum Þorvaldar Þorsteinssonar. Áslaug hefur sömuleiðis unnið ýmis störf samhliða myndlistinni en hún hefur verið skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík frá árinu 2014.