Á ferð um landið í sumar

Við höfum tekið saman lista yfir nokkrar af helstu sýningum sumarsins vítt og breitt um landið.

Heildarlista yfir sýningar sem standa yfir má nálgast á viðburðadagatalinu okkar.

Í sumar stendur Gallerí Úthverfa á Ísafirði fyrir sýningarröðinni FEROCIOUS GLITTER II þar sem hver sýning stendur yfir í tvær vikur í senn. Sýningarstjóri er Gavin Morrison og hefur hann valið verk eftir Einar Þorstein, Eyborgu Guðmundsdóttur, Hrein Friðfinnson / Sólon Guðmundsson, Gabríelu Friðriksdóttur og Donald Judd.

Listasafn Akureyrar opnaði nýverið fimm nýjar sýningar sem standa yfir sumarið. Þar má meðal annars sjá einkasýningar Brynju Baldursdóttur, Jónu Hlífar Halldórsdóttur, Snorra Ásmundssonar og Heimis Björgúlfssonar.

Safnasafnið á Svalbarðseyri fagnar 25 ára afmæli sínu nú í sumar með fjölbreyttum sýningum. Þar má sjá verk eftir leika sem lærða og fléttað er skemmtilega saman nútímalist, alþýðulist og handverki.

Fyrir þá sem staddir eru á Norðurlandi þá mælum við með heimsókn í Verksmiðjuna á Hjalteyri sem stendur fyrir tveimur spennandi samsýningum í sumar. Verksmiðjan er í 1500m2 húsnæði sem áður hýsti síldarverksmiðju.

Þeir sem taka stefnuna á Austfirði geta litið við í Skaftfelli á Seyðisfirði, en þar opnaði nýverið sýning Ingibjargar Sigurjónsdóttur Mon ciel, mi cielo. Hvað ertu raunverulega að meina? Á sýningunni er verkum Ingibjargar og listmálarans og leirlistamannsins Benedikts Guðmundssonar (1907-1960) teflt saman.

Í Listasafni Árnesinga í Hveragerði standur nú yfir sýning á verkum úr einkasafni Skúla Gunnlaugssonar. Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera unnin á síðastliðnum áratug. Listamennirnir á sýningunni tilheyra yngri kynslóð listamanna og hafa verið áberandi í íslensku myndlistarlífi undanfarin ár. Samband listamanns við menningu og anda síns tíma er útgangspunktur sýningarinnar Tíðarandi og skoðað verður hvernig lesa má þjóðfélagslegar hræringar í gegnum listir.