A! Gjörningahátíð

A! Gjörningahátíð fer fram á Akureyri dagana 1. – 4. október næstkomandi. A! er fjögurra daga alþjóðleg gjörningahátíð sem haldin er árlega og nú í sjötta sinn. Ókeypis er inn á alla viðburði.

A! Gjörningahátíð er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, LÓKAL alþjóðlegrar leiklistarhátíðar, Gilfélagsins, Listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri, Heim-vídeólistahátíðar, Flugsafnsins og Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar. Auk viðburða utan dagskrár (off venue).

Fjölbreyttir gjörningar og leikhústengd verk af öllum toga eru á dagskránni. Þátttakendur A! eru ungir og upprennandi listamenn, ásamt reyndum og vel þekktum gjörningalistamönnum og leikhúsfólki. Listamennirnir sem koma fram í ár eru: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Anna Richardsdóttir, Carlos Sebastiá, Egill Logi Jónasson og Hekla Björt Helgadóttir, Elisabeth Raymond, Halldór Ásgeirsson, Katrín Gunnarsdóttir og Rán Flygenring, Paz Begué, Páll Haukur, Steinunn Knútsdóttir og Gréta Ómarsdóttir, Tine Louise Kortermand / Tractor, Victor Givois, Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir.