Bibendum-sýningar Listasafns ASÍ

Bibendum-sýningarnar eru ný tegund vinnustaðasýninga hjá safninu, þ.e. myndlistarsýningar á dekkjaverkstæðum. Auglýst er eftir þátttakendum meðal myndlistarfólks og stefnt er að því að velja þrjá til þátttöku að þessu sinni, tvo á höfuðborgarsvæðinu og einn utan þess. Myndlistarfólk um land allt er hvatt til að sækja um.Sýningarstjóri á vegum Listasafns ASÍ vinnur með myndlistarfólkinu að þróun sýningar á dekkjaverkstæði að eigin vali í samráði við starfsfólk og eigendur viðkomandi dekkjaverkstæðis. Sýningarnar verða opnaðar við hátíðlega athöfn og verndari þeirra er hinn 126 ára gamli franskættaði Bibendum, ein þekktasta táknmynd gúmmídekkja um allan heim.Safnað verður heimildum um samráðsferlið og afraksturinn og upplýsingunum miðlað á heimasíðu safnsins, með dreifimiðum og á samfélagsmiðlum. Til stendur að endurtaka verkefnið, gangi það vel, í samstarfi við fleiri listamenn og verkstæði.Hugmyndin að þessum nýju vinnustaðasýningum kemur upphaflega frá kontóristum Lögfræði- og Hagdeilda ASÍ þar sem menn vildu víkka út svið vinnustaðasýninga safnsins, sem flestar eru í snyrtilegum húsakynnum fyrirtækja og stofnana, og gera tilraun til að ná til breiðari hóps á vinnumarkaði. Þeir sáu fyrir sér sýningar á stöðum þar sem óhreinindi geta fylgt starfseminni og oft ríkir hávaði og læti. Þeir töldu myndlist sem er til sýnis á vinnustöðum, sem bjóða starfseminnar vegna upp á takmarkaða möguleika fyrir myndlist, sérstaklega áhugaverða.

Umsóknarferlið:

14. september 2020: Auglýst eftir þátttakendum
30. september 2020: Skilafrestur rennur út á miðnætti
7.-10. október 2020: Tilkynnt um hverjir veljast til þátttöku- Listráð safnsins auk ráðgjafa hjá ASÍ fara yfir tillögur og velja þátttakendur í verkefninu.
– Myndlistarfólkið velur verkstæði sem það vill vinna með, leggur til verk á sýninguna og sér um uppsetningu og niðurtekt verka í samráði við starfsmenn og eigendur viðkomandi vinnustaðar.
– Dekkjaverkstæðið leggur til húsnæði (t.d. veggi í afgreiðslu, vinnusal, á kaffistofu eða snyrtingum) og samráð.
– Listasafn ASÍ stýrir verkefninu, sér um kynningar og skipuleggur opnanir, skrifar undir samkomulag við dekkjaverkstæði og listafólk. Safnið greiðir listamanninum þóknun fyrir sýninguna en greiðir ekki fyrir vinnu eða efni umfram það. Safnið aðstoðar við uppsetningu og niðurtekt og sér um flutning verka til og frá sýningarstað.

Umsóknin:
Með umsókninni skal fylgja ferilskrá ásamt myndum af fimm nýlegum verkum. Einnig er beðið um stutta hugleiðingu (hámark 200 orð) þar sem umsækjandi tilgreinir hvers vegna hann hefur áhuga á verkefninu.Hafa ber í huga að sýningarnar verða settar upp á vinnustöðum í fullri starfsemi og taka verður tillit til þeirra takmarkana sem því fylgir. Sýningarnar verða unnar í samráði við eigendur og starfsmenn viðkomandi vinnustaðar.Viljayfirlýsing frá viðkomandi dekkjaversktæði skal innihalda eftirtaldra upplýsingar:
– Nafn, kennitölu og heimilisfang fyrirtækis,
– Nafn eiganda fyrirtækis eða staðgengils hans,
– Nafn listamanns
– Auk þess þarf að koma fram að undirritaður eigandi viðkomandi dekkjaverkstæðis hafi áhuga á því að taka þátt í verkefninu Bibendum-vinnustaðasýningar Listasafns ASÍ.Innsending gagna:
CV og sýnishorn af verkum í einu pdf-skjali ásamt viljayfirlýsingu dekkjaverkstæðis um samstarf um sýningu undirritað af eiganda.Umsóknir skal senda til Listasafns ASÍ info@listasafnasi.is fyrir miðnætti miðvikudaginn 30. september 2020. Umsóknir skulu merktar ,,BIBENDUM2020‘‘Umsóknir sem ekki uppfylla ofantalin skilyrði eða berast of seint verða ekki teknar til skoðunar.