Callum Innes: Tært Land

Sýning Callum Innes tært land samanstendur af hópi fimmtíu vatnslitamynda sem í heild sinni eru eitt verk. tært land er sýnd sameiginlega í i8 og OSL contemporary; en þetta verður jafnframt þriðja einkasýning hans í hvoru galleríi fyrir sig. Sýningin í i8 stendur til 29. maí, en áður var sama sýning í Osló dagana 19. febrúar – 27. mars.

Vatnslitaverk hafa verið órjúfanlegur hluti af vinnu Callum undanfarna áratugi og nefnir hann skærleika litanna sem ástæðu þess að hann snýr alltaf aftur í þann miðil. Hann sneiðir hjá þeirri ónákvæmni og hraða sem menn tengja oft við vatnsliti og reiðir sig þess í stað á nákvæm og öguð vinnubrögð í málun til þess að geta sem best rannsakað möguleika lita og forma. Í verkunum á sýningunni gætir samhljóms milli einfaldleika og þess flókna, milli tilviljana og stjórnað ferlis, líkt og svo oft í verkum hans.

Við gerð vatnslitaverkanna þá afmarkar Callum ferhyrning á hvítri örk og ber á hann einn lit með breiðum pensli. Þegar sá litur er að þorna, þá bætir hann öðrum lit á þann fyrsta og í framhaldinu hefst ferli þar sem hann fjarlægir og bætir við lit í samsetninguna. Útkoman eru verk sem eru nær einlit, en þó gætir ákveðins litaskala í blæbrigðum litarins og þar sem enn má merkja pensilför listamannsins. Breiðar rendur á jaðri flatarins sem sýna litina tvo sem Innes hefur valið í verkið og gefur innsýn í umbreytinguna sem varð við það að lit var bætt við eða úr honum dregið.

Callum Innes gerði fimmtíu vatnslitaverk á vinnustofu sinni í Osló en hann hefur unnið þar frá því snemma árs 2020. Þetta er í annað sinn á ferli hans sem hópur vatnslitamynda mynda eitt heilt verk. Þegar litið er á heildina þá kemur glögglega fram tilbrigði í samsetningum sem sýna hversu margslungið og djúpt ferli þar liggur að baki. Hin hárfína mýkt sem hægt er að ná fram með þessum miðli, eins og t.d. hvernig liturinn fjarar út á brúnum verksins og hvernig einn litur er hjúpaður öðrum, hvetur áhorfandann til þess að staldra við og skoða nánar, og nákvæm rannsókn listamannsins á blæbrigðum ljóss og skugga verður sérlega áhrifamikil þegar unnt er að upplifa það í gegnum fjölda mynda samtímis. Í febrúar kom út bókin tært land í tilefni af sýningunum tveimur. Í bókinni eru vatnslitamyndirnar fimmtíu saman komnar en auk þess nýtt ljóð eftir skáldið Thomas A. Clark sem samið er undir hughrifum af verkum Callum Innes.

Callum Innes (fæddur 1962 í Edinborg) er einn mikilvægasti abstraktmálari sinnar kynslóðar. Verk hans má finna í opinberum söfnum um allan heim svo sem í Albright-Knox Art Gallery í Buffalo; Art Gallery of Ontario í Toronto; Centre Pompidou í París, Listasafni Deutsche Bank í Frankfurt; Kunstmuseum Bern; The Modern Art Museum í Fort Worth; The National Gallery of Australia í Canberra; National Galleries of Scotland í Edinborg; San Francisco Museum of Moden Art; The Solomon R. Guggenheim Museum í New York og Tate Modern í Lundúnum. Meðal nýlegra safnsýninga sem vakið hafa athygli gagnrýnenda má nefna In Position í Château La Coste í Aix-en-Provence (2018); I‘ll Close My Eyes í De Pont Museum í Tilburg (2016); Callum Innes: Recent Work í National Galleries of Scotland í Edinborg (2010) og From Memory, sem var farandsýning um Evrópu og Ástralíu (2008-2009). Callum Innes býr og starfar bæði í Edinborg og Osló.

Sýningartími

16.04.2021 - 29.05.2021
Ongoing...
i8 Gallerí

Staðsetning

i8 Gallerí
Tryggvagata 16, 101 Reykjavík
Vefsíða
https://i8.is