DEIGLUMÓR: keramik úr íslenskum leir 1930 – 1970

Leirlist hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda og er órjúfanlegur hluti af menningar- og listasögu heimsins. Af minjum um leirlist til forna á Íslandi hefur fátt eitt varðveist. Í því sambandi er til orðið deiglumór. Þetta forna orð yfir leir vitnar um notkun leirs til deiglugerðar á Íslandi fyrr á öldum. Sú saga er fallin í gleymsku, en hins vegar var notkun íslenska leirsins forsenda fyrir hinni frjóu leirlistarsögu tuttugustu aldar. Brautryðjandinn, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, stofnaði Listvinahúsið 1927.  Á árunum 1946 til 1957 voru síðan stofnuð fimm ný leirmunaverkstæði í Reykjavík: Leirbrennsla Benedikts Guðmundssonar, Funi, Laugarnesleir, Roði og Glit. Nokkur af þessum verkstæðum voru stór, með allt að tíu manns í vinnu við framleiðsluna. Þau áttu það öll sameiginlegt að nota íslenskan leir, fram til um 1970. Á þessari sýningu eru verk frá ofangreindum verkstæðum og frá þeim tíma, sem íslenski leirinn var notaður. Leitast er við að gefa innsýn í framleiðslu verkstæðanna og draga fram sérstöðu hvers og eins þeirra. Á verkstæðunum voru hannaðir og framleiddir bæði einstaka módelhlutir og fjöldaframleiddir skrautmunir. Það voru meðal annars stórir vasar, matarstell, styttur og minjagripir fyrir ferðamenn. Mikill listrænn metnaður var lagður í einstaka muni og helstu verkstæðin leituðust við að leiða almenningi fyrir sjónir, að módelhlutir úr leir stæðu jafnfætis málverki eða skúlptúr. Hönnun og framleiðsla íslenskra leirmuna markaði upphaf íslensks listiðnaðar í nútímaskilningi þess orðs. 


Sýningin er unnin á grunni bókarinnar Deiglumór, keramik úr íslenskum leir 1930-1970, sem byggir á rannsóknum Ingu S. Ragnarsdóttur á sögu íslenskrar leirlistar.
Sýningarstjórar eru Inga S. Ragnarsdóttir og Kristín G. Guðnadóttir.

Sýningartími

13.02.2021 - 16.05.2021
Ongoing...

Frekari upplýsingar

Viðburður
Hönnunarsafn Íslands

Staðsetning

Hönnunarsafn Íslands
Garðatorg 1, 210 Garðabæ
Vefsíða
https://www.honnunarsafn.is
Viðburður