Fæðing guðanna / Freeze Frame

Verið velkomin á opnun á einkasýningu Hrafnkells Sigurðssonar í Ásmundarsal, laugardaginn 5. september kl.15:00. Sýningin ber titilinn „Fæðing guðanna / Freeze Frame“ og stendur til 18.október n.k.

Þetta er í fyrsta sinn sem listamaður tekur yfir bæði rýmið í Gryfjunni og í salnum á sama tíma, en sýningin samanstendur af ljósmynda- og myndbandsverkum.

Texti um sýninguna eftir Andra Snæ Magnason 🖋
„Ég man þegar ég fór með vini mínum á myndlistarsýningu þar sem verk Hrafnkels Sigurðssonar af glærum plastpokum marandi í vatni voru sýndir. Plastpokarnir birtust okkur í draumkenndu, ljósi, nánast eins og lífverur, eins og náttúra í ljóðrænni kyrrstöðu svo úr varð hrein fegurð en þó ísmeygileg og örlítið óþægileg, dansandi og draugaleg en svo hlaut að vera einhver írónía þarna en hún blasti ekki við. Formfegurðin var alger og myndaði spennu á móti viðfangsefninu sem var í eðli sínu ljótt. Vinur minn spurði. Má þetta? Má eitthvað sem er svona slæmt, vera svona fallegt?

Listamaðurinn fangaði fyrir mér ákveðinn veruleika sem hafði ekki verið fangaður með þessum hætti. Það voru til ljósmyndir af ruslahaugum og verk unnin úr rusli en hér var annað sjónarhorn og það var stuðandi, ekki síst vegna gæða myndanna, stærð þeirra og ,,fegurð”.

Hið sama má kannski segja um verkin sem voru gerð á ruslahaugunum í Álfsnes þótt fegurðin þar hafi ekki verið eins upphafin, ljótleikinn blasti betur við, baggað og óflokkað heimilissorp í burðarpokum með tilheyrandi vörumerkjum, Bónus, Þín verslun, Hagkaup en mörg þeirra eru svífandi og lauflétt.

Það er talað um mannöldina, the Anthropocene, þar sem maðurinn og áhrif hans eru á skala við helstu öfl jarðsögunnar, ísaldir, flekahreyfingar og loftsteinaregn. Segja má að plastpokalífveran í vatninu og ruslahaugarnir séu ein tæraasta birtingarmynd þessa tíma, í samfélagi þar sem flestir eru neytendur í þjónustusamfélagi sem framleiða lítið sem ekkert, eru haugarnir á Álfsnesi helsta afurðin sem þetta samfélag skapar og skilur eftir sig fyrir komandi kynslóðir. Ólíkt öðrum lífverum og öllu lífríki, þar sem úrgangur eins er næring annarrar lífveru, þá höfum við skapað úrgang sem er gagnslaus og skaðlegur, eitraður og jafnvel banvænn öðru lífi, jafnvel öllu lífi

Ljósmyndaverk Hrafnkels birta, greina og skoða, upphefja jafnvel á óþægilegan hátt en það er ekki hægt að lesa úr þeim beina afstöðu og þar lá kannski galdurinn. þrátt fyrir afar augljóst viðfangsefni, tókst honum samt að halda í auga greinandans, hann dæmdi ekki viðfangsefnið heldur birti þau, á sama hátt og hann hefði birt önnur mannanna verk. Plastpokaverkin sem voru spegluð um miðásinn urðu reyndar eins og litrík Rorsach próf. Þau spurðu kannski án þess að spyrja beint: Ertu brjálaður

Hvort sem listamaðurinn var meðvitaður um samhengið eða ekki þá eru nýju verkin í Fæðingu guðanna eins og rökrétt framhald af þessum fyrri verkum sem fanga mannöldina. Hrímaðir skúlptúrar sem snúast hægt fyrir augum okkar. Fá okkur til að skoða og lesa í formin sem breytast síðan löturhægt í önnur form.

Það gæti hljómað eins og stytta sér leið, að láta hrím vaxa utan á ramma, að láta náttúruna sjá um vinnuna og ljósmynda útkomuna, en í rauninni er vinnan bak við myndirnar líkara þrautseigjuverkum. Listaverkið er unnið í samvinnu við náttúruöflin, við endurteknar ferðir upp á Skálafell, stöðugar veðurathuganir í leit að hárréttu birtu og rakastigi, endurteknar tilraunir með hvaða grind laðar að sér réttu formin og svo þarf að grípa verkin í réttri birtu, ljósmynda eða kvikmynda. Það er verið að veiða, fanga, grípa og festa hið forgengilega. Í rauninni er um að ræða klassíska aðferð myndhöggvarans, sem byrjar með grind sem verður undirstaðan fyrir leir eða gifs sem síðan er hlaðið utan á, hér er unnið með hrím og ís sem hleðst á fyrirfram mótaða grind.

Í rauninni má líta á það sem rökrétt framhald af verkunum sem fönguðu mannöldina, plastpokana og ruslahaugana. Það mætti jafnvel líta á verkin sem friðþægingu í heimi sem hefur komið ísnum úr jafnvægi. Neyslusamfélagið þar sem hver og einn framleiðir fyrst og fremst rusl hefur valdið því að ísinn lætur undan. Á síðustu 30 árum hefur jörðin misst um 28 trilljón tonn af ís. 28 milljón milljónir tonna. Að vinna með ís getur ekki talist hlutlaus athöfn í samtímanum, að laða til sín ísinn, að vinna með honum, að finna fegurð hans, að rækta ísinn eins og blóm eða tré. Fæðing guðanna / Freeze frame, hvað á listamaðurinn við? Kannski verður samhengið ljósara eftir hundrað ár, þegar sjávarmál hefur risið og ísinn er orðinn sjaldgæfari í veröldinni. Við munum muna þá tíma þegar ísinn á fjarlægum heimshornum verndaði okkur, þegar hann var kyrr á einum stað. Þá munu menn kannski klífa fjallstinda og reyna að endurlífga þessa fornu guði sem bjuggu á fjallstundum og vörðu strandlengjur heimsins. Menn munu kalla til sín hrímið og menn munu ákalla þessa hrímguði og grátbiðja þá um að snúa aftur til fjalla. Það verður kannski hægt að laða þá fram við réttar aðstæður, þeir birtast þá kyrrir augnablik á frosnum rammanum, Freeze Frame áður en þeir snúa aftur til hafs.“


Hrafnkell Sigurðsson (f. 1963) fæddist í Reykjavík og lærði þar, áður en hann flutti fyrst til Maastricht og svo til London árið 1993. Hann lauk MFA-gráðu við Goldsmith‘s College árið 2002. Árið 2007 hlaut Hrafnkell hin virtu Íslensku sjónlistarverðlaun. Hrafnkell hefur nýtt sér ljósmyndun við gerð verka sinna en einnig má þar sjá notkun ýmissa annarra miðla á borð við myndbönd, skúlptúra og innsetningar. Mörg ljósmyndaverka Hranfkels eru seríur sem fjalla um hversdagsleg málefni og hreyfa við skynjun áhorfandans með persónulegum tengingum. Tærar myndir hans fela í sér hefðir málaralistar og minna áhorfandann á hinn lagskipta raunveruleika bak við myndræna fleti.

Sýningartími

05.09.2020 - 18.10.2020
Ongoing...

Frekari upplýsingar

Viðburður á facebook
Ásmundarsalur

Staðsetning

Ásmundarsalur
Freyjugata 41, 101 Reykjavík
Vefsíða
https://www.asmundarsalur.is
Viðburður á facebook

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *