Fallandi trjám liggur margt á hjarta

Josephine van Schendel
Þórey Björk Halldórsdóttir
Bára Bjarnadóttir
Dýrfinna Benita Basalan
Tabita Rezaire
Brokat Films
Elín Margot
Tarek Lakhrissi

27. march – 9. may 2021

Ef tré fellur í skógi og enginn er nálægt, heyrist þá eitthvert hljóð? Já, fallandi trjám liggur margt á hjarta, og hljóðið berst úr órafjarlægð. Við erum einfaldlega ekki að hlusta.


Það gleður okkur að tilkynna opnun nýrrar og spennandi samsýningar í Kling & Bang sýningarstýrt af Helenu Aðalsteinsdóttur. 

Helena leiðir saman listamenn sem bjóða gestum að ferðast til útópískra heima þar sem ástin ræður ríkjum. Við fáum að kynnast sameiginlegum skilningi milli manna og náttúru og tækifæri til að hlusta á þær raddir sem áður hafa verið þaggaðar niður. 

Sögurnar sem móta heimssýn okkar eru enn þann dag í dag frásagnir feðraveldis. Femínískur vísindaskáldskapur endurskrifar þessar frásagnir. Með því að veita framlagi kvenna og jaðarhópa aukið vægi vörpum við ljósi á fjölbreyttari viðhorf til tilvistar okkar á jörðinni. Þannig gefum við ólíkum sjónarhornum tækifæri til þess að hafa áhrif á mótun framtíðarinnar með tilliti til þarfa og hagsmuna minnihlutahópa sem hafa hingað til ekki verið í forgrunni.

Á undanförnu ári hefur heimurinn sýnt okkur að hann er ekki eins óhagganlegur og við gáfum okkur. Hvernig viljum við endurræsa samfélagið þegar sóttkvínni er lokið? Nú gefst okkur tækifæri til að hlusta.Vegleg útgáfa fylgir sýningunni sem inniheldur texta og myndverk eftir listamenn sýningarinnar auk annarra listamanna sem vinna á mörkum fantasíu og raunveruleika. Útgáfan er hönnuð af Grétu Þorkelsdóttur og verður útkomu hennar fagnað í seinustu viku sýningarinnar í byrjun maí.

Af sóttvarnarástæðum verður ekki eiginleg opnun, en sýningin verður opin frá kl. 14-18 laugardaginn 27. mars og á hefðbundnum opnunartímum þaðan í frá.

Sýningartími

27.03.2021 - 09.05.2021
Ongoing...
Kling & Bang

Staðsetning

Kling & Bang
Marshall húsið, Grandagarður 20, 101 Reykjavík
Vefsíða
http://this.is/klingogbang/