Helga Páley Friðþjófsdóttir: Húsvörður slær í gegn

Húsvörður slær í gegn

Ég stend á sviði og horfi fram. Hvítt ljósið úr kösturunum skín beint í andlitið á mér svo mig verkjar í augun. Ég lít niður á svart sviðið. Svart og matt. Svo matt að það er eins og það gleypi í sig allt ljós.
Ætli ljósið fari í gegnum sviðið og komi út hinu megin? 
Er þetta svarta svið undir fótum mér kannski skel yfir í síbjartan geim sem við sjáum ekki.

Kallað er úr sal “ gerðu eitthvað!” 
Ljósið blindar mig enn. 
Ég hvíli augun með því að fylgjast með mottunni strjúkast með dáleiðandi zik zak hreyfingum yfir sviðið. Langar og teigjanlegar Zetur Z Z z z z z. . ..

Gera eitthvað, hvað?
Er þetta tímapunkturinn þar sem ég læt ljós mitt skína? 
Slæ í gegn? Ég, best of, núna?

“Vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt” og þannig fer maður alla leið segir lagið í útvarpinu.

Leifar af hveitihaugnum eru búnar að dreifast um allt sviðið eftir hasarinn fyrr um kvöldið. 
Ég teikna fiðrildi í hveitið með fingrunum. 
Þau eru svo margskonar, þess vegna er svo gaman að teikna þau. 
Ætli þau standi vörð um þessa þunnu skel. 
Eru þessi fiðrildi þá góð eða vond?

Vatnið í fötunni er orðið gruggugt, kominn tími til að ná í nýtt. 
Þvílík sóun á vatni. Einu sinni frysti ég allt skúringarvatnið, og í lok vikunnar raðaði ég því eins og skúlptúrum á bílaplanið fyrir utan húsið. Hver fata var með sinn karakter. Daginn eftir var allt horfið ofan í svart malbikið. Enginn minntist á þetta.

Ég lít aftur upp, Það tekur mig smá stund að venjast ljósinu. Salurinn er tómur. 


Helga Páley Friðþjófsdóttir hefur í verkum sínum notað teikningu, meðal annars til þess að kanna mörk miðilsins, bæði á striga og í skúlptúr. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, bæði hér á landi og erlendis. Helga var meðlimur í listamanna rekna galleríinu Kunstschlager í Reykjavík. Hún hefur enn fremur tekið þátt í ýmsum verkefnum, eins og Frystiklefanum í Rifi og var list stjórnandi listahátíðarinnar Ærings.

Helga lauk námi við myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2011. Samhliða myndlistinni hefur hún einnig unnið sem teiknari, bæði við myndskreytingar og hreyfimyndagerð (e. illustrator og animator). Helga býr og starfar í Reykjavík.

Sýningartími

10.04.2021 - 24.04.2021
Expired!

Frekari upplýsingar

Viðburður á Facebook
Þula

Staðsetning

Þula
Hjartagarðurinn, Laugavegur, 101 Reykjavík
Vefsíða
https://thula.gallery
Viðburður á Facebook