Hönnunarmars: Öllum hnútum kunnug

Hönnunarmars 2021 hefst í Hafnarhúsi með sýningunni Öllum hnútum kunnug, sem er þverfaglegt verkefni sem skoðar táknræna vídd reipisins í norrænni samtímamenningu. Efnislegur og hugmyndafræðilegur grunnur verkefnisins hverfist um tvær reipagerðir: Hampiðjuna í Reykjavík og Aarhus Possementfabrik í Danmörku. Báðar hafa þær starfað frá því snemma á 20. öld og framleitt reipi með hérumbil sama tækjakosti, en í gjörólíkum tilgangi: annars vegar fyrir betri stofuna, hins vegar fyrir úthafið. 

Menningarlega má staðsetja Öllum hnútum kunnug mitt á milli þessara tveggja heima; milli flæðandi sjávarsíðunnar þar sem reipi getur skilið milli lífs og dauða, og stássstofu Viktoríutímans séða með augum nútímamannsins. Innbú Viktoríutímans einkenndust af marglaga tjöldum sem umvöfðu heimilið að innanverðu en lokuðu umheiminn úti. Þessi hjúpur birtist að hluta til sem andsvar við óstöðugri samfélagsgerð þess tíma sem kallast að ýmsu leyti á við aðstæður í nútímanum. Á sama tíma kom jafnframt fram í fyrsta sinn hugmyndin um heimilið sem svið.

Rannsóknin er sett fram sem röð verka. Þar á meðal eru efnistilraunir, vídeóverk og reipistengdir munir fyrir nútímaheimili. Með verkum þessum er brugðið ljósi á áskoranir tengdar einkalífi og samspili rýmisins við hið félagslega í samtímanum.

Öllum hnútum kunnug verður röð farandsýninga og opnar sú fyrsta í Listasafni Reykjavíkur. Samhliða sýningunum kemur út, í hlutum, yfirgripsmikið bókverk sem teygir ramma verkefnisins út yfir mæri tímabundinna sýninga. Þar verður meðal annars að finna rannsóknargögn, sérpantaðar ritgerðir og uppritaðar munnlegar frásagnir. Bókin verður fáanleg í völdum verslunum og sýningarrýmum. 

„Að vera öllum hnútum kunnugur“ merkir að gjörþekkja eitthvað; þekkja eitthvað út í æsar. Eins og með enskan titil verkefnisins „Knowing the Ropes“ má telja líklegt að uppruni orðatiltækisins vísi til sjómennsku. Á sjó skipti þekking á hlutverki hnútanna og allra reipanna á skipinu sköpum. Reipin í enska titlinum gætu þó einnig vísað til leikhússins, þar sem reipi voru notuð til að hífa upp tjöld.

Hönnuðir: Brynhildur Pálsdóttir, Þuriður Rós Sigurþórsdóttir og Theresa Himmer.

Sýningartími

01. - 09.05.2021
Expired!

Frekari upplýsingar

Sjá hér
Listasafn Reykjavíkur - Hafnarhúsið

Staðsetning

Listasafn Reykjavíkur - Hafnarhúsið
Tryggvagata 17, 101 Reykjavík
Vefsíða
https://listasafnreykjavikur.is/
Sjá hér