Jóhannes S. Kjarval: Hér heima

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972) er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar. Fjölbreytt lífsverk hans nær yfir fjölda málverka af náttúru landsins, kynjaverum og fólkinu í landinu. 

Í landslagsmyndum sínum birti Kjarval íslenska náttúru á gjörólíkan hátt en áður hafði tíðkast og kenndi landsmönnum að horfa á landið nýjum augum og meta fegurðina sem býr í hrauninu og mosanum við fætur okkar. Kjarval skipar stóran sess í íslenskri menningar- og listasögu og hefur veitt síðari kynslóðum listamanna ómældan innblástur. Kjarval málaði víða um land; á Þingvöllum og öðrum stöðum í nágrenni Reykjavíkur, á Snæfellsnesi, Skagaströnd, Austfjörðum og víðar. 

Jóhannes fæddist að Efri-Ey í Meðallandi árið 1885 en ólst upp hjá ættingjum í Geitavík í Borgarfirði eystri til sextán ára aldurs. Um tvítugt tók hann sér írska konungsnafnið Kjarval og notaði það allt til æviloka. Árið 1902 flutti hann til Reykjavíkur, aðeins tveimur árum eftir að Þórarinn B. Þorláksson setti upp fyrstu myndlistarsýninguna á Íslandi. Kjarval sótti námskeið í teikningu og málun bæði hjá Þórarni og Ásgrími Jónssyni í Reykjavík en hugur hans stefndi út í heim. Hann sigldi til London árið 1911 en hélt þaðan til Danmerkur í formlegt nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn snemma árs 1912. Hann fór líka í áhrifaríkar ferðir til Ítalíu og Frakklands áður en hann svo var alkominn til Íslands og ákvað að gera íslenskt landslag að viðfangsefni sínu undir lok þriðja áratugarins. 

Árið 1968 ánafnaði Kjarval Reykjavíkurborg stóran hluta listaverka sinna og persónulegra muna og hafa verk hans verið kynnt með ýmsu móti frá því Kjarvalsstaðir voru opnaðir árið 1973. Safneignin hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin; bæði hafa verið keypt verk í safnið og einnig hefur borist fjöldi ómetanlegra gjafa frá einstaklingum. Á sýningunni eru sýnd verk úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Gott tækifæri gefst til að kynnast mörgum lykilverkum frá ferli listamannsins og fá innsýn í þróun landslagsverka hans.

Sýningarstjóri:
Edda Halldórsdóttir

Tags:

Sýningartími

25.06.2020 - 14.03.2021
Expired!

Frekari upplýsingar

Viðburður á Facebook
Listasafn Reykjavíkur - Kjarvalsstaðir

Staðsetning

Listasafn Reykjavíkur - Kjarvalsstaðir
Flókagata 24, 105 Reykjavík
Vefsíða
https://listasafnreykjavikur.is/kjarvalsstadir
Viðburður á Facebook

Skildu eftir svar