Jón Sigurður Thoroddsen: Nokkur verk

Sýning Jóns Sigurðar Thoroddsen „Nokkur verk“ verður opnuð í Lýðræðisbúllunni, Bergstaðastræti 25B, föstudaginn 23. apríl. Opnun sýningarinnar stendur frá klukkan 15:00 til 19.00.

Frá unga aldri hefur Jón Sigurður teiknað og málað. Myndlist, tónlist og bókmenntir hafa verið hans ær og kýr. Á þrítugsaldri veiktist Jón og hefur það litað ævi hans. Segja má að myndir Jóns séu andardráttur hans, þær eru eins og slóð hans og ekki allar málaðar í varanlegt efni, en flestar þó.

Margt hefur farið forgörðum á ýmsum tímum en miklu hefur þó verið bjargað. Hér á þessari sýningu má sjá sýnishorn af verkum Jóns frá yngri árum. Þær sýna að hann er vel heima í myndlistasögunni og sér þess merki hvort sem er í vísunum eða stílbrigðum. Ef myndirnar eru skoðaðar í heild sjást greinileg afmörkuð skeið og ör þróun í myndheimi hans. Jón hefur alltaf pælt í valdinu. Eldri myndir hans eru pólitískar, en hann óx frá beinni pólitík og tók að mála goðsöguleg minni í margs konar samhengi, snéri sér líka að kynlífsgrunni menningarinnar og þannig mætti lengi telja. Vísanir í bókmenntir og tónlist lita öll skeiðin. Nýtt innihald kallar yfirleitt á nýjan stíl. En hvað sem innihaldi líður, má alltaf treysta á hans leikandi línu, næma litaskyn og öruggu myndbyggingu.

Við skulum gefa Jóni sjálfum orðið um myndir sínar: „Ég mála það sem mér finnst fallegt handa mér. Ef verk mitt er röng spurning, þá það. Ég hlýt að spyrja. Ef spurning mín er rétt vinn ég verk fyrir alla, ef hún er röng vinn ég líka fyrir alla. Hvort sem spurningin er rétt eða röng, fæst rétt svar“

Samhliða sýningunni kemur út bók með myndum Jóns Sigurðar og ber hún heitið „Jón Sigurður Thoroddsen – 105 verk“.

Sýningin opnar föstudaginn 23.apríl og stendur opnunin frá kl 15.00 til 19.00. Sýningin verður opin alla daga nema mánudaga frá kl 14.00 til 18.00 til 9. maí.

Sýningartími

23.04.2021 - 09.05.2021
Expired!

Frekari upplýsingar

Viðburður á Facebook
Lýðræðisbullan

Staðsetning

Lýðræðisbullan
Lýðræðisbúllan, Bergstaðastræti 25B, 101 Reykjavík
Vefsíða
https://www.facebook.com/Lydraedisbullan
Viðburður á Facebook