Ólafur Elíasson: Handan mannlegs tíma

Nýjasta sýning Ólafs Elíassonar í i8, Handan mannlegs tíma, setur fram ný vatnslitaverk listamannsins. Ólafur hefur viðhaldið stöðugum áhuga á vatnslitamiðlinum og notað hann allt frá árinu 2009 til þess að rannsaka liti, hreyfingu og tíma. Verkin draga fram tilfinningu um rými og birtu með því að bera síendurtekið örþunnt vatnslitalag á pappírsörk í mjög nákvæmu og áþreifanlegu sköpunarferli. i8 er það sönn ánægja að sýna tvær seríur skyldra verka og nýtt stórt vatnslitaverk sem unnið er með bráðnandi jökulís.

Verkin sjö sem bera titilinn Solar short term memory snúast öll um skínandi hringform sem hvetur til frekari íhugunar. Út frá þessu miðlæga myndefni dreifast mislitir sammiðja hringir sem leiða það í ljós að gráleiti flöturinn sem umlykur myndefnið er í raun hvert litalagið ofan á öðru. Ef áhorfandinn starir inn í hringinn nokkra stund festist myndin í sjónminnið í stutta stund. Draughringur í aukalit verksins varir í augum áhorfandans þó hann líti af verkinu. Vegna þessa er myndin í raun í auga áhorfandans – í skynfærum þínum – sem sagt þá ert þú í raun sá sem gerir verkið; þú ert listamaðurinn.

Í smærri vatnslitaverkunum, sem nefnast Circular hand dance voids koma fram fíngerðir sporbaugar sem teiknaðir eru fríhendis og gætir þar votts af því ófullkomna ferli teikningar sem liggur að baki sköpuninni. Formin sem raða sér hvert ofan á annað og daufir litatónarnir vekja hughrif um gegnsæi eða grunnt dýpi. Sporbaugurinn kemur ítrekað fyrir í verkum Ólafs og er formið honum hugleikið vegna þess að rými þess er órætt og vísar í hreyfingu.

Báðar seríurnar á sýningunni sýna samhengið á milli þess sem listamaðurinn kallar „eyður“ og „fasta“, milli (nánast) auðrar arkar og þeirra flata sem málað hefur verið á. Ljósustu flötunum hefur verið náð fram með því að þynna litinn með vatni, frekar en að bæta hvítum í litinn, og eru því þeir fletir sem virka hvað ljósastir í raun þeir sem innihalda minnst af litarefni. Þannig eru verk Ólafs hér nærgætið samtal á milli sterkra litalaga og flata þar sem skín í óþakinn papírinn, rétt eins og borgir sem eru samsettar af hvers kyns mannvirkjum eiga sér andrými á milli bygginganna.

Titilverk sýningarinnar, Beyond human time, var gert með því að nota ævafornan jökulís sem veiddur var úr sjónum við Grænlandsstrendur fyrir hina gríðarstóru innsetningu, Ice Watch árið 2014. Í því verki vann Ólafur með jarðfræðingnum Minik Rosing í þrjú skipti alls á árunum 2014 til 2018 og settu þeir fram stóra klumpa úr Grænlandsjökli á fjölfarna staði hér og þar í Evrópu til að vekja athygli á afleiðingum loftlagsbreytinga og til þess að hvetja fólk til aðgerða. Ólafur notar litla mola úr þessum klumpum í þessu verki. Ísmolanum var komið fyrir ofan á þykkri pappírsörk ofan á þunn litalög. Eftir því sem að ísinn bráðnaði, kom vatnið í stað litarins, og framkallaði lífrænar bylgjur og litbrigði. Hér notast hann við tilviljanir og náttúrulegt ferli og eru vatnslitaverk af þessari gerð tilraunir til að fanga sjálfkrafa hegðun náttúrufyrirbæra og gera þau að samverkamönnum sínum. Listaverkið felur í sér merki um framgang tímans – dagana sem þurfti til að skapa verkið og árþúsundin sem þurfti fyrir jökulinn til að hlaðast upp.

Sýningartími

25.06.2020 - 18.08.2020
Ongoing...
i8 Gallerí

Staðsetning

i8 Gallerí
Tryggvagata 16, 101 Reykjavík
Vefsíða
https://i8.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *