Ragna Róbertsdóttir

Ragna Róbertsdóttir

i8 kynnir einkasýningu Rögnu Róbertsdóttur sem opnar 10. júní 2021. Sýningin er fjórða einkasýning hennar í galleríinu og eru nú liðin 25 ár síðan hún sýndi fyrst í galleríinu árið 1996. Sýning hennar er í þrennu lagi, í fyrsta lagi er sýning hennar í galleríinu, í öðru lagi er útiverk fyrir utan i8 og svo í þriðja lagi er verk í Hljómskálagarðinum.

Ragna er mikilsvirtur listamaður á Íslandi en framlag hennar til listasögunnar hefur líka teygt anga sína langt út fyrir landsteinanna. Verk hennar eru rannsókn á ímynd, efniskennd, tíma sem og náttúrufræði og sögu byggingalistar. Ragna er líklega best þekkt fyrir mínímalíska skúlptúra og innsetningar sínar, þar sem hún notast við efni sem má finna víða í íslenskri náttúru svo sem hraugrýti, salt, torf og leir.

Á sýningunni má líta verk sem hún gerði strax snemma á níunda áratuginum fram til dagsins í dag. Hún endurvekur verk sem annað hvort hafa aldrei verið fullgerð eða hafa glatast fyrir löngu. Greina má einkenni listamannsins í gegnum sýninguna alla, þ.e. hina fínlegu og nákvæmu tilfinningu fyrir formi og efni.

Þegar gengið er inn í galleríið blasa við nokkrar þéttbundnar torfrúllur, blanda af jarðvegi og grasi sem skipa sér upp við vegginn. Skúlptúrinn kinkar kolli til heysáta og fornra torfhúsa, og gefur því tóninn um það ferli hvernig landslagið verður eitt með innra rýminu. Hinum megin í galleríinu eru tveir vafningar gerðir úr Manila-reipi og hör, sem flett er út og þremur stöflum af rétthyrndum steinskífum er komið fyrir á milli þeirra. Áþreifanleiki verkanna minnir á stef úr harðneskjulegri náttúru Íslands og hvernig maðurinn hefur reynt að hafa áhrif á umhverfi sitt í henni.

Á sýningunni er sömuleiðis ný innsetning í tveimur hlutum unnin úr svörtum vikri sem Ragna hefur safnað úr Heklu. Veggverk skipa mikilvægan sess í verkum Rögnu og hefur hún notast við ólík efni í því samhengi og tekur gjarnan ákvörðun um það eftir eiginleika og birtu hvers rýmis fyrir sig. Það hefur lengi tíðkast á Íslandi að klæða hús að utan með hvers kyns steinefnum eða skeljasandi og er þessi aðferð Rögnu innblástur í því hvernig hún vinnur þessi verk sín. Hún setur vikurinn á vegginn með því að kasta honum á límkennt yfirborð og að því ferli loknu vinnur hún áfram í myndinni með því að auka við efni eða draga úr. Í verkunum er náttúrunni haganlega komið fyrir innan marka ferhyrningsins og gætir blæbrigða innan þeirra sem úr má lesa bæði kraft og hreyfingu, líkt og hún hafi fangað frumkraft eldsumbrotanna.

Beint fyrir framan galleríið hefur Ragna komið fyrir þremur bronsplötum í stað gagnstéttarhellna. Verkið er orðið hluti gangstéttarinnar og gengur því inn í innviði og arkítektúr borgarlandslagsins. Eftir því sem sýningunni vindur fram mun efnið í verkinu breytast og tærast þar sem það er algerlega óvarið fyrir veðri og vindum og er það annað leiðarstef hennar, þ.e. samhengið á milli tíma og umbreytinga. Að auki er eitt verk að finna í Hljómskálagarðinum, stígur gerður úr rauðum vikri sem hún sótti í Seyðishóla sem varð til við sprengigos. Inngrip listamannsins villir leið frá skipulögðum göngustígum í garðinum og líkt og bronsplöturnar í gangstéttinni þá breytist stígurinn stöðugt eftir því sem vegfarendur ganga á vikrinum. Bæði bronsgangstéttin og rauðamalarstígurinn verða til sýnis allt fram í september 2021.

Ragna Róbertsdóttir (f. 1945) býr og starfar jöfnum höndum í Reykjavík og Berlín. Hún hefur sýnt víða um heim á ferli sínum og hefur haldið stórar einkasýningar bæði í Nýlistasafninu og í Listasafni Reykjavíkur. Stór bók um verk hennar á árunum 1984-2017 var gefin út af þýska forlaginu Distanz árið 2018.

Sýningartími

10.06.2021 - 31.07.2021
Ongoing...

Frekari upplýsingar

Read More
i8 Gallerí

Staðsetning

i8 Gallerí
Tryggvagata 16, 101 Reykjavík
Vefsíða
https://i8.is
Read More