Sirra Sigrún Sigurðardóttir & Ásmundur Sveinsson: Ef lýsa ætti myrkva

Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan inn á vangaveltur um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Þau framkalla oft stöðu okkar sem einstaklinga, vægi okkar og smæð þar sem hið smáa er sett í samhengi við það stærra og merking er yfirfærð frá einu fyrirbæri yfir á annað svo úr verður ný skynjun, ný sýn. 

Ólíkt því sem tíðkast í listum er miðlun vísindalegra upplýsinga og gagna gjarnan sett fram með áreiðanlegum, ótvíræðum og auðskiljanlegum hætti í trúverðugu formi eins og línuritum, hitamyndum, stærðfræðilíkönum og skífuritum, svo eitthvað sé nefnt. Þannig má miðla gögnum sem segja okkur eitthvað áþreifanlegt og ábyggilegt um heiminn okkar og stöðu mannsins í honum. Sirra hefur endurtekið notað ásýnd og inntak þessara forma í listaverkum sínum. Framsetningin setur þó upplýsingarnar sem um ræðir og ótvíræðni upplýsinga yfir höfuð í nýtt ljós svo á það næst einhver fjarlægð. Vísindalegu mælitækin eru upphafin um leið og þau eru dregin í efa. Eftir snúning í tilraunaglasi listamannsins birtist gjarnan annað sjónarhorn og víðara, með fleiri skírskotanir og meðvitund um hve ómögulegt sé að miðla nokkru svona ótvírætt. Og órökréttar skýringar listarinnar verða ekki endilega eins óáreiðanlegar og þær virðast.

Staða landsins á hnettinum veldur ýktum sveiflum í sólarganginum, vetrarsólin marar lágt á himni í nokkrar klukkustundir og sumarsólin trónir hátt lungann úr sólarhringnum. Á sýningu sinni í Ásmundarsafni nýtir Sirra umfangsmesta skúlptúr Ásmundar, bygginguna sjálfa, og speglaða geisla sólarinnar til að búa til risavaxna teikningu í formi abstrakt sólúrs. Ný verk Sirru mynda samtal við valin verk Ásmundar og kinka kolli til hugmyndaheims hans og einlægs áhuga á tækni og vísindum, og næmni hans fyrir ólíkum efnum og efnistökum, sem birtist í óttaleysi hans við að breyta um stíl og aðferðir í gegnum ferilinn.

Sirra Sigrún Sigurðardóttir lauk BA námi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og MA í Art Practice frá School of Visual Arts í New York árið 2013. Hún hefur meðal annars haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Hafnarborg og Kling & Bang og tekið þátt í samsýningum og verkefnum víða um heim, þar á meðal í Chinese European Art Center í Xiamen í Kína, Amos Andersons Konstmuseum í Helsinki í Finnlandi og í Tate Modern og Frieze Projects í London á Englandi.
Sirra er einn stofnenda Kling & Bang í Reykjavík. Hún hefur hlotið styrki og viðurkenningar úr listasjóðum Dungal, Leifs Eiríkssonar, Svavars Guðnasonar, Guðmundu Andrésdóttur og Guðmundu S. Kristinsdóttur. Árið 2015 var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna sem tímaritið Modern Painters útnefndi sem listamenn sem vert væri að fylgjast með á komandi árum.

Sýningarstjóri: Ingibjörg Sigurjónsdóttir

Sýningartími

13.05.2021 - 17.10.2021
Ongoing...

Frekari upplýsingar

Sjá hér
Listasafn Reykjavíkur - Ásmundarsafn

Staðsetning

Listasafn Reykjavíkur - Ásmundarsafn
Sigtún 105, Reykjavík
Vefsíða
https://listasafnreykjavikur.is/asmundarsafn
Sjá hér