Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Arkíf horfinna verka

9 júlí7 ágúst

Safneign Nýlistasafnsins er fyrir löngu orðin lifandi goðsögn, en í henni leynast óleystar ráðgátur sem nú taka yfir sýningarrými safnsins í Marshallhúsinu. Arkíf horfinna verka miðar að því að ná yfirsýn yfir safneignina á meðan unnið er að því að leysa þessa leyndardóma og gestir eru beðnir um að leggja sitt að mörkum í rannsókninni. Niðurstaðan verður heimildasafn um verk sem að af einhverjum ástæðum eru ekki á þeim stað sem þeim er ætlaður. Verkefnið tekur yfir sýningarrýmið í Marshallhúsinu frá 9. júlí til 7. ágúst í sumar. Samhliða því hefjum við upptökur á efni fyrir Nýló rásina, nýja hlaðvarpsveitu sem fer af stað með sumrinu.

Hvað gæti hafa komið fyrir horfnu verkin? Í hvaða hillu eru þau komin? Eru þau hreinlega ekki lengur í varðveisluhúsnæðinu? Var þeim skilað til fyrri eigenda? Komið fyrir í öðrum geymslum? Voru þau lánuð á sýningu og aldrei skilað? Urðu þau fyrir óafturkræfum skemmdum? Finnast einhverjar ljósmyndir af verkunum? Hefur eitthvað verið skrifað um þau? Hvenær voru þau sýnd síðast? Og hvað með verkin sem við vitum ekkert um? Hvaðan komu þau? Hver er listamaðurinn? Hefur þú einhverjar upplýsingar? Við bjóðum þér að taka þátt í því að skapa Arkíf horfinna verka.

 

Frá stofnun Nýlistasafnsins 1978 hefur safneignin vaxið ört og nálgast í dag 3000 listaverk. Söfnunin hófst út frá hugsjón myndlistarmanna í andófi gegn áhuga- og afskiptaleysi opinberra safna í garð samtímalistar og safneignin er þess vegna einstök á marga vegu. Hún endurspeglar þróun íslenskrar myndlistar frá og með sjötta áratug síðustu aldar en geymir einnig verk eftir marga alþjóðlega stóra listamenn. Safneignin samanstendur eingöngu af gjöfum, að mestu leiti frá listamönnum sem gefa safninu eigin verk eða verk eftir aðra í þeirra eigu.

 

Í gegnum tíðina hafa safneignarfulltrúar Nýló rekið sig á leyndardóma í geymslum safnsins, verk sem ekki finnast, verk sem talin eru munaðarlaus og jafnvel alls óþekkt verk. Arkíf horfinna verka miðar að því að yfirfara safneign Nýló og skrásetja þau verk sem telja má glötuð í dag, safna um þau heimildum og skrásetja. Verkefnið felur í sér yfirferð á öllum hillum, skúffum og öðrum varðveilsustöðum safnsins og samanburði við skráningu á Sarpi og í pappírsgögnum um hvert einasta verk sem hefur verið þegið að gjöf.

 

Safnið heldur utan um tvö heimildarsöfn: Arkíf um listamannarekin rými og Gjörningaarkífið, auk heimildasafns um eigið starf, en á næstu misserum er ætlunin að bæta við Arkífi horfinna verka. Ætlunin með þessu nýja heimildasafni er sú að ná heildstæðri mynd af þeim verkum sem af einhverjum ástæðum eru ekki á skráðum varðveislustað, en aukaafurð rannsóknarstarfsins verður heildstæð mynd af ástandi safneignarinnar og aukin þekking á þeim verkum sem eru á einhvern hátt óþekkt eða óskilgetin. Með því að safna heimildum um horfnu verkin gefst tækifæri til þess að endurheimta þau í safneignina sem hluta af arkífinu, á meðan þeirra er leitað í yfirferðinni. Með því að opna þessa hlið safneignarstarfsins fyrir gestum er verið að opinbera viðkvæma og vandasama hlið safnastarfsins um leið og almenningi er boðið að taka þátt í því starfi sem rannsakendur.

 

Í sumar fer fyrsti fasi verkefnisins fram í sýningarsal Nýló í Marshallhúsinu þar sem framtíð verkefnisins verður mótuð og það keyrt af stað með aðstoð gesta. Í framhaldi verður síðan reglulega opnunartími í safneigninni í Völvufelli samhliða áframhaldandi yfirferð. Einnig er fyrirhuguð útgáfa í tengslum við verkefnið. Þetta er því þáttur í því að opna safneignina meira og gera hana sýnilegri í safnastarfinu.

Venue

The Living Art Museum
Grandagarður 20
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
View Venue Website