Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir & Steingrímur Gauti Ingólfsson: Innanyfir

15 október, 202128 október, 2021

Föstudaginn 15. október kl. 17:00 verður sýningin Innanyfir opnuð í Gallery Port. Á sýningunni getur að líta ný verk eftir Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur og Steingrím Gauta Ingólfsson.

Sýn, innsýn, innsæi, sjónarhorn. Hvaðan horfir listamaðurinn á verkin sín og hvernig horfir áhorfandinn á þau? Horfum við ofan frá, með yfirsýn eða sjáum við aðeins brot af heildarmyndinni. Er horft innávið eða út um augun og frá okkur. Uppundir, í gegnum, afturábak í tíma eða áfram inn í eilífðina?

Í verkum sínum vinnur Áslaug með efnivið sem á sér sterkar rætur í náttúru og í byggingariðnaði og stuðlar jafnframt að hugrenningartengslum við umhverfi okkar, mótun þess og skipulag. Í stöðugri leit að jafnvægi teflir Áslaug fram andstæðum og stillir þeim upp sem hliðstæðum hvað varðar efnivið, aðferðir og efnistök. Fágun og fínleiki þess grófa og hráa er dregið fram og öfugt.

Steingrímur Gauti nálgast málverkið af alúð og léttleika, með því að aðskilja sjálfið og fyrirframgefnar hugmyndir frá daglegu sköpunarferli sínu. Verk hans leika með grunnspurningar um myndlist og fagurfræði, eru í senn kraftmikil og lítillát en fjalla í raun ekki um annað en sig sjálf og sjónræn áhrif þeirra á áhorfandann. Ónákvæmni, endurtekning og höfnun gagnrýnnar hugsunar einkenna vinnubrögð hans og útkoman ber þess jafnan merki, þar sem verkin dansa á línu þess ljóðræna og barnslega.

Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir (f. 1981) lauk B.A. námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2006 og MFA frá School of Visual Arts í New York árið 2009. Áslaug bjó um tíma í Bandaríkjunum en býr nú og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í samsýningum í söfnum, galleríum og öðrum sýningarrýmum í Evrópu, Bandaríkjunum og á Íslandi. Áslaug hélt sína fyrstu einkasýningu árið 2015 í Hverfisgalleríi en nýlegar sýningar hafa verið sýningin STEIN SKRIFT í Norr11, Stellingar I Línulegar frásagnir í Berg Contemporary og einkasýningin Umskráning, sem nú stendur yfir á jarðhæð Ásmundarsalar og er hluti sýningarraðarinnar Í kring hjá Reykjavík Roasters.

Steingrímur Gauti Ingólfsson (f. 1986) býr og starfar í Reykjavík. Hann lauk B.A. námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur verið virkur í sýningarhaldi síðastliðin ár. Hann hefur tekið þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis og haldið allnokkrar einkasýningar. Nýlegar sýningar eru m.a. Soft Approach í Galerie Marguo í París, Life in a Day í Diller Daniels í Zurich og Allt á sama tíma í Hafnarborg. Verk Steingríms má finna í bæði opinberum- og einkasöfnum í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.

Venue

Gallery Port
Laugavegur 32
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
View Venue Website