Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Ásmundur Sveinsson og Rósa Gísladóttir

26 febrúar, 202228 ágúst, 2022

Rósa Gísladóttir sýnir verk sín í samtali við verk Ásmundar Sveinssonar. Myndhöggvarar tveggja tíma mætast í samtali sem veitir nýja sýn á arfleifð Ásmundar ásamt því að kynna fyrir gestum ný verk starfandi listamanns.

Rósa hefur á ferli sínum fengist við ýmsan efnivið en hún er þekktust fyrir gifsskúlptúra sem hafa tekið á sig ólík form og stærðir í gegnum tíðina. Í verkum sínum vinnur Rósa gjarnan með listrænar tilvísanir í arkitektúr og menningarsöguna og mun vinna með Ásmundarsafn sjálft sem skúlptúr. Ásmundur reisti „kúluhúsið“ við Sigtún í nokkrum áföngum á árunum 1942-59. Hann hafði þar heimili og vinnustofu og mun vinnustofustemmning þeirra beggja, Ásmundar og Rósu, mætast og vera gerð sýnileg.

Rósa Gísladóttir (f. 1957) nam myndlist í Þýskalandi, Bretlandi og á Íslandi. Verk hennar hafa verið sýnd víða hérlendis og erlendis, þar á meðal í Scandinavia House í New York, Saatchi Gallery í London, Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Listasafni Árnesinga og Berg Contemporary. Árið 2020 var Rósa fyrsti handhafi Gerðarverðlaunanna sem eru veitt framúrskarandi myndlistarmanni sem vinnur í skúlptúr og rýmisverk.

Ásmundur Sveinsson (1893–1982) var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og einn þeirra sem kynntu fyrir Íslendingum nýjar hugmyndir í myndlist 20. aldar. Ásmundur sótti innblástur í íslenskar sagnir og þjóðtrú en samfélagið og tækniframfarir 20. aldar voru honum einnig ríkuleg uppspretta hugmynda. Verk Ásmundar eru á opinberum stöðum víða um land og setja svip sinn á Reykjavík. Hann hélt alla tíð tryggð við þá afstöðu að listin ætti erindi til fólksins og ætti heima á meðal þess. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg verk sín ásamt heimili sínu eftir sinn dag. Ásmundarsafn við Sigtún var opnað formlega vorið 1983 og þar hafa verið settar upp fjölbreyttar sýningar.

Sýningarstjórar:

Aldís Snorradóttir
Edda Halldórsdóttir