Loading Events

« All Events

Ásmundur Sveinsson og Carl Milles

18 febrúar21 maí

Á sýningunni verða verk myndhöggvaranna Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og Carls Milles (1875-1955) frá Svíþjóð. Sýningin er liður í samstarfi Millesgården og Ásmundarsafns sem eiga það sameiginlegt að vera söfn tileinkuð lífi og starfi listamannanna tveggja. Carl Milles er einn virtasti myndhöggvari Svíþjóðar og líkt og Ásmundur gaf hann hús sitt, vinnustofu og verk til þjóðar sinnar eftir sinn dag. Carl Milles var lærifaðir Ásmundar á námsárum hans í Stokkhólmi en árið 2020 voru hundrað ár liðin frá því að Ásmundur hóf nám við Konunglega sænska listaháskólann undir handleiðslu Milles. Á söfnunum tveimur eru varðveittar heimildir sem varpa ljósi á það hversu sterkum böndum Ásmundur og Milles bundust og töluverðan samhljóm má finna í ferli þeirra og verkum. Milles nýtti sér sögu og menningu eigin þjóðar sem innblástur í verk sín og á sama hátt hvatti hann Ásmund til þess að leita fanga í íslenska menningararfleið sem glögglega má sjá í verkum hans allan hans feril. Báðir lögðu þeir mikla áherslu á að listin ætti heima í almannarými og að þar nyti hún sín best þar sem flestir hefðu aðgang að henni. Ásmundur á flest útilistaverk í reykvísku borgarlandi auk þess sem þó nokkur verk hans er að finna víðar um landið. Verk Milles er jafnframt að finna á fjölmörgum stöðum í Svíþjóð og er hann sérstaklega þekktur fyrir magnaða gosbrunna sína og vatnaverur. Verk hans eru einnig að finna á fleiri stöðum í heiminum, þarf af flest í Bandaríkjunum þar sem hann bjó lengi og kenndi.

Sýningarstjórar: Edda Halldórsdóttir og Sigurður Trausti Traustason