Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Brúnn, bleikur, banani

2 október, 202114 október, 2021

Við erum lítil, við lærum lag um litina. Ekki alveg alla litina en nógu marga til að taka þátt í því samtali. Stef, orð, byrjun og endir, um eitthvað sem við sjáum. Kannski erum við að kynnast einhverjum lit í fyrsta skiptið, annað hvort orðinu þá eða litnum, það sem við tengjum orðið við. Þú hefur sennilega heyrt lagið áður en þú syngur það. Þetta er upplifun, að læra er upplifun. Við lærum af upplifunum. Við lærum litina með lagi.

Ef við getum lært litina með lagi, hvað annað er hægt? Getum við lært tölur með trompeti? Lært um tölvur með trjágreinum? Um geiminn með lyklum? Sumt af þessu er augljóst, auðvitað. Eins og þegar þú lærðir um sársauka með svelli, eða lærðir um bíla þegar hann bilaði, eða lærðir um drauma frá dauðanum. Sumar tengingar eru viljandi, sumar eru óvart tengingar.

Af því það er alltaf líka eitthvað meira.Við lærum eitthvað kannski fyrst og fremst: nöfnin á litunum. En hér er ekki bara brúnn, bleikur heldur líka banani, og svo appelsína – talandi. Litir eru alltaf bara til á einhverju, ekki í lausu lofti, ok. Eitthvað til að muna, já, en líka til að túlka. Kannski er ekkert þá fyrst og fremst. Kannski er lærdómurinn hvernig á að beita raddböndunum, eða að ríma, eða kannski hvernig á að vinna saman og syngja í hópi. Kannski er það stuðlunin, kannski erum við að læra fyst og fremst hvernig við stuðlum. Ég skal ekki segja, það er þitt mál.

 

Anna Hrund Másdóttir (f.1981) vinnur tilraunakennt og óútreiknanlega með efnivið sinn. Hún lauk BS námi í stærðfræði við Háskóla Íslands árið 2006 og BA námi í myndlist við Listaháskóla Íslands árið 2010. Árið 2012 var hún nemi í listamannarekna skólanum The Mountain School of Arts í Los Angeles og útskrifaðist síðar með MFA gráðu við California Institute of the Arts. Verk hennar hafa verið sýnd á fjölmörgum einka- og samsýningum, hérlendis og erlendis.

Auður Lóa Guðnadóttir (f.1993)er myndlistarmaður, sem leikur sér á landamærum hins hlutlæga og huglæga, skúlptúrs og teikningar, listar og veruleika. Hún vinnur markvisst með hversdagsfyrirbæri, fígúratíft, og myndmál sem hún sækir í forna jafnt og nýliðna sögu.
Auður Lóa útskrifaðist af myndlistasviði Listaháskóla Íslands 2015. Síðan þá hefur hún starfað sjálfstætt og í samstarfi við aðra listamenn, og tekið þátt í sýningum eins og Leikfimi í Safnasafninu, Djúpþrýstingur í Nýlistasafninu og Allt á sama tíma í Hafnarborg. Hún hlaut hvatningarverðlaun myndlistarráðs 2018 fyrir sýninguna Díana, að eilífu sem hún tók þátt í og stýrði. Vorið 2021 opnaði hún sína fyrstu stóru einkasýningu í D-sal Listasafns Reykjavíkur en hún bar titilinn Já / Nei og samanstóð af yfir 100 skúlptúrum úr pappamassa.

Patty Spyrakos (f. 1974) er myndhöggvari og listmálari sem leggur áherslu á blandaða tækni og er búsett í Reykjavík. Patty lauk BS-prófi í sálfræði og mannfræði við Loyola-háskóla í Chicago en í námi sínu lagði hún einkum áherslu á skynkerfi, skyntúlkun og þróunarsálfræði. Um 20 ára skeið starfaði hún við sjónræna og gagnvirka hönnun og sem hugmyndastjóri hjá stóru alþjóðlegu tæknifyrirtæki í San Francisco. Hún lærði keramikgerð í þrjú ár við Lincoln Square Pottery Studio í Chicago. Patty leggur í verkum sínum mikla áherslu á tilraunastarfsemi með efniviðinn og viðfangsefnið er oftar en ekki undir áhrifum frá þeim stað þar sem hún heldur til eða þar sem sýningin er haldin. Hver sýning listakonunnar vekur upp ný sjónarhorn á bæði verkum og hana sjálfa en undir niðri má skynja þróunarferli hugans, andleg og tilfinningaleg átök, hverfult jafnvægi, hið yfirnáttúrulega og þróun tengsla og tengingu af öllu tagi jafnt innan sem á milli sjálfsins og samfélagsins. Hún hefur sýnt í Chicago, Los Angeles, Hong Kong, Reykjavík og hélt sína fyrstu einkasýningu í New York á þessu ári í Padre Gallery.

Details

Start:
2 október, 2021
End:
14 október, 2021
Event Tags:
, , ,
Website:
https://www.facebook.com/events/651939672445257

Venue

Gallery Port
Laugavegur 32
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
View Venue Website