
- This event has passed.
Butterly / Pétursson
19 janúar–18 mars

Í heildarverki Kathy Butterly og Eggert Péturssonar má finna líkindi í áratuga langri skuldbindingu við handverkið, án þess að þau missi sjónar á persónulegri tjáningu viðfangsins. Sýn Kathy og Eggerts einkennist af samtali við efni og aðferð og næmni þeirra beggja fyrir smáatriðum leiðir af sér kraftmikil, grípandi verk sem bjóða áhorfandanum að hugleiða þolmörk lita og forma í gegnum færni listamannsins; Kathy reynir á takmörk og getu skúlptúrsins rétt eins og Eggert reynir á málverkið.
Ferli og tími eru mikilvægir þættir í verkum beggja listamanna, og taka þau hvort um sig mánuði, jafnvel ár í sköpun verka sinna. Kathy brennir keramík verk sín allt að 40 sinnum til að ná fram réttri samsetningu lita og forms; Eggert glæðir strigann íslenskri flóru af kostgæfni og elju. Áhugi þeirra á eiginleikum efnis og ásækinn áþreifanleiki listaverkanna býr til rúm fyrir áhugavert samspil skúlptúrs og málverks tveggja ólíkra heima. Listamennirnir vinna báðir innan sjálfskipaðra ramma – Kathy eftir formi og stærð, Eggert eftir efnivið – sem í höndum þeirra virðist ótæmandi uppspretta nýrrar nálgunar.