
- This event has passed.
Dokað við trist
14 janúar–12 febrúar

Ekki alls fyrir löngu voru þeir garpar Gunnar Jónsson og Sigurður Ámundason á ferð yfir hálendið. Skyndilega gekk yfir landið mikill stormur og illfært varð til ferðarlaga. Þá voru góð ráð dýr en til mikillar lukku urðu þeir varir við sæluhús eitt, fjarri allri byggð. Ekkert annað í augsýn en veðurbarið fjalllendið. Náttúran getur verið svo mikil ofgnótt. Í sæluhúsinu dvöldu þeir um tíma og sem betur fer höfðu þeir birgðir nægar. Landslagið í kring hafði svakaleg áhrif á hugmyndaflug tvíeykisins; litirnir sem stöku sinnum var hægt að greina í öllum þessum gráma, tvískinnungurinn í jafnvægi þess manngerða við náttúruna. Svolítið trist, en á sama tíma fallegt.
Gunnar Jónsson (1988) útskrifaðist úr bakkalárnámi við myndlistadeild Listaháskóla Íslands árið 2012. Síðan þá hefur hann haldið fimm einkasýningar, tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis sem og erlendis. Gunnar vinnur mest með myndbönd og hljóðinnsetningar sem miðil í verkum sínum en vinnur einnig ljósmyndaverk og vatnslitamálverk. Hann býr og starfar á Ísafirði.
Sigurður Ámundason (1986) útskrifaðist úr bakkalárnámi myndlistardeildar Listaháskóla Íslands árið 2012 og hefur síðan haldið ellefu einkasýningar, tekið þátt í fjölda samsýningu og flutt tugi gjörninga. Sigurður notast mest við teikningar en skapar einnig innsetningar, skúlptúra, vídeóverk, bókverk, ljósmyndir og leikverk.