
- This event has passed.
Elísabet Brynhildardóttir: Elsti neistinn
11 september, 2021–16 október, 2021

Verið velkomin á sýningu Elísabetar Brynhildardóttur í Y gallery.
Verkin á sýningunni eru öll undir áhrifum rýmisins, sprengikraftsins sem kúrir undir okkur og dagsbirtunnar sem rétt svo kemst inn. Standandi á þrútnum eldsneytistönkum er fátt annað hægt að hugsa um en orku, sprengikraft og gegndarlausa þenslu. Sköpunin er tifandi tímasprengja, eitthvað springur og um tíma er stór og mikil þoka af óformuðum hugmyndum sem hvergi eiga heima og geta tekið á sig ótal myndir. Stundum örsmá, stundum hæg, stundum leiftursnögg, stundum ljót, stundum óumbeðin og svo samtvinnuð líkamanum að kveikja þarf í henni til að hún hverfi.
Augnablik sköpunnar gengur þvert á tíma og rúm og er áframhald elsta neistans sem heldur áfram að þenjast.
Hann er enn sýnilegur í sjónvarpssnjó túbusjónvarps, en í einu prósenti þeirrar yrjóttu myndar má sjá ljóslifandi bakgrunnsgeislun miklahvells, neistans sem skapaði allt.
Kærar þakkir fá Róbert Gíslason, Brynhildur Flóvenz, Daníel Friðriksson, Árni Friðriksson, Ísleifur Friðriksson, Haukur Óskarsson og Siglingafélagið Ýmir.