Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Gallerí Gangur í 40 ár

3 febrúar4 júní

Gallerí Gangur er listamannarekið sýningarrými sem stofnað var af myndlistarmanninum Helga Þorgils Friðjónssyni árið 1979 og er líklega elsta einkarekna gallerí landsins sem starfað hefur samfellt frá stofnun. Gangurinn hefur alla tíð verið rekinn á heimili Helga, en starfsemin hófst með sýningu á verki Hreins Friðfinnssonar For the Time Being snemma árs 1980 að Laufásvegi 79. Frá Laufásveginum flutti Gangurinn í Mávahlíð 24, síðan á Freyjugötu 32, þaðan á Rekagranda 8, og er nú í Brautarholti 8 en árin 2017–2018 hafði Gangurinn einnig útibú á Kárastíg 9 á Hofsósi á meðan Helgi bjó þar ásamt fjölskyldu sinni um eins árs skeið.

Meginmarkmið Helga með stofnun sýningarrýmisins á heimili sínu var að kynna myndlist erlendra samtímalistamanna hér á landi, en þegar galleríið var stofnað var kynning erlendrar samtímalistar hérlendis mjög fátíð. Þess má geta að Helgi hafði áður komið að stofnun og rekstri nokkurra sýningarrýma og má þar nefna Gallerí Output sem hann stofnaði ásamt Þóri Vigfússyni árið 1975, Gallerí Suðurgötu 7, Gallery Lóu í Haarlem í Hollandi og Gallerí Vísi í dagblaðinu Vísi, sem öll voru stofnuð árið 1976, sem og Nýlistasafnið árið 1978.

Varla verður komið tölu á fjölda þeirra samtímalistamanna sem sýnt hafa verk sín í Ganginum á þeim 42 árum sem galleríið hefur verið starfrækt. Langflestir þeirra eru erlendir listamenn og sumir þekktir á alþjóðavísu. Þeir listamenn sem sýnt hafa í Ganginum fást við myndlist í ýmsum miðlum og hefur Helgi leitast við að sýna verk listamanna sem vinna með aðra strauma en tíðkast á Íslandi, t.d. ofurraunsæi, töfraraunsæi, ný-súrrealisma, geómetrísk flatarmálverk og hugmyndalist/konseptlist. Meðal þeirra eru Karin Kneffel, Milan Kunc, Helmut Federle, Stephen McKenna, James Rielly, Jan Knap, Sigrid Sandstrom, Robert Devriendt, Jenny Watson, Thomas Huber, Lisa Milroy, John Zürier, Urs Luthi og síðast en ekki síst svissneski listamaðurinn Martin Disler sem sýndi fyrstur erlendra listamanna í Ganginum árið 1980. Margir þessara listamanna hafa tengst landi og þjóð og haft áhrif á og auðgað íslenskt myndlistarlíf á margvíslegan hátt, t.d. með kennslu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, með þátttöku í sýningum í helstu söfnum landsins og með því að kynna íslenska listamenn erlendis. Þá hafa margir listamannanna dvalið um lengri eða skemmri tíma á Íslandi og má til að mynda merkja áhrif þess í ákveðnum verkum þeirra, svo að segja má að áhrifin séu á báða bóga.