
- This event has passed.
Hreinn Friðfinnsson: Hegðun 10
23 apríl, 2022–28 maí, 2022

Hreinn nýtir sér hversdagslegan efnivið til þess að halda áfram stöðugri rannsókn sinni á tíma, umhverfi, frásögn, minni og skilningi. Verk Hreins einkennast af áhrifaríkri og endurtekinni tjáningu, nokkurs konar ramma sem er kemur aftur og aftur fyrir í verkum hans. Sýningarstjórinn og listfræðingurinn Hans Ulrich Obrist hefur gefið þessari tjáningu Hreins heitið „tilfinningarík konseptlist“ en Hreinn hefur þann háttinn á í sköpun sinni frekar að draga úr frekar en að bæta við og sækir hann efnivið og vísanir í eigin lífsreynslu. Hann notast oft við efni sem eru í eðli sínu mjög brothætt, svo sem gler, lauf, fjaðrir og spegla, sem undirstrikar enn frekar hið skáldlega og hverfula eðli verkanna.
Sýningin í i8 tekur saman verk úr ferli Hreins sem hér spanna tæplega fimmtíu ára tímabil. Hreinn staldrar lengi við verk sín og geta þau teygt sig yfir langt tímabil, auk þess sem hann skoðar gjarnan aftur gömul verk og má því lesa samfelldan þráð í verkum hans, þótt efni og miðlar breytist í tímans rás. Nokkrir skúlptúrar á sýningunni eru dæmi um þessa nálgun listamannsins og má greina hvernig hugmyndir hans þróast eftir því sem tímanum vindur fram.
Suspended (1991 til dagsins í dag) er stór innsetning sem gerð er úr málningarprikum sem hengd hafa verið á vegginn. Hreinn hefur í áranna rás safnað slíkum prikum frá litlu fjölskyldufyrirtæki í Amsterdam sem framleiðir málningu, og hefur tekist að umbreyta þessum praktísku hlutum þannig að þeir fái nýtt sjónrænt gildi. Könnun Hreins á fagurfræðilegu gildi þessara tóla hefur hann fært áhersluna frá hinu hagnýta yfir í hið listræna.
Benda má á önnur verk á sýningunni sem dæmi um hvernig Hreinn hefur fengist við ljós og endurvarp. To Light Shadow and Dust (3 in a corner) er ný útgáfa af verki sem Hreinn byrjaði fyrst að fást við árið 1994 þar sem hann setur fram glerhillur, þaktar blaðgulli, sem komið er hér fyrir í einu horninu og birtan heldur áfram hinu skúlptúríska sjónarspili. TBD frá árinu 2022 er líka nýr skúlptúr sem sækir í gömul stef sem Hreinn hefur fengist við áður, en hér snýst allt um speglun, fjölföldun og skynjun og hversu langt er hægt að teygja lögun hins eiginlega hlutar.
Atelier Sketches er röð verka sem Hreinn hófst handa við í kringum 1990, þar sem hann fangar köngulóarvef sem myndast hafði í vinnustofu hans á milli tveggja glerplatna. Hreinn tók eftir því að þegar hann var fjarverandi frá vinnustofu sinni, sem er í gömlu skólahúsi að þá var enn unnið þar engu að síður, þar sem köngulær voru á fullu að spinna vef sinn dag og nótt. Það að upphefja sköpunarkraft köngulóanna varð reglulegur hluti að sköpun Hreins sjálfs.
Hreinn Friðfinnsson fæddist á Bæ í Dölum árið 1943 en hefur búið í Amsterdam allt frá árinu 1971. Hann útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1958 og var einn stofnanda hins sögufræga hóps SÚM árið 1969. Hreinn hefur sýnt víða um heim og má þar nefna mikilvægar einkasýningar í Malmö Konsthall í Svíþjóð (1978 og 2008); Le Magasin-Centre national d‘art contemporain í Grenoble í Frakklandi (1987); Listasafni Íslands (1993); Kyoto Art Center í Japan (2002); Domaine de Keguéhennec í Bignan, Frakklandi (2002); Serpentine Gallery í Lundúnum (2007); Centre d‘art Contemorain í Genf (2010); KW Institute for Contemporary Art í Berlín (2019) og Museum of Art and Design (MOAD) við Miami Dade College í Bandaríkjunum (2021-2022). Hreinn Friðfinnsson var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 1993 og árið 2000 hlaut hann hin mikilvægu verðlaun Ars Fennica.