
- This event has passed.
Hringfarar
9 október, 2021–28 janúar, 2022

Listamennirnir sem sýna eru, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, Guðjón Ketilson, Elsa
Dóróthea Gísladóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir.
Í hrynjanda dagsins, árstíðanna, uppvaxtar og uppskeru, stíga sól, tungl og aðrir
hringfarar víðfeðman dans sem byggir á upplifunum, reynslu og hugleiðingum hins
daglega lífs.
Í sköpunar og mótunarferlum náttúrunnar er talað um kolefnið sem hinn mikla
myndlistamann sem ber í sér hinar skapandi og mótandi frummyndir sem allt er sprottið
af. Inn í þessa ferla grípur hinn mannlegi vilji og með lífefldum aðferðum er talað um
hvata til að efla tíðni og skyn allra efnisþátta í þessum altæka dansi. Markmiðið er að
skapa tækifæri fyrir nýja skynmöguleika.
Listamennirnir sem hér koma saman vinna út frá náttúrulegum ferlum, efnivið og
samhengi.
Hver og einn hefur sína persónulega nálgun en sameiginlega mengið er efniviður úr
nærumhverfinu, sem unnið er með á eigin forsendum.
Sólveig Aðalsteinsdóttir hefur sett upp vinnustofu í Kjósinni og kjarnast verkefni hennar
um náttúruna, jarðefni og gróður, vöxt og umbreytingu. Að rækta garðinn sinn, til
líkamlegrar og andlegrar næringar má tengja pólitískt sem andóf gegn ríkjandi lífsmáta
og er liður i að leggja umhverfinu lið. Vaxtartími gróðursins, hægur eins og skynjunartími
hugans getur gefið listaverkinu bæði lit og form – sveigt og beygt vinnuferlið.
Elsa Dóróthea Gísladóttir vinnur gjarnan með hverfulleika, ræktun, lífkerfi og alkemíu
hvunndagsins. Tíminn er er mikilvægt element. Á teikniborðinu eru gerningar tengdir
þessum sviðum, ferlar sem ekki sér fyrir endann á en traust er sett á að útkoman eigi
sér sjálfstætt líf og tilgang í sjálfu sér jafnvel þó hún feli í sér niðurbrot, dauða eða
eyðileggingu.
Guðjón Ketilsson vinnur gjarnan með fundna hluti sem geyma minningar og sögur
liðinna atburða, skrásetur þá, endurskipuleggur og setur þá í annað samhengi.
Undanfarin ár hefur hann unnið með skrásetningu og myndgerð ýmissa vökva sem
tengjast hversdeginum. Eins konar dagbókarfærslur hans sem settar eru fram sem litir á
pappír með hugleiðingum um efnið og/eða atburði sem hugsanlega tengjast því.
Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir. Daglegt umhverfi hefur oft verið kveikjan að verkum
hennar. Svo sem rauðrófuhýði í vatni sem hefur myndað rauðan lit, pappírsörk á glugga
sem raki hefur teiknað á. Þessar tilviljanir eru kveikja að rannsókn hennar á litum úr
blómkrónum afskorinna blóma og jurta. Efnið heldur síðan áfram að lifa og breytast með
tímanum vegna áhrifa umhverfisins litur og lykt dofnar.
Opnunartími: virka daga 9 – 12 og 13 – 15.