Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Hulda Stefánsdóttir: Upphafið er í miðjunni

18 september, 20216 nóvember, 2021

Þegar þú gekkst inn í þetta sýningarrými varstu að koma einhvers staðar frá. Þegar þú yfirgefur þetta rými ferðu eitthvert annað.

Í fyrra gaf Hulda út bókverkið Time Map hjá Space Sisters Press í New York og þessi sýning spratt að einhverju leyti af þeim verkum sem þar er að finna. „Time Map er röð smærri verka, sem ég vann í brotakenndri samfellu yfir langt tímabil og enn eru að bætast við verk í þá heild.“ Verk úr bókinni, ásamt nýjum viðbótum, eru til sýnis í innri sal gallerísins. „Þetta er óbeint framhald,“ segir Hulda um stærri málverkin á sýningunni, en bætir við að hún hugsi verk sín þó aldrei í línulegu ferli. Það sé ekkert upphaf eða endir, heldur meira eins og óreiðukennd víxlverkun þar sem eitt leiðir af öðru. Og kannski er erfitt að sjá hvar uppsprettan hefst og hvert hún fer.

In media res

Tími hefur verið Huldu hugleikinn undanfarin misseri, eins og líklega okkur öllum. Allur þessi tími sem virðist vera að fara til spillis, allur þessi tími sem allt í einu kom upp í hendurnar á okkur. Biðin eftir hinu ókomna, biðin eftir að eitthvað líði hjá.

„Af hverju erum við alltaf að bíða eftir að einu ljúki og annað byrji?“

Hugtakið in media res er fengið úr latínu og þýðir „í miðju hlutarins“ eða „í miðri atburðarás“ og vísar til þess þegar frásögn hefst í miðju ferli. En hvað þýðir það svo sem? Mætti ekki ætla að það eigi við um alla heimsins atburði? Hver frásögn er afleiðing annarrar og aðdragandi þeirrar næstu.

Hulda segir að þetta tengist hennar eigin nálgun við listrænt ferli. „Ég nálgast það aldrei sem tabula rasa, óskrifað blað.“ Talið berst að myndverkum mannsins frá því í fornöld, gömlum steinristum sem sýndu form og línur. „Ég hef verið að velta fyrir mér þessari þörf mannsins til að tjá sig myndrænt og abstrakt. Þessari löngu og djúpu menningarsögu, hvernig verkin tali óhjákvæmilega inn í víðara ytra samhengi, bæði í tíma og rúmi.“

Tabula rasa

Hulda lýsir því hvernig hið kunnuglega birtist henni stundum í vinnuferlinu. Eitthvað kunnuglegt úr undirmeðvitundinni sem vekur forvitni hennar og löngun til að leita lengra. Ég bið hana að lýsa fyrir mér vinnuferlinu.

„Undanfarin ár hef ég verið að vinna dálítið með mörg þunn lög af striga. Lag eftir lag. Ég mála á undirlagið og svo legg ég örþunnan bómullarstriga yfir myndflötinn og mála aftur yfir. Það skín alltaf eitthvað í gegn.“

Hvítur strigi er ekki endilega nýtt upphaf.

En eitt er að mála, skrifa, skapa list og svo er annað að sýna hana, miðla til annarra. Er eitthvað ákveðið sem Hulda er með í huga þegar kemur að sjálfri sýningunni.

„Ég er ekki með ákveðna yfirlýsingu í huga,“ segir Hulda. Ég heyri strax á henni að tónninn breytist, skil að ég snerti á einhverju flóknu. Ég spyr hvort henni finnist krafa samfélagsins um yfirlýsingar listarinnar þreytandi. Hulda hugsar sig um. „Mér finnst listin að minnsta kosti ekki þurfa alltaf að ávarpa einhver tiltekin viðfangsefni,“ segir hún svo eftir dálitla stund. „Þó að listin sé aldrei óháð samhengi samtímans, þá talar hún líka þvert á tímann. Það er allt í lagi að bara sleppa, koma og hrífast með – eða ekki.“

Og þarna skil ég skyndilega betur hvaðan hún kemur. Ég hika dálítið áður en ég spyr hana hvort hún trúi á umbreytingarmátt listarinnar. Það hljómar svo háfleygt, en ég held ég verði að fá svarið.

„Já,“ svarar hún án umhugsunar. „Bara absalút, alltaf. Ég les ljóð, hlusta á tónlist, horfi á kvikmynd, skoða myndlist og það gerist eitthvað. Ég trúi á mátt sköpunarinnar. Ég hef verið svona síðan ég var unglingur.

Kannski er ég naív en fyrir mér er þetta svona.“

Það er hægt að koma inn á myndlistarsýningu, úr hvaða átt sem er, og gjörbreytast. Halda síðan áfram með eigin sögu. In media res.

Halla Þórlaug Óskarsdóttir

Details

Start:
18 september, 2021
End:
6 nóvember, 2021
Event Tags:
,
Website:
http://bergcontemporary.is/exhibitions/upphafid-er-i-midjunni-in-media-res/

Venue

BERG Contemporary
Klapparstígur 16
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
Phone:
+354 5620001
View Venue Website