Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

IMMUNE/ÓNÆM

19 mars, 20221 maí, 2022

Immune / Ónæm er afrakstur tveggja ára rannsóknar- og samstarfsverkefnis 11 alþjóðlegra listamanna, hönnuða, fræðimanna og sýningarstjóra sem fjallar um afnýlenduvæðingu, hinsegin vistkerfi, vinnsluauðvald og þjóðarímyndunarsköpun út frá sameiginlegum upphafspunkti: Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og myndinni sem þar er dregin fram af náttúrunni. Hópurinn kemur úr ýmsum áttum og er eitt af leiðarstefum verkefnisins að nota Ísland, þessa einangruðu eyju og vistkerfi, sem flöt til að varpa á hugleiðingum um pólitíska, samfélagslega og efnahagslega þætti sem varða náttúruna.

Ríkuleg viðburðadagskrá mun fara fram samhliða sýningunni, svo sem vinnustofur, gjörningar og opnar samræður.

Í tilefni sýningarinnar verður Steinunn Gunnlaugsdóttir og Bryndís Björnsdóttir með verk og gjörð fyrir framan Marshallhúsið, hluta af sýningartímanum.

 

Texti sýningarstjóra:

IMMUNE / ÓNÆM er alþjóðlegt listrannsóknarverkefni sem byggir á Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (1772) og skrásetningu þeirra á náttúru Íslands. Markmið verkefnsins er að endurskoða ritið með sérstaka áherslu á vensl við náttúruna og hugmyndir okkar um nýtingu á henni. Árið 1752 skipaði danska krúnan tveimur íslenskum þegnum, skáldinu og lögfræðingnum Eggerti Ólafssyni og lækninum Bjarna Pálssyni, að ferðast um Ísland til að safna skýrslum um lífið á eyjunni. Markmið þeirra var meðal annars að meta nýtingarkosti eyjunnar sem nýlendu/hjálendu Danmerkur og afmá um leið áður ríkjandi goðsaganakenndar, framandi frásagnir af eyju skrímsla og eldavatna. Eftir fimm ára leiðangur var skýrsla tvíeyksins, Ferðabók, gefin út á fjórum tungumálum: dönsku, þýsku, frönsku og ensku. Það var þó ekki fyrr en nær tveimur öldum síðar, árið 1943, sem bókin kom út í íslenskri þýðingu, einu ári áður en Ísland fékk fullt sjálfstæði frá Danmörku. Yfirráð Danmerkur á Íslandi var ekki síst skilgreint út frá einokunarversluninni, sem einangraði búsvæði eyjunnar rækilegar en landfræðileg staðsetning hennar hefði gert ein og sér. Í þjóðernishreyfingu 19. aldar voru hefðir og tungumál uppspretta nýrra gilda og sjálfsmyndar. Skýrsla Eggerts og Bjarna varð að grundvallarviðmiði um hvað skilgreindist sem íslensk náttúra og er enn notuð sem slíkt viðmið í dag. Með IMMUNE /ÓNÆM verkefninu tóku þátttakendur Ferðabókina fyrir sem upphafsreit samtals um núverandi tengsl samfélags og náttúru, þá meðal annars með þær breyttu flutningaleiðir í huga, sem vegna bráðnunar íss eru um þessar mundir að skapa nýjar hreyfingar sjóleiðis.

Með nýjum dreifingarleiðum heimsmarkaðarins hafa í gegnum aldirnar skapast ný búsvæði þangað sem örverur geta streymt og dafnað. Á einangruðu Íslandi var hinsvegar þessum áhrifum nýlendustefnunar að nokkru leyti snúið við. Í verkefninu er ætlunin að skapa vettvang til að skoða með hvaða hætti hægt er að mynda leiðir í samlífi mannveru og náttúru. Áhersla verkefnisins á örveruna er í takt við hugmynd Suely Rolnik um tilvistarhætti örsviðs sem getur truflað nýlendukapítalískt meðvitundarleysi. Rannsókn verkefnsins lagði fram áherslu á mögulega virkjun líkamlegrar getu fyrir ljóðrænar- pólitískar athafnir. Rolnik heldur því fram að án slíkrar virkjunar sé „eini möguleikinn að skapa tilbrigði við framleiðsluaðferðir huglægni og skilnings sem skilgreindu okkur sem nýlendur Vestur-Evrópu – einmitt ástandið sem við viljum flýja.”

Verkefnið veitir vettvang til að kanna og efla þá næmni sem felst í listrannsóknum með því að rýna í þessa skrásetningu frá 18. öld og hvernig efni hennar birtist okkur í dag. Líkt og titill verkefnsins gefur í skyn – I MM U N E / Ó N Æ M – er ætlun okkar sú að brýna mikilvægi þess að læra að vera næm/ur, og leggja þar með áherslu á að auka vitund um náttúruna. Verkefnið mun hugsa Ísland út frá hugtakinu jarðmótun (e. terraforming). Félagsfræðingurinn Benjamin H. Bratton hefur bent á það hugtak í tengslum við mannauðsöldina, við erum þessa stundina að mæta jörðinni í tilraun til þess að gera hana “jarðlega” aftur, líkt og um slíkt ferli væri að ræða á annarri plánetu. Ísland, þar sem geimfarar 20. aldar æfðu tunglendingar, má líta á sem viðstöðulausa tilraun til jarðmótunar.

Það er jarðhitavatnið sem gerir eyjun lífvænlega, sem einmitt er kjarni ýmissa rannsókna um uppruna lífs á öðrum plánetum.

Í ferðasögum líkt ogFerðabókinni, varÍsland lengi talið hin ystu mörk siðmenningar. Í 19. aldar ferðabókmenntum var íbúum eyjunnar lýst sem villimönnum í jaðri Evrópu. Um svipað leyti lagði sjálfstæðishreyfing Íslands að mestu áherslu á miðaldabókmenntir sem undirstöðu þjóðarímyndar. Það er hins vegar þessi sama sjálfsmynd sem varð að undirstöðu þjóðarímyndar Vestur-Evrópu, sem hefur verið beitt af hinum ýmsu pólitískuöflum til þess að sundurgreina samfélagshópa.Ísland erþví mjög mikilvæg staðsetning, landfræðilega og menningarlega, til þess að efla og endurvekja hugmyndina um samstöðu og þá sérstaklega þverþjóðlega samvinnu.

 

Verkefnið er styrkt af:

Nordic Culture Point, Nordic Culture Fund, Goethe-Institut London, Danish Art Council,, Swedish Art Grants Committee, Vísindi og velferð: Styrktarsjóður Sigrúnar Júlíusdóttur og Þorsteins Vilhjámssonar, Reykjavíkurborg, Myndlistarsjóður