Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Jón Helgi Hólmgeirsson: Og svo kemur sólin

10 nóvember, 202220 nóvember, 2022

Það er skýjað, þoka, súld.
Umhverfið er grátt og rennur saman í eitt. Og svo kemur sólin. Umhverfið skerpist, lifnar við og dýpkar.

Sýningin Og svo kemur sólin er önnur einkasýning á vegghengdum listaverkum eftir Jón Helga Hólmgeirsson en þar vinnur hann með samspil sólarljóss og skugga. Á sýningunni fangar hann fagurfræðina í nærumhverfi okkar en myndirnar eru skornar beint í rammagler verkanna. Án sólar eða ljóss sést ekkert í rammanum, rétt eins og í þoku, en þegar það rofar til birtist mynd inni í rammanum. Verkin haga sér mismunandi eftir magni ljóss í rými en lifna fyrst við þegar sólin leikur um þau, þar sem þau hreyfast í takt við sólarganginn. Verkin eru unnin upp úr ljósmyndum sem Jón Helgi hefur tekið víðsvegar um landið. Myndunum er umbreytt í línuteikningar á stafrænu formi sem síðan eru sendar í gegnum tölvustýrðan fræsara sem sker verkin út í gler með demantshníf.

“Hugmyndina fékk ég þegar ég sá ryk á listaverki í stofunni hjá mér sem varpaði skugga inn í rammann á því. Ég ákvað að prófa að skera í gler og sjá hvort það myndi hafa sömu áhrif. Eftir tilraunir með mismunandi bakgrunna og fjarlægð þeirra frá glerinu fann ég milliveg sem skapar þetta þokukennda ástand verksins þegar það er skýjað en skýra mynd þegar sólin skín. Viðfangesefni myndanna eru því hlutir og form úr nærumhverfinu sem birtast, skýrast og skerpast þegar sólin lætur sjá sig.”

 

Jón Helgi Hólmgeirsson er menntaður vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands og samspilshönnuður (e. interaction design) frá Háskólanum í Malmö. Frá útskrift hefur hann komið að fjölda hönnunarverkefna, t.a.m. fyrir IKEA og FÓLK Reykjavík en hefur síðan árið 2015 gegnt stöðu yfirhönnuðar hjá íslenska tónlistartæknifyrirtækinu Genki Instruments. Verk hans hafa birst í fjölmörgum miðlum og verk hans verið sýnd á hönnunarhátíðum víða um heim. Þá hefur hann hlotið virt hönnunarverðlaun á borð við Red Dot Design Awards og Hönnunarverðlaun Íslands. Árið 2020 hélt hann sína fyrstu einkasýningu á prentverkum á kaffihúsinu í Ásmundarsal undir heitinu ‘Mikilvægar ítranir’ þar sem hann lagði fram endurbætur á hinni íslensku orðabók vegna breyttra aðstæðna í heiminum. Nú fetar hann nýja slóð en á sýningunni ‘Og svo kemur sólin’ nýtir hann þekkingu og reynslu sína úr heimi vöruhönnunar við gerð verkanna.

Details

Start:
10 nóvember, 2022
End:
20 nóvember, 2022
Event Tags:
,
Website:
https://www.asmundarsalur.is/

Venue

Ásmundarsalur
Freyjugata 41
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
View Venue Website