Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Katrín Sigurðardóttir: Til staðar

22 maí, 202121 september, 2021

Til STAÐAR er ein af þremur innsetningum/sýningum sem Katrín hefur unnið í jafnmörgum landsfjórðungum hér á landi árið 2020-21: Við Hoffell undir Vatnajökli, á Skarðsströnd við Breiðafjörð og í Svalbarðshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu.

Hugmyndin að baki verkinu tengist samspili hráefnis á ákveðnum stað, mannlegu inngripi og ferlum náttúrunnar. Verkið er sumarsýning ársins 2021 í Sýningarrými Nýpur á Skarðsströnd.

TIL STAÐAR er innsetning í náttúrulegt umhverfi. Á sýningunni eru þrjú ljósmyndaverk ásamt heimildum um gerð verkanna, myndband og ljósmyndir á borðum. 

Undanfarin ár hefur Katrín unnið með jörðina og frumferla náttúrunnar í verkum sínum. Þessir ferlar, sem eru hefðbundin viðfangsefni fornleifafræði og jarðfræði, bera fortíðinni og minni efnisins vitni, sýna brot af sögu jarðar og mannkyns. Katrín notast við aðferðafræði námuvinnslu þar sem hún beinlínis nemur efni úr jörð og nýtir framleiðsluferla og flutningsaðferðir sambærileg við aðferðir sem tengdar hafa verið við iðnvæðingu og nýlendustefnu.

Í verkinu TIL STAÐAR  skilur á milli að Katrín skilar efninu aftur til upprunastaðar. Katrín hefur gefið efninu form byggingareininga/bygginga um stund og varðveitt augnablikið í ljósmyndunum. Síðan raðar hún einingunum að nýju á þann stað þar sem hún gróf efnið upp og við tekur náttúruleg þróun; jörð snýr aftur til jarðar. 

Í verki Katrínar má lesa marglaga frásögn um örlög manneskjunnar.  Stef sem á öllum tímum hafa verið viðfangsefni lista og menningar. Forgengileiki tilverunnar og getan – eða vanmátturinn – til að horfast í augu við hann. En í verkinu birtist jafnframt áhugaverðar vísanir – og spurningar – um efni listaverka, gildi listrænnar ástundunar, markaðsásælni samtímans, virði listaverka, kostun og fjármagn. Undir hvaða kringumstæðum þrífast listir og menning? Hvað þarf til? Ratar listin til sinna eða er hún á tuttugustu og fyrstu öld með öllu undirorpin fjármagni stórfyrirtækja?

Við látum gestinum eftir að finna sínar tengingar við verk Katrínar, vissulega opnar það hugann fyrir margvíslegum hugrenningum.

 

Katrín Sigurðardóttir hefur á 30 ára ferli sínum sýnt skúlptúra, teikningar, ljósmyndaverk og stórar innsetningar sem leitast við að hafa áhrif á/umbreyta reynslu og upplifun áhorfandans. Katrín hefur átt velgengni að fagna innan listheimsins og verk hennar hafa verið sýnd hér heima og víða erlendis.

Hún hefur m.a. verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, á Sao Paulo Tvíæringnum í Brasilíu, Momentum í Noregi og Rabat tvíæringnum í Marokkó. Einkasýning hennar í Metropolitan safninu í New York borg árið 2010 vakti mikla athygli. Verk hennar eru í eigu Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur en einnig  stórra alþjóðlegra safna s.s. Metropolitan Museum í New York.

Sýning hennar í Sýningarrýminu að Nýp mun standa frá 22 maí og fram í október 2021. Vinsamlega hafið samband og bókið heimsókn: nyp@nyp.is

Details

Start:
22 maí, 2021
End:
21 september, 2021
Event Tags:
,
Website:
https://nyp.is/til-stadar-2021/

Venue

Nýp sýningarrými
Guesthouse Nýp
Skardsströnd, 371 Iceland
+ Google Map
View Venue Website