Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Krot & Krass: Viðarverk

12 mars, 202223 apríl, 2022

Tvíeykið Krot & Krass sem samanstendur af þeim Birni Loka (f. 1991) og Elsu Jónsdóttur (f. 1990) opnar einkasýningu sína sem ber titilinn Viðarverk í Hverfisgalleríi á laugardaginn. Á sýningunni verða ný skúlptúrverk sem unnin eru í rekavið og steypu. Samhliða verkunum hefur Krot & Krass unnið rannsóknarskýrslu sem gefin er út sem sérstakt bókverk. Höfðaletur hefur verið helsta hugðarefni Krot & Krass undanfarin misseri en letrið kom fyrst fram í íslenskum útskurði á 16. öld. Höfðaletur getur verið torlæsilegt og hefur allt frá uppruna sínum verið sveipað dulúð.

 

Menning, salt og volk

Öll komum við úr sjónum. Við þekkjum teikningarnar úr líffræðibókunum. Lífið kviknaði í sjónum en á einhverjum tímapunkti skriðu fiskarnir á land, slímugir og hreistraðir, en einnig afar hungraðir í kókoshnetur og sólskin og aðrar lystisemdir jarðarinnar. Og þannig urðum við til. Við veltumst upp á land eins og fyllibytta sem hrynur niður stiga. Og þó að því hafi fylgt átök er líka pínu ferskt að stíga upp úr sjónum með saltstrokið hörund.

Ef maður býr á eyju er ekki erfitt að sjá þetta. Hafið er grundvöllur allrar menningar. Öll komum við jú af hafi, eða að minnsta kosti forfeðurnir. Meira að segja svínin í þessu landi þurftu upphaflega að ferðast yfir hafið. Allt kom yfir hafið. Stafrófið, kristindómurinn, einokunarverslunin, breikdans, áfergja í sólþurrkaða tómata. Allt eru þetta hlutir sem skoluðust upp á land í misgóðu ástandi. Því að hafið tekur sinn toll. Ekkert kemur óvelkt af hafi. Kaþólskan var útvötnuð á afskekktu eyjunni, miðað við Vatíkanið. Prestar máttu giftast, þeir máttu líka bregða sverði og drepa, eða kannski máttu þeir það ekkert – en aðeins hafið vissi upp á þá sökina. Frá meginlandinu barst einnig höfðaletrið, hið fræga gotneska letur sem varð að eins konar einkennismerki prentaldar. En hér á eyjunni varð letrið öðruvísi. Það varð einhver bjögun á leiðinni yfir hafið, eða kannski þróun. Það fer eftir því hvernig á það er litið. Þetta hefur listadúóið Krot og Krass stúderað.

Það eru þó ekki aðeins hugmyndir og fólk sem hefur rekið hér á land. Líka ýmis önnur aðföng sem bjargað hafa lífi eyjarskeggja. Það er sagt að rekaviður sé prýðilegur til húsbygginga enda hafa ófá hús verið reist úr honum í gegnum aldirnar. En kannski er rekaviður aðeins prýðilegur efniviður fyrir þá sem hafa í raun ekkert val. Það var annaðhvort rekaviður eða enginn viður. Einhverjir kostir eru þó augljósir. Rekaviðurinn hefur velkst um í sjónum og ýmsar bugður og kvistir kvarnast burt í volkinu. Sjórinn greinir stofna frá sprekum. Þá hefur verið sagt að saltið í sjónum auki endingu viðarins. Eða kannski var það misheyrn. Salt eykur allavega endingu matvæla og lífið er saltfiskur og á einhvern hugmyndafræðilegan hátt er þjóðlegt að byggja hús sitt úr söltuðu timbri. Það fylgir því öryggistilfinning að sitja inn í húsi úr söltuðu og sjóreknu timbri. Fyrst hafið gat ekki grandað því fara veður og vindar varla að vinna mikið tjón.

Þetta er þó ekki það sem heillar mest við rekavið. Það er fremur volkið sjálft. Dulúð ferðalagsins. Enginn veit í raun hve lengi viðurinn er búinn að vera í sjónum áður en hann rekur á land. Það eru engir dagsetningarstimplar á drumbunum. Ekkert vottorð eða kvittun eða QR-kóði. Sjórekið timbur er kannski síðasta sendingarformið sem er algjörlega tilviljunarkennt í veröld þar sem allt er skráð, flokkað, mælt og vegið. Virðið þá fyrir ykkur. Þessa sjóreknu, útskornu drumba sem standa fyrir framan ykkur. Ímyndið ykkur ævi þeirra. Fyrst voru það áratugir í skóginum, kannski í Síberíu, kannski í Alaska, og hugsanlega svo djúpt inn í óbyggðum að í námunda við þá voru gerðar kjarnorkusprengjutilraunir sem aldrei voru tilkynntar. En á einhverjum tímapunkti hættu þeir að vera tré og urðu að niðursöguðum drumbum. Það var stóra áfallið. Svo var það ferðin niður ána, eða eftir veginum, eða járnbrautarteinunum, því að einhvern veginn ferðuðust þessir drumbar að hafi. Síðan tíminn í hafinu. Innan um ísjaka og rostunga, maðka og mátt Guðs. Og svo á svörtum íslenskum sandi, undir kríunum, í hvínandi söltum vindinum. Þaðan upp á pallbíl. Bandarískan, viljandi hallærislegan töffarapallbíl og inn á vinnustofu listafólks með meiningar. Þar voru þeir útskornir og stroknir og þvegnir og settir inn í galleríið og svo er aldrei að vita nema næsti fasi þessarar sögu fari fram inn á heimili vogunarsjóðs-síkópata þar sem stundaður er djass og fokk undir skörðum mána.

Virðum þá fyrir okkur. Þetta eru drumbar, saltaðir kögglar, þeir risu kannski ekki eins og Bond-stelpa úr hafinu, en þeir eru ferskir og saltaðir. Bæði útvatnaðir en líka mergþéttir. Sigldir en þjóðlegir. Þeir eru voðaverk, viðarverk, timbraðir, flúraðir gúbbar og maður vill ekki mæta þeim á bílastæðinu fyrir utan Stjörnubíó. En við fáum stund með þeim hér, á eigin forsendum, fáum að finna af þeim lyktina, anda að okkur sögunni.

Bergur Ebbi

 

Krot & Krass eru tvíeykið Björn Loki (f. 1991) og Elsa Jónsdóttir (f. 1990) og hafa verið starfandi í áratug. Tvíeykið rekur 1200 m² vinnustofu í Gufunesinu sem ber nafnið FÚSK. Þau eru meðeigendur í Skiltamálun Reykjavíkur sem sérhæfir sig í uppsetningu á stærðarinnar veggverkum fyrir listamenn. Krot & Krass hafa stundað kennslu við Listaháskóla Íslands, Lýðskóla Flateyrar og Fjölbraut í Breiðholti og staðið að lista- og tónlistarhátíðum á borð við Buxur, Happy Festival og Gambri, Berlín.

Details

Start:
12 mars, 2022
End:
23 apríl, 2022
Event Tags:
, , ,
Website:
https://hverfisgalleri.is/exhibition/vidarverk-2//bio/

Venue

Hverfisgallerí
Hverfisgata 4
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
View Venue Website