
- This event has passed.
Ragnar Kjartansson: Sumarnótt
7 maí, 2021–19 september, 2021

Á björtum sumarmánuðum sýnir Listasafn Íslands vídeóinnsetninguna Sumarnótt (Death Is Elsewhere) eftir Ragnar Kjartansson sem hann tók upp á íslenskri nótt, þegar aldrei dimmir. Þetta sjö rása verk er ein þeirra stóru vídeóinnsetninga sem hafa verið áberandi í listsköpun Ragnars síðustu ár þar sem endurtekningar, tími og rúm leika veigamikið hlutverk.
Í Sumarnótt er sótt á kunnugleg mið þar sem andi rómantíkur og sæluríkis er alls ráðandi. Áhyggjuleysi og angurværð svífur yfir vötnum þar sem ung pör ganga um fábrotið undirlendi og syngja við gítarleik. Með samhverfri mynd og síendurtekinni laglínu dregst áhorfandinn inn í óendanleika hringrásar verksins þar sem feigðinni er haldið fyrir utan um leið og stöðugt er minnt á hana.
Sumarnótt er tekið upp í Eldhrauni, skammt frá upptökum hinna sögulegu Skaftárelda sem ollu miklum hörmungum á Íslandi og víða í Evrópu síðla á 18. öld. Ragnar vísar til eldsumbrotanna og sögunnar með vali á staðsetningu og fléttar verkið einnig saman við íslenska listasögu, til að mynda með vísan í landslagsmyndir Jóns Stefánssonar og ekki síst í sjálfa sumarnóttina sem var íslenskum landslagsmálurum afar kært myndefni framan af síðustu öld, þegar fyrstu kynslóðir íslenskra listamanna komu fram.
Ragnar Kjartansson fæddist í Reykjavík árið 1976. Hann stundaði nám við Listaháskóla Íslands 1997–2001, auk skiptináms við Konunglegu listakademíuna í Stokkhólmi.
Ragnar er þekktasti myndlistarmaður þjóðarinnar nú um stundir og eru verk hans sýnd í virtum söfnum víða um heim.
Ragnar var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2009 og árið 2019 var vídeóinnsetning hans The Visitors valið besta listaverk 21. aldar af Guardian. Death Is Elsewhere var fyrst sýnt í Metropolitan-safninu í New York árið 2019 og er þetta í fyrsta sinn sem verkið er sett upp hér á landi.
Verkið er tileinkað Carolee Schneemann.
Details
- Start:
- 7 maí, 2021
- End:
- 19 september, 2021
- Event Tags:
- Listasafn Íslands, Ragnar Kjartansson
- Website:
- https://www.listasafn.is/syningar/death-is-elsewhere
Venue
- The National Gallery of Iceland
-
Fríkirkjuvegur 7
Reykjavík, 101 Iceland + Google Map - View Venue Website