
- This event has passed.
Reykjavík Art Book Fair
12 nóvember, 2021–14 nóvember, 2021

Listabókamessa með áherslu á bókahönnun, útgáfu og prent sem listform sem er í stöðugri þróun.
Verið hjartanlega velkomin á opnun Reykjavík Art Book Fair í Ásmundarsal föstudaginn 12. nóvember kl.18. Reykjavík Art Book Fair byggir á vinsælu alþjóðlegu sýningarsniði listbókamessunnar. Messurnar sem haldnar eru víðsvegar um heim sameina listamenn og hönnuði sem nota bókverkamiðilinn sem listform, lítil listbókaforlög, gallerí og söfn sem stunda útgáfu á prentuðu efni.
Útgangspunktur messunnar er að líta á bókahönnun, útgáfu og prent sem listform sem er í stöðugri þróun. Prentið hefur oft verið nefnt lýðræðislegasti listmiðillinn þar sem hann er aðgengilegur öllum, hver sem er getur stundað sjálfsútgáfu og stjórnað dreifingu efnisins.
Listbókamessur ýta undir þá hugmynd þar sem þær eru einn af fáum viðburðum í listheiminum þar sem óþekktir listamenn, aktívistar, grasrót og gagnmenning sýna samhliða þekktum listamönnum, stofnunum og sölugalleríum. Þátttakendur sjá um sölu á eigin efni og rennur ágóðinn óskiptur til þátttakenda.
OPNUNARTÍMI MESSUNNAR:
Fös 12.nóv 18:00 – 21:00
Lau 13.nóv 11:00 – 17:00
Sun 14.nóv 11:00 – 17:00
DAGSKRÁ HELGARINNAR:
Dunce tímarit útgáfuhóf Í Gryfjunni 12.nóv frá kl. 18:00 – 21:00
Dunce er árlegt tímarit um kóreógrafíu og gjörningalist gefið út hjá Prenti & vinum í ritstjórn Sóleyjar Frostadóttur, hannað af Helgu Dögg Ólafsdóttur. Tímaritið býður upp á faglega umfjöllun um verk og listrænt ferli danshöfunda og myndlistarmanna sem vinna með gjörningaformið. Dunce veitir viðtöku textum frá listamönnum um eigið skapandi ferli en með því gefst lesandanum tækifæri til að kynnast verki listamannsins af meiri dýpt.
Annað tölublað Dunce inniheldur meðal annars vital Joe Keys við Ilmi Stefánsdóttur um verk hennar á sviði myndlistar og leikhúss, viðtöl við Sigtrygg Berg Sigmarsson, Sigurð Guðmundsson, Natalia Villanueva Linares, Gjörningaklúbbinn, Steinunni Ketilsdóttur og Ingrid Berger Myhre auk skrifa listamanna s.s. Sólbjartar Veru Ómarsdóttur um sýningu Yelena Arakelow og Gígju Jónsdóttur um eigið verk.
Hvít sól útgáfuhóf í Gryfjunni, 13. nóvember frá kl. 11-17
Bókverkið Hvít sól er myndræn samantekt á samnefndum sýningum hópsins IYFAC. Sýningarnar samanstóðu af innsetningum og gjörningum sem haldnir voru á árunum 2017-2021 í ýmsum útgáfum á fimm mismunandi stöðum. Viðfangsefni þeirra var sólargangurinn og áhrif sólar og birtu á menn og samfélög. Samhliða útgáfunni verður gefin út ljósmyndaserían Veiddar sólir sem er sprottin upp úr hugmyndaheimi Hvítrar sólar, og verður til sýnis á meðan á útgáfuhófinu stendur. Einnig verða sýnd brot úr sýningunum ásamt hljóðmynd verksins eftir Daníel Helgason.
Höfundar verksins eru Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir og Sigrún Hlín Sigurðardóttir. Verkefnið er styrkt af Myndlistarsjóði.
Koma jól? Útgáfuhóf sunnudaginn 14. nóvember frá kl. 13–17
Koma jól? er jólaljóðabók eftir Hallgrím Helgason og Rán Flygenring sem kveðst á við fræga bók Jóhannesar úr Kötlum, Jólin koma. Hér er að finna nýjustu fréttir af Grýlu og Jólakettinum og þá stíga hinar jökulhressu Grýludætur, systur jólasveinanna, fram úr þúsund ára löngum skugga bræðra sinna
og arka til byggða, hver með sínu lagi og hrekkjabrögð í farteskinu.
Í tilefni útgáfunnar mun Hallgrímur lesa upp úr bókinni í tvígang, fyrst klukkan 14 og aftur klukkan 15. Kakó og pipakökur í boði.
Dúkristur Ránar verða sýndar í Gryfjunni frá 11–17 og tölusett eintök í takmörkuðu upplagi til sölu.
Öll velkomin nema Grýla – léttar veitingar í boði.