
- This event has passed.
Sara Riel: Destination Mars
26 mars, 2022–24 apríl, 2022

„Destination Mars er sjónræn geimferð frá jörðinni til Mars og aftur til baka. Listamaðurinn beitir fjölbreyttri tækni til að fjalla um grundvallarspurningar sem snerta uppruna, tilgang, siðferði og örlög.
Mikilfengleiki vísindaafreka mannsins kallast á við smæð hans í geimnum. Tæknihyggja og framfaratrú mætir dulspeki og fortíðarrómantík. Geimferðir sýna okkur jörðina í nýju ljósi en afleiðingarnar eru að þær þekja hana smám saman geimrusli, svo hætt er við að við lokumst inni í sjálfsköpuðum ruslahjúp.
Þrátt fyrir útbreiddan miskilning um að geimurinn sé hið nýja villta vestrið, eru fimm alþjóðasáttmálar í gildi. Einn þeirra er Útgeimssamningurinn (Outer space treaty) sem er alþjóðlegur samningur 129 landa, sem samið var um á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, árið 1967. Samkvæmt sáttmálanum er öllum frjálst að kanna geiminn. Ekkert ríki getur kastað eign sinni á nærliggjandi plánetur og vopn eru ekki leyfileg í kringum sporbaug jarðar. Margt er þó óljóst í lögunum – til dæmis hver ber ábyrgð á geimruslinu sem verður til ef eitt ríki sprengir gervihnattardisk annarars ríkis. Alþjóðasamningur um skaðabótaskyldu frá árinu 1972, kveður á um að allt sem fer út í geiminn, þarf að vera nákvæmlega skrásett og ríki séu ábyrgð fyrir því sem skotið er út í geim, frá þeirra yfirráðasvæði. Einnig eru lögin óskýr varðandi hvort einkafyrirtæki megi hefja námugröft í geimnum. Í framtíðinni getur verið að ýmis hráefni verði sótt til nærliggjandi pláneta frekar en í námur á jörðinni.
Um miðjan nóvember 2021 skaut Rússland flugskeyti á eigið gervihnattatungl. Sprengingin olli því að meira en 1500 stærri brot og mörg hundruð minni dreifðust um sporbaug jarðar.
Sjö alþjóðlegir geimfarar voru í alþjóðlegu geimstöðinni (ISS) þegar sprengingin varð. Hún myndaði þykkt geimruslaský sem geimstöðin fór í gegnum á 90 mínutna fresti. Þetta gerði dvölina í geimstöðinni fjórum sinnum hættulegra en ella. Beiting vopna í geimnum, eins og í þessu tilfelli, getur sett af stað keðjuverkun sem erfitt er að vinda ofan af.
Milljarðamæringar (Musk, Bezos, Branson) hafa þróað nýjar eldflaugagerðir sem gera það bæði ódýrara að ferðast út í geim og senda upp gervihnetti í einkaeigu. Hvaða áhrif mun aðkoma milljarðamæringa að geimferðum hafa á afstöðu okkar til almennra ferðalaga og/eða búflutninga út í geim?
Bandaríkin, Kína og Sameinuðu arabísku furstadæmin sendu öll geimflaugar af stað til Mars árið 2020. Markmiðið er að rannsaka reikistjörnuna, kortleggja og taka sýni með aðstoð vélmenna.
Þegar geimjeppinn Perseverance lenti á Mars 2020, kom í ljós að forsvarsmenn NASA höfðu skrifað með dulmáli á fallhlíf jeppans. Forvitnir áhorfendur réðu fljótlega í leynilegu skilaboðin: „Dare mighty things“ – tilvitnun í Theodore Roosevelt, forseta Bandaríkjanna á fyrstu árum tuttugustu aldar. Roosevelt er þekktur fyrir áhuga sinn á náttúrufræði, verndun skóga og stofnun fjölmargra þjóðgarða, um leið og hann hélt áfram útþenslustefnu Bandaríkjanna.
Hubble geimsjónaukinn sem skotið var upp í geim 1990 var sá öflugasti þar til James Webb sjónaukanum var skotið út í geim á jóladag 2021. Vísindamenn vona að sjónaukinn geri þeim kleift að skoða tilurð og uppruna annara sólkerfa og stórauka líkurnar á að finna reikistjörnu sem svipar til jarðarinnar. James Webb kom auga á sína fyrstu stjörnu 11. febrúar 2022.
Bjartasta stjarnan á himninum, séð frá jörðinni, er Síríus. Stjarnan er einnig þekkt sem Canis Major eða Hundastjarnan. Nafnið er dregið af gríska orðinu Seirios sem merkir að glóa. Ólíkir menningarheimar, á mismunandi tímum, um allan heim, hafa tengt stjörnuna við úlf eða hund og litið á hana sem uppsprettu mikillar visku og valds. Þessar hugmyndir má finna í steinaldarsamfélögum við upphafi siðmenningar, hjá frumbyggja í samtímanum og í helstu höfuðstöðum hins vestræna heims. Síríus virðist vera mikilvæg í trúarbrögðum og andlegri iðkun auk þess sem hún er oft miðpunktur í merkingafræði leynilegra samfélaga og dulspeki allt til dagsins í dag.
Tunglið er það himintungl sem fer hraðast um í sólkerfinu okkar. Hringrás þess hefur áhrif á sjávarföll, tíðahring og hvernig við mannfólkið mælum tímann eða upplifun okkar á tíma. Fullt tungl er þegar tunglið er nákvæmlega öfugum megin við sólina, á ferðinni sinni umhverfis jörðina. Þessi andstæða sem er samstæða, yingið og yangið, myrkrið og ljósið, gefur rými til að gefast upp og finna fyrir auknu tilfinningaflæði. Í andlegri iðkun hefur fullt tungl verið tákn um endalok hringrása, venja og sambanda.
Í bók Enoks og fleiri trúarritum frá um þriðju til fyrstu öld fyrir krist, er fjallað um Sariel, fallinn engil. Sariel fór ásamt öðrum englum niður til jarðarinnar til að sænga með jarðneskum konum en villa um fyrir og spilla mönnunum. Englarnir kenndu þeim að gera vopn, verjur og skartgripi og ýmislegt um snyrtivörur og galdra. Sariel kenndi mönnunum gang himintunglanna.“
Sara Riel & Kári Gylfason
Sara Riel (f. 1980) nam höggmyndalist við Kunsthochschule Weissensee Berlin, og útskrifaðist með meistaragráðu og sem heiðursnemandi DAAD 2005 og meistaranemi (post-grad) árið 2006.
Sara hefur frá námsárunum tekið virkan þátt í alþjóðlegu starfi götulistamanna í Evrópu og víðar. Hin fjölmörgu veggverk sem finna má á byggingum í Reykjavík þekkja flestir sem eru kunnugir í höfuðborginni, enda eru mörg verkanna orðin samofin borgarlandslaginu.
Myndlist Söru einkennist af tilraunamennsku, leikgleði og tæknilegum metnaði. Sara hefur tileinkað sér fjölbreytta tækni sem hún notar til að útfæra verk sín. Öll eiga þau þó rætur í teikningunni enda lítur hún fyrst og fremst á sig sem teiknara.
Samhliða veggjalistinni hefur Sara þróað sitt eigið myndræna tungumál og hefur sterkt höfundaeinkenni. Hún hefur sýnt verk sín í flestum höfuðsöfnum Íslands og tekið þátt í fjölmörgum sýningum hérlendis og erlendis og verið heiðruð af virtum menningarstofnunum. Verk eftir hana eru í eigu bæði stofnana og einkasafnara. Hún er meðlimur í Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur og SÍM.