
- This event has passed.
Steingríms Eyfjörð: Wittgenstein? & Félag um lifandi þjóðtrú
17 september, 2022–29 október, 2022

Í verkum Steingríms á sýningunni koma fyrir textabrot og myndefni er vísa annarsvegar til íslenskrar þjóðtrúar og hinsvegar til skrifa heimspekingsins Ludwig Wittgensteins, nánar tiltekið til rits hans Bemerkungen über die Farben (Nokkur orð um liti), er hann ritaði ári fyrir andlát sitt, 1950. Í ritinu veltir Wittgenstein vöngum yfir tengslum sjónskynsins, lita, rökhugsunar og tungumálsins, þáttum er hann hafði skrifað um í gegnum allan sinn feril. Í anda Wittgensteins spyr Steingrímur í eigin verki frá árinu 1978; „Er til litur sem er ekki til?“ og tengir slíkar spurningar þá og nú við það samkomulag mannkyns um að það sem sé til sé í senn tilbúningur.
Í verkum sýningarinnar, sem gerð eru á árunum 2021-22, á Steingrímur í samtali við Wittgenstein, listina sjálfa sem fyrirbæri og sjálfan sig um fjórðu víddina, skynjun lita og ímyndunaraflið sem hið sterka afl er mannkynið virkjar í auknum mæli með tilkomu aukinnar myndrænnar tækni sl. alda. Í litríkum verkunum koma fyrir nokkurskonar blindpunktar (e. blind spot) fyrir miðju, sem fulltrúar fyrir hina ósýnilegu liti og það sem verður ekki lýst með orðum og enginn sér á sama hátt. „Í þessum samræðum öllum leggur listamaðurinn sjálfur línurnar og heilmikla þekkingu til, sem hann safnar að sér á afar opinn máta, laus við allt stigveldi og línulega formfestu“ segir í texta sýningarskrár eftir Birtu Guðjónsdóttur listfræðing.