Loading Events

« All Events

Þorgerður Ólafsdóttir: Séstey / Hverfey

14 nóvember, 202123 desember, 2023

Á sýningunni Séstey / Hverfey sýnir myndlistarkonan Þorgerður  Ólafsdóttir ný listaverk og aðra muni samhliða fastasýningu Surts eyjarstofu í Vestmannaeyjum. Á sýningunni veltir Þorgerður upp  hugmyndum um hvernig nýr staður verður til í menningarlegum  skilningi og gerir tilraun til að kortleggja breytileika Surtseyjar út  frá náttúrulegum ferlum og þeim sem við mannfólkið ýtum af stað.  

Fyrir sýninguna skoðaði Þorgerður meðal annars rekaefni frá  Surtsey og fótspor varðveitt í móbergi í samhengi við minjar og  táknmyndir mannaldar. Athygli gesta er einnig dregin að helsta  einkenni Surtseyjar, norðurtanganum, sem gæti verið horfinn  eftir 20 ár og samansafni af steinasýnum frá fyrrum systra-eyjum  Surtseyjar, þeim Syrtlingi og Jólni. 

Að nema nýtt land, að eigna sér stað 

Á sýningunni er fágætt myndskeið af sögulegum viðburði þegar  þrír Frakkar stigu fyrstir manna á strönd nýrrar eyjar, settu upp  franska fánann og lýstu eyjuna franska nýlendu. Landganga Frakk anna flýtti fyrir ákvörðun örnefnanefndar um nafngift eyjarinnar  og viku seinna var því lýst yfir að nýja eyjan skyldi heita Surtsey.  Eyjan hafði þá verið kölluð ýmsum nöfnum, þ.á.m. Séstey, Nýey,  Gosey, Vesturey, Hverfey og Frakkey eftir nýafstaðna ævintýraför  gömlu nýlenduherrana. Titill sýningarinnar er því vísun í eina af  þessum nafnatillögum og vitnar í þetta millibilsástand á meðan  Surtsey var enn að verða til sem skilgreindur staður.  

Að marka varanleg spor 

Eitt af verkefnum jarðfræðileiðangursins út í Surtsey sumarið 2021  var að skoða fótspor sem talin eru vera frá 1965 og varðveist hafa  í gjósku í hlíðum Austurbunka. Í dag eru þau orðin að varanlegu  og augljósu fari í móberginu. Nokkur fótspor fundust til viðbótar  í leiðangrinum og þar á meðal mjög greinilegt spor eftir nettan fót  sem hefur verið útfært í nákvæma eftirlíkingu fyrir sýninguna. 

Heimildirnar um landgöngu Frakkanna og fótsporin sem varð veitt eru í móbergshlíðum Surtseyjar, bera óneitanlega keim af  fyrstu tunglgöngunni og minna okkur á að áhrifa mannsins gætir  á einangruðum stöðum sem og í geimnum.  

Að ná utan um það sem við skiljum ekki  

Í ljósmyndaseríunni Sögumenn (Storytellers) er rýnt í sögu framand steina og sjórekins plasts. Talið er að framandsteinar sem fundist  hafa á Surtsey, hafi komið með ísjökum frá Grænlandi, sokkið  niður á hafsbotn og síðar komið upp á yfirborðið í eldgosinu sem  myndaði Surtsey. Í nokkur ár hefur Umhverfisstofnun farið fyrir  hreinsun á sjóreknu plasti og öðru rekaefni á Surtsey sem skolar á  land. Hægt er að bera kennsl á flesta hlutina og áttað sig á því hvert  fyrra hlutverk þeirra var. Aðrir hafa ferðast óravegu og umbreyst  svo mikið og mótast af sögu sinni að þeir eru óþekkjanlegir í dag.  

Þessir ólíku munir, framandsteinar og plast, eiga það sameigin legt að vera samansafn af því umhverfi sem þeir hafa ferðast um þar  til þeir enduðu báðir á Surtsey. Í verki sínu nálgast Þorgerður þessa  muni af forvitni og spyr – ekki hvað

Þessir ólíku munir, framandsteinar og plast, eiga það sameigin legt að vera samansafn af því umhverfi sem þeir hafa ferðast um þar  til þeir enduðu báðir á Surtsey. Í verki sínu nálgast Þorgerður þessa  muni af forvitni og spyr – ekki hvað þeir voru, heldur hvað þeir eru  í dag og veltir fyrir sér hvaða sögu þeir hafa að segja.  


Þorgerður Ólafsdóttir (f. 1985) er myndlistarkona sem býr og 
starfar í Reykjavík. Í verkum sínum skoðar hún ólíka hluti og fyrir bæri sem eru samofin skilningi okkar og sambandi við náttúruna á  tímum mikillar vitundarvakningar. Hún vinnur með hugmyndir  um tíma, minjar og birtingarmyndir mannaldar og sameinar  viðfangsefni sín þvert á fræðasvið með aðferðum myndlistar.  

Þorgerður útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá Glasgow  School of Art árið 2013. Hún var formaður stjórnar Nýlistasafnsins  á árunum 2014–2018 og hefur unnið að ýmsum sýningum, sjálf stæðum verkefnum og útgáfum hér heima og erlendis. 

Hún er hluti af þverfaglega rannsóknarverkefninu Relics of  Nature, an Archaeology of Natural Heritage in the High North sem  snýr að menningar – og náttúruminjum á norðurslóðum á tímum  loftslagsbreytinga.