Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Þorvaldur Jónsson: Tilvaldar hallir

21 ágúst, 20215 september, 2021

Laugardaginn þann 21 ágúst opnar Þorvaldur Jónsson sýninguna Tilvaldar hallir /Palais Idéal í Listamenn Gallerí á Skúlagötu. Á sýningunni má sjá málverk af heimilum listamanna. Sýningin stendur til 5 september.

Heimili og hús eru ekki hið sama. Heimili er ekki hlutur. Líkt og listaverk samanstendur það ekki af áþreifanlegu efni einu saman. Minningar, persónulegar athafnir og venjur okkar innan rýmisins setja mark sitt á það sem að endingu kallast heimili. Á vendipunkti fortíðar og framtíðar verður heimili til, smátt og smátt, með tímanum. Andi hússins verður til.

Andi húss er þó ekki annað en endurvarp þeirra einstaklinga sem í húsinu dvelja. Sviðsetning persónulegra minninga. Jafnvel mætti líta á heimilið sem samskiptatæki íbúans gagnvart heiminum út á við, eins konar spegil sjálfsmyndarinnar. Í verkum Þorvaldar Jónssonar á sýningu þessarri má líta heimili tuttugu og tveggja listamanna, enduróm þeirra á sjálfum sér. Þau skera sig frá fyrri verkum hans að því leyti að ekkert kvikt er að finna innan verkanna og rata áhorfendur því inn í hin kyrrlátu, en jafnframt forboðnu augnablik sem fylgja því að vera stödd inni á heimili án íbúa síns. Úr verða litlar ráðgátur, portrettmyndir jafnvel, þar sem andlitsdrættirnir kunna að samanstanda af verkfærum, sundlaugum eða dyrakörmum.

Titil sýningarinnar má rekja til franska alþýðulistamannsins og bréfberans Ferdinand Cheval, sem eyddi bróðurparti lífs síns í að sanka að sér steinum í smábænum Hautierives. Smátt og smátt tóku steinahrúgur hans á sig mynd og úr varð hið stórkostlega byggingarafrek, Palais Idéal. Steinvölu fyrir steinvölu, byggði hann tíu metra háa höll á þrjátíu og fjórum árum, án nokkurrar sérstakrar menntunar eða aðstoðar. Á hliðum byggingarinnar má lesa eins konar möntru listamannsins „Verk eins manns”, en hann sótti sér innblástur til hins sögufræga Napóleóns Bonaparte, sem áður hafði fullyrt að ekkert væri ómögulegt. Á öðrum stað má lesa að „með þessum steini vil ég sýna fram á hve miklu viljastyrkur fær áorkað.”

Úr steinvölunum skar hann út litla engla, ýmsar fígúrur er minntu á trúarleg goð hindúa, egypskar múmíur og ufsagrýlur, allt það sem kunni að fanga athygli hans, heimsmynd hans öll samankomin á einum stað. Vert er að taka fram þá miklu gagnrýni sem Sceval varð fyrir meðal samferðamanna sinni í Frakklandi á meðan byggingunni stóð. Hann átti þó síðar eftir að verða átrúnaðargoð súrrealista, og veita listamönnum á borð við Pablo Picasso, André Breton, Max Ernst og nú síðast Þorvaldi, ótvíræðan innblástur með sköpun sinni.

Í verkum Þorvaldar Jónssonar má finna ýmsar hliðstæður við Cheval. Hann leitast við að skera út smágerð augnablik sem fyrirfinnast í hversdagsleikanum, yfirleitt fjarri skarkala borgarlandslagsins, en skilja þó eftir sig manngerðar leifar, jafnvel ómandi plötuspilara eða byssupúður á jörðinni.

Úr verða ímynduð sögusvið, þar sem getið er í eyður á milli hluta. Á sýningu þessarri leyfir hann hlutum og byggingum að segja sögu listamannanna hverju sinni, og heiðrar með því ævistarf og frásagnir þeirra. Í verkum sínum varpar Þorvaldur nýju ljósi á margbreytilegan bakgrunn og lífssýn þeirra einstaklinga sem hann velur. Rithöfundar, myndlistarmenn, arkitektar, kvikmyndagerðamenn og lífskúnstnerar verða hans steinvölur, ef áfram mætti líkja honum við Ferdinand Cheval, svo úr verður forvitnilegt samansafn. Með sýningunni varpar hann ennfremur ljósi á þær aðstæður sem listamennirnir höfðu til eigin sköpunar, sem bergmálar í mörgum tilfellum tíðaranda og viðhorf samferðafólks þeirra gagnvart listinni. Sumum hafa verið reistar reisulegar hallir fyrir almannafé, á meðan aðrir hafa gert sér náttúruna að góðu, eða jafnvel farartæki sín. Síðast en ekki síst má líta óhjákvæmilegar og persónulegar hallir, framlengingar sjálfsins, misjafnlega stórar í smíðum, en ríkar af andagift og persónulegri sýn.

Þorvaldur Jónsson (f. 1984) útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2009 og hefur síðan þá tekið þátt í fjölda sýninga, bæði hérlendis og utan landsteinanna, má þar helst nefna í Þýskalandi, Kína og Tyrklandi. Verk hans hafa meðal annars verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni í Kópavogi, Hafnarborg, Listasafni Akureyrar og Safnasafninu á Svalbarðsströnd. Þorvaldur er einn af stofnendum Gallery Ports á Laugavegi.

Tilvaldar hallir er hans sjöunda einkasýning. Þorvaldur býr og starfar í Reykjavík.
-Kristína Aðalsteinsdóttir

Details

Start:
21 ágúst, 2021
End:
5 september, 2021
Event Tags:
,
Website:
https://www.facebook.com/events/868100867461286?ref=newsfeed

Venue

Listamenn Gallerí
Skúlagata 32
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
View Venue Website