
- This event has passed.
Torg Listamessa
22 október, 2021–31 október, 2021

Torg Listamessa Reykjavík verður haldin dagana 22.-31. október nk. á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum.
Torg Listamessa Reykjavík er stærsti sýningar – og söluvettvangur íslenskrar myndlistar til þessa, þar sem sjá má á einum stað fjölbreytileg listaverk.
Listaverkin og listamennirnir eru í aðalhlutverki á messunni, listamennirnir sýna verk sín á eigin forsendum ýmist einir eða fleiri um hvern sýningarbás. Gestir og viðskiptavinir geta rætt við listamennina, fræðst um verk þeirra og störf, spjallað um sköpunarkraftinn, lífið og listina.
Söluverð verka rennur að fullu (100%) til listamannana, því messan þiggur enga þóknun fyrir sína þjónustu og engir milliliðir taka umboðslaun.
Torg Listamessa var fyrst haldin 2018 í tengslum við Mánuð myndlistar og er nú orðin árlegur viðburður sem mun auðga menningarlíf borgarinnar. Sambærilegar listamessur eru tíðar erlendis og hafa löngu sannað gildi sitt. Kallað hefur verið eftir slíkum vettvangi hérlendis. Ástæða er til að benda á að Torg Listamessa er einstætt framtak og fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Tilgangurinn er fjölþættur, að auka sýnileika myndlistarinnar, og gera fólki auðveldara fyrir að kynna sér samtímalist sem og að eignast listaverk eftir íslenska eða erlenda listamenn sem starfa hér á landi. Ætlunin er að veita áhugafólki um myndlist tækifæri til að fjárfesta í myndlist milliliðalaust og eiga um leið persónulegt samtal við listamennina sjálfa.
Sýningarstjóri Torgsins er Annabelle von Girsewald. Annabelle hefur unnið að nokkrum verkefnum á Íslandi undanfarin ár þ.á.m. Journey to Home fyrir Listahátíð í Reykjavík 2018, Earth homing: Reinventing turf houses í tilefni af Fullveldishátíð Íslands 2018. Annabelle hefur verið að vinna með íslenskum myndlistarmönnum síðan 2010.
Dagskrá Torgs Listamessu:
22.10 – Opnun Torgs frá 18-20
23.10-24.10 – Opið 12 til 18
28.10 – Langur fimmtudagur – Opið 18-22
29.10 – Opið 18-20
30.10-31.10 – Opið 12-18